Þakklátar Hallbera þakkar fyrir stuðninginn á EM ásamt Öglu Maríu Albertsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur.
Þakklátar Hallbera þakkar fyrir stuðninginn á EM ásamt Öglu Maríu Albertsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur. — Morgunblaðið/Eggert
Fótbolti Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Hallbera Guðný Gísladóttir lék sinn síðasta knattspyrnuleik á ferlinum er hún spilaði fyrstu 60 mínúturnar í 1:1-jafntefli Íslands og Frakklands á Evrópumótinu á Englandi. Eftir leik tilkynnti Skagakonan, sem er 35 ára, að skórnir væru komnir á hilluna.

Fótbolti

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Hallbera Guðný Gísladóttir lék sinn síðasta knattspyrnuleik á ferlinum er hún spilaði fyrstu 60 mínúturnar í 1:1-jafntefli Íslands og Frakklands á Evrópumótinu á Englandi. Eftir leik tilkynnti Skagakonan, sem er 35 ára, að skórnir væru komnir á hilluna.

„Maður er svolítið þreyttur núna en það er ekki búið að slá mig að ég sé hætt í fótbolta. Mér líður bara eins og ég sé að koma heim úr landsliðsferð eins og vanalega. Það kemur þegar maður fer að hafa of mikinn tíma til að hugsa um þetta,“ sagði Hallbera í samtali við Morgunblaðið. Hún var þá stödd á flugvelli í Riga á leiðinni heim til Stokkhólms þar sem hún býr með kærasta sínum.

Stolt af frammistöðunni á EM

Ísland gerði þrjú 1:1-jafntefli á Evrópumótinu og missti naumlega af sæti í átta liða úrslitunum. Hallbera er stolt af frammistöðu Íslands á mótinu og sérstaklega í lokaleiknum gegn Frakklandi. Hún segir tilfinninguna mun betri nú en fyrir fimm árum er liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á EM í Hollandi.

„Mótið sjálft fannst mér frábært. Frammistaðan hjá liðinu hefði getað verið betri og við sýndum ekki okkar allra bestu hliðar en mér fannst við standa okkur vel. Þetta er allt öðruvísi tilfinning en eftir síðasta mót, þar sem andrúmsloftið var þungt. Fyrstu dagana og vikurnar eftir það mót leið manni ekkert sérstaklega vel. Þetta er öðruvísi tilfinning núna. Þótt við séum svekktar og hefðum getað náð lengra, þá erum við stoltar. Við enduðum þetta á frábærum leik á móti Frökkum,“ sagði Hallbera um Evrópumótið.

Erfitt að vera ein í Kalmar

Hallbera skipti úr AIK í Stokkhólmi og fór rúma 400 kílómetra suður til Kalmar fyrir yfirstandandi leiktíð. Hún viðurkennir að það hafi reynst erfitt, sérstaklega þar sem kærastinn, Lukas Arndt, starfsmaður karlaliðs AIK, bjó áfram í Stokkhólmi.

„Mig langaði að klára árið og hjálpa landsliðinu að komast á HM, en þetta ár hefur ekki verið létt fyrir mig þegar kemur að fótboltanum. Ég fer til Kalmar og er svolítið ein þar, í burtu frá kærastanum í Stokkhólmi, og var ekki að njóta mín að spila fótbolta. Það vantaði neistann. Það er erfitt þegar maður er að gera eitthvað á hverjum degi, oftast marga klukkutíma á dag, og hefur ekki gaman af því. Ég ákvað því að það væri flottur tímapunktur að enda þetta á EM. Ég stefndi aldrei á að taka HM, ég ákvað það fyrir síðasta ár. Það var því geggjað að loka ferlinum á þennan hátt,“ sagði Hallbera.

