Evrópumótið Dagný Brynjarsdóttir skoraði þriðja og síðasta mark Íslands á Evrópumótinu á Englandi 2022 þar sem íslenska liðið tapaði ekki leik.
Evrópumótið Dagný Brynjarsdóttir skoraði þriðja og síðasta mark Íslands á Evrópumótinu á Englandi 2022 þar sem íslenska liðið tapaði ekki leik. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Crewe Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Ég var hrikalega bjartsýnn þegar ég hélt af stað til Manchester á Englandi hinn 6. júlí, til þess að fylgja eftir íslenska kvennalandsliðsinu í knattspyrnu á Evrópumótinu á Englandi.

Í Crewe

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Ég var hrikalega bjartsýnn þegar ég hélt af stað til Manchester á Englandi hinn 6. júlí, til þess að fylgja eftir íslenska kvennalandsliðsinu í knattspyrnu á Evrópumótinu á Englandi.

Ólíkt mörgum fjölmiðlamönnum tók ég með mér stóra tösku, sem ég bókstaflega fyllti af dóti. Ég var búinn að sjá það fyrir mér, að ef allt gengi upp hjá íslenska liðinu, þá yrði ég á Englandi í að minnsta kosti þrjár vikur.

Það er kannski allt í lagi að taka það sérstaklega fram að ég fylgdi liðinu einnig til Hollands árið 2017 en þá tók ég talsvert minni ferðatösku með mér.

Undirbúningurinn fyrir þetta mót var allt öðruvísi en fyrir fimm árum síðan. Það var mikið áreiti í kringum liðið og væntingarnar voru skrúfaðar upp í hæstu hæðir. Í ár var þetta allt öðruvísi. Yfirlýst markmið liðsins var að vinna leik á mótinu.

Spenna í loftinu

Leikmenn liðsins voru yfirvegaðir í viðtölum sínum við fjölmiðla strax frá byrjun og það var ekkert endilega verið að hugsa um næsta leik, heldur meira verið að spá í næstu æfingu og næstu dögum framundan. Enginn fór fram úr sér, hvorki fjölmiðlar, stuðningsmenn né leikmenn eða starfslið landsliðsins.

Mikil spenna var í loftinu á fyrsta leik liðsins gegn Belgíu, hinn 10. júlí á akademíuvelli Manchester City í Manchester. Evrópumótið átti auðvitað að fara fram á Englandi á síðasta ári, árið 2021, en því var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins. Biðin var því orðin ansi löng.

Leikmenn íslenska liðsins voru lengi í gang gegn Belgum, sem má eflaust skrifa á hátt spennustig, enda um fyrsta leik liðsins á mótinu að ræða. Liðið fékk hins vegar vítaspyrnu í fyrri hálfleik en boltinn vildi ekki inn. Það reyndist saga íslenska liðsins á mótinu. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli, þar sem Ísland var mun sterkara, og leikmenn liðsins voru því að vonum svekktir með úrslitin.

Jafnteflin reyndust dýr

Í öðrum leiknum gegn Ítalíu var sagan svipuð. Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, gerði eina breytingu á byrjunarliði sínu frá leiknum gegn Belgum hinn 14. júlí í Manchester, þar sem bakvörður kom inn fyrir bakvörð. Ísland skoraði snemma í leiknum og það einkenndi leikinn svolítið. Á 61. mínútu fékk íslenska liðið dauðafæri til að klára leikinn en skotið fór framhjá. Ítalir brunuði svo fram í sókn og skoruðu mínútu síðar. Ísland fékk dauðafæri undir restina til að vinna leikinn en skotið geigaði og niðurstaðan 1:1-jafntefli.

Ísland þurfti því á sigri að halda í lokaleiknum gegn Frakklandi hinn 18. júlí á New York-vellinum í Rotherham til þess að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitunum. Landsliðsþjálfarinn gerði þrjár breytingar á byrjunarliði sínu frá leiknum gegn Ítalíu, þar af tvær á varnarlínunni. Ísland fékk á sig mark eftir einungis eina mínútu. Íslenska liðið lét hins vegar ekki slá sig út af laginu, þorði að halda í boltann og spila honum sín á milli. Frakkar skoruðu tvö mörk sem voru réttilega dæmd af undir lokin, áður en Dagný Brynjarsdóttir jafnaði metin fyrir íslenska liðið með marki úr vítaspyrnu og þar við sat; lokatölur 1:1.

Töpuðu ekki leik

Með sigri gegn Frakklandi hefði Ísland tryggt sér sæti í 8-liða úrslitunum en fyrir leikinn í Rotherham hefði íslenska liðið einnig getað komist áfram á jafntefli, eða tapi, gegn hagstæðum úrslitum í leik Ítalíu og Belgíu í Manchester. Belgar unnu nauman 1:0-sigur.

Ísland féll því úr leik á Evrópumótinu án þess að tapa leik og er það í fyrsta sinn í sögu keppninnar sem það gerist. Tilfinningin, eftir að liðið féll úr keppni í Hollandi árið 2017 með 0 stig, var sú að liðið hefði átt lítið sem ekkert skilið úr mótinu. Tilfinningin sem maður fékk eftir að liðið féll úr leik á mánudaginn var allt önnur. Stolt er fyrsta orðið sem kom upp í hugann.

Liðið var mikið gagnrýnt eftir frammistöðuna í Hollandi en það er erfitt að gagnrýna leikmenn eða upplegg þjálfarans eftir úrslitin í ár. Staðreyndin er sú að liðið var grátlega nálægt því að komast áfram en hlutirnir féllu ekki með okkur. Stöngin út.

Framtíðin er björt

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir voru að leika á sínu fyrsta stórmóti. Þær blómstruðu og báru uppi sóknarleik Íslands. Alexandra Jóhannsdóttir, Amanda Andradóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Guðný Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Sandra Sigurðardóttir, Selma Sól Magnúsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir léku allar sína fyrstu leiki á stórmóti.

Meirihlutinn af þessum leikmönnum er að stíga sín fyrstu skref með íslenska landsliðinu og þær fengu dýrmæta reynslu á stærsta sviðinu. Það sem meira er, þá stóðust þær allar pressuna og skiluðu góðri frammistöðu.

Frammistaða liðsins gegn Frakklandi var sérstaklega eftirtektarverð þar sem íslenska liðið þorði að halda boltanum og spila fótbolta gegn einu besta landsliði heims, ef ekki því besta. Eins kliskjukennt og það hljómar, þá fer þetta mót í reynslubankann og liðið mætir sterkara til leiks næst. Framtíðin er björt hjá kvennalandsliðinu og leikmenn liðsins geta borið höfuðið hátt eftir frammistöðuna á Englandi.