Geir Ágústsson
Geir Ágústsson
Eftir Geir Ágústsson: "Við erum afkomendur víkinganna og tölum tungumálið þeirra, segjum við með stolti. En í raun eru Íslendingar aðallega uppteknir af gildandi reglum."

Skemmtilegasta söguskýringin á stofnun íslenska þjóðveldisins, og sú sem við segjum útlendingum, er sú að stoltir og sjálfstæðir víkingahöfðingjar í Noregi hafi ekki viljað láta norskan konung kúga sig og því flúið yfir úfið haf til að festa rætur í frjálsu landi, með viðkomu á Bretlandseyjum til að sækja vinnuafl. Þessi andi sjálfstæðis, viljastyrks og dugnaðar hafi einkennt íslenska þjóð alla tíð síðan.

„Við erum afkomendur víkinganna og tölum tungumálið þeirra,“ segjum við með stolti. „Þetta reddast,“ segjum við og reynum að útskýra fyrir útlendingum hvað það þýði: Ekki of miklar óþarfa áhyggjur, enda þjóð á veðurbarinni eldfjallaeyju sem þarf alltaf að vera tilbúin að bregðast við með stuttum fyrirvara. Viðbúnaður án taugaveiklunar. Víkingar með varann á.

Eins vel og þetta hljómar þá þarf því miður að leita lengi til að finna hið svokallaða víkingaeðli í dag. Íslendingar eru orðnir að þjóð regluverks og hjarðhegðunar. Veirutímar voru hér upplýsandi. Samfélagið snerist um að hlýða fyrirmælum fólks sem vildi skerða athafna- og atvinnufrelsi almennings, klaga nágranna til lögreglu fyrir að hafa of marga gesti, ganga um með grímur við sem flest tækifæri, takmarka félagslíf barnanna og sprauta sig með nýstárlegum efnum með takmarkaðar rannsóknir á bak við sig (í nafni vísindanna, auðvitað, sem lofuðu endalokum heimsfaraldurs í skiptum fyrir inngripin). Við leyfðum hárinu að vaxa og spikinu að hlaupa af því að veiran faldi sig í hárgreiðslustofum og líkamsræktarstöðvum en ekki áfengis- og matvöruverslunum.

Nú eru þessir tímar sem betur fer afstaðnir (í bili) og fyrir aðdáendur víkingaeðlisins hafa þeir verið vonbrigði.

En það er ljós í myrkrinu og skal hér nefnt dæmi. Þökk sé nokkrum íslenskum „víkingum“ er nú hægt að kaupa áfengi og sækja eða fá heimsent samdægurs án þess að versla við ríkisverslun. Löglega, að því er virðist. Frumkvöðlar kynntu sér hið íslenska og evrópska regluverk og sóttu sér túlkun á því sem gerði þeim kleift að fara í eins konar störukeppni við yfirvöld: Hér er selt áfengi með nýjum hætti og hvað ætlar þú að gera í því? Þessir frumkvöðlar virðast ætla að hafa betur í störukeppninni og almenningur þarf ekki að gera annað en njóta, þökk sé mönnum af þeirri gerð sem fellur vel að söguskýringu okkar um víkingana sem stofnuðu íslenska þjóðveldið.

Okkur er alltof tamt að telja skrifaðar reglugerðir og orð mannvera í kjörnum og ókjörnum embættum vera hinn heilaga sannleika. Okkar eigin tilfinning fyrir réttu og röngu er látin víkja fyrir fyrirmælum annarra. Við tökum ólaunað að okkur hlutverk njósnara og leyniþjónustuaðila sem senda ábendingar á yfirvöld ef við sjáum brot á reglugerð. Við framfylgjum fyrirmælum hins opinbera af mikilli samviskusemi og hrópum jafnvel á ókunnugt fólk ef við sjáum brot á ráðleggingum minnisblaða. Við tökum lyf ef okkur er sagt að gera það, jafnvel án þess að spyrja um mögulegar aukaverkanir af slíku.

Nema auðvitað þegar við greiðum í reiðufé fyrir dekkjaskiptin, tökum með okkur meira áfengi í gegnum flugstöðina en skiltið segir til um og leyfum krökkunum að vera lengur úti að leika sér en lögreglan segir að sé í lagi. Það örlar aðeins á víkingaeðlinu, þegar vel er að gáð.

Haustið nálgast og nú þegar er byrjað að berja í trommur sóttvarnatakmarkana, í fyrstu hægt og rólega en sennilega sífellt harðar eftir því sem fyrstu haustlægðirnar nálgast. Tjaldborgir Þjóðhátíðar eru byrjaðar að rísa og fá sennilega að standa í ár, en þær hafa verið taldar mikil ógn við lýðheilsu almennings seinustu tvö ár. Það tekst kannski að klára sumarið án skerðinga. En hvað gerir víkingaþjóðin svokallaða þegar nýr sóttvarnalæknir vill merkja sér svæði eftir að sá fráfarandi er búinn að eyða öllu sumrinu í að vara við nýjum hættum og afbrigðum? Stendur hinn nýi sóttvarnalæknir á eigin fótum eða fylgir í fótspor orðuhafans? Og hvað ætlum við hin að gera? Hlýða? Eða sjá til hvort nýjasta kvefpestin gangi ekki bara yfir – sýnum mátulega varfærni að hætti víkinganna og látum þetta að öðru leyti reddast?

Höfundur er verkfræðingur. geirag@gmail.com

Höf.: Geir Ágústsson