Hefði hætt eftir síðasta tímabil

Evrópumótinu var seinkað um eitt ár vegna kórónuveirunnar og ákvað Hallbera fyrir vikið að lengja knattspyrnuferilinn. „Ég hugsa að ég hefði hætt eftir síðasta tímabil ef EM hefði verið á réttum tíma. Þegar EM var frestað hélt ég að það væri ekki möguleiki fyrir mig að ná mótinu. Ég hélt að það væri orðið of mikið að vera orðin 35 ára en svo náði maður að halda sér í fínu standi og einhvern veginn var þetta mögulegt. Þetta mót varð þannig að endapunkti í mínum huga.“

Hættir á miðju tímabili

Hún viðurkennir að það sé erfitt að leggja skóna á hilluna á miðju tímabili en Kalmar er í 11. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir fimmtán leiki. Hallbera lék þrettán af leikjunum fimmtán og er Kalmar því að missa mikilvægan leikmann.

„Það var erfitt. Ég er ekki vön því að standa ekki við gerða samninga og þetta er ekki draumastaða. En þetta var besta lausnin fyrir Kalmar og sjálfa mig. Félagið græðir ekkert á því að hafa leikmann sem er ekki að njóta sín og getur ekki gírað sig upp í leikina,“ bendir Skagakonan á.

Hallbera segir Evrópumótið á Englandi vera einn af hápunktunum á löngum og farsælum ferli en hún varð sjö sinnum Íslandsmeistari og fimm sinnum bikarmeistari, ásamt því að fara á þrjú Evrópumót með íslenska landsliðinu. Hún lék alls 131 landsleik fyrir Ísland og skoraði í þeim þrjú mörk.

Gaman ef ég hefði farið fyrr út

„Það sem er ferskast er þetta mót og það verður alltaf ein af mínum bestu stundum í fótboltanum. Þótt við færum ekki áfram þá spiluðum við góðan varnarleik, sem er mitt helsta verkefni á vellinum. Ég er ánægð með okkar frammistöðu á mótinu og þetta verður því hápunktur. En svo eru alls konar augnablik, eins og fyrsti Íslandsmeistaratitilinn, fyrsti bikarmeistaratitilinn og fleira. Þetta eru mörg augnablik sem maður hefur upplifað og maður er eflaust búinn að gleyma einhverjum. Mér finnst ég hafa náð að upplifa allt sem ég hefði viljað og það er ekkert sem ég sé eftir. Það hefði samt verið gaman ef maður hefði haft möguleikann á að fara fyrr út í atvinnumennsku. Ég fer ekki út fyrr en ég er orðin 25 ára gömul. Það hefði verið gaman að sjá hvað hefði gerst ef maður hefði farið fyrr út og gert atvinnumennskuna að meiri alvöru. Ég hef farið út þegar ég er í skóla og notað atvinnumennskuna þannig. Ég sé samt ekki eftir neinu og ég er virkilega sátt við það sem ég hef gert,“ sagði hún.

Yfirþyrmandi kveðjur

Hallbera fékk kveðjur úr öllum áttum þegar hún tilkynnti að skórnir væru komnir á hilluna. „Það er yfirþyrmandi og ótrúlega gaman. Mér þykir vænt um þetta. Það er gaman að fá kveðjur frá gömlum félögum, núverandi félögum og alls konar fólki. Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Maður er búinn að spila með ansi mörgum í gegnum tíðina.“

Hallbera ætlar sér ekki í þjálfun á þessum tímapunkti en fótboltinn verður áfram hluti af hennar lífi. „Ég er ekki að fara í neina þjálfun eða neitt þannig. Ég mun samt áfram horfa á fótboltann og kærastinn minn er að vinna hjá karlaliði AIK í Stokkhólmi. Ég mun mæta á alla leiki og fótbolti verður áfram stór hluti af mínu lífi. Þjálfun heillar ekki eins og er. Núna er ég bara atvinnulaus og þarf að fara að fá mér einhverja vinnu,“ sagði Hallbera Guðný létt að lokum.