Einar Þór Karlsson
Einar Þór Karlsson
Eftir Einar Þór Karlsson: "Héldu þá margir að í framhaldinu yrði tekið næsta skref; að finna Skólamunastofunni verðugt framtíðarhúsnæði."

Fyrir rúmu ári datt einhverjum í hug að henda Skólamunastofu Austurbæjarskóla í kassa og koma safninu í geymslu svo hægt væri að nota nær ónýtanlegt ris skólans í eitthvað annað. Skynsemin kom í veg fyrir þá framkvæmd og kom í veg fyrir menningarsögulegt stórslys. Héldu þá margir að í framhaldinu yrði tekið næsta skref; að finna Skólamunastofunni verðugt framtíðarhúsnæði þar sem safnið héldi áfram að vaxa og dafna. En kannski af því að það var kosningaár, kannski af því að skynsemisraddirnar voru orðnar hásar, gerðist það af einhverjum ástæðum ekki. Safnið hefur þó haldið áfram að stækka og eflast, þar sem það er í risi Austurbæjarskóla, og geymir nú fjölmarga ómetanlega muni úr sögu skólans, sögu Reykjavíkur, sögu skólahalds á Íslandi.

Nú, skömmu eftir kosningar, gerist það svo aftur, að einhverjum dettur í hug að kasta safninu á vergang, því ágæta fólki sem annast hefur safnið berst tilskipun um að pakka í kassa og koma því burt. Sagt er að heimskan ríði ekki við einteyming en hvernig það hefur gerst að þessi vitleysa með Skólamunastofuna fer af stað aftur er erfitt að skilja. Öll umræða fyrra árs hlýtur að hafa farið gjörsamlega fram hjá viðkomandi og því kannski nóg að upplýsa um hvað er í húfi til að viðkomandi sjái að sér og hætti við þessa vitleysu. Hverri sæmilega upplýstri og skynsamri manneskju ætti að vera ljóst hvílík þjóðargersemi Skólamunastofan er og hve mikilvægt er að hlúa að þjóðararfinum.

Því miður eru þó ekki allir upplýstir og skynsamir, það finnst fólk sem lítur á Kjarvalsmálverk sem olíu á striga, sér styttur Nínu sem tilhöggvið grjót og Skólamunastofuna sem gamlar skræður og skran. Slíkt fólk á ekki að ráða hvað verður um sögulega muni og listaverk. Hversu vel meinandi eða hvað gott viðkomandi gengur til með þessum mistökum, að ætla að leggja niður Skólamunastofuna, þurfa nú þeir sem vit hafa til og visku að grípa í tauminn og leiða viðkomandi af villu síns vegar.

Ég er fyrrverandi nemandi og kennari við Austurbæjarskóla, hef búið í Svíþjóð undanfarin ár en fylgst með og áður sett fram mínar skoðanir í þessu máli. Í maí síðastliðnum heimsótti ég svo Skólamunastofuna þegar hún var opin meðan á vorhátíð skólans stóð. Þar týndi ég mér algjörlega, en fann um leið tengsl við eldri nemendur – þá sem á undan mér höfðu gengið, og líka þá sem á eftir komu, skynjaði heild en um leið áhrifamikla einstaklinga, listamenn, persónuleika sem mótað höfðu samfélagið, skynjaði menntasöguna, menningarsöguna. Ekki var ég heldur einn um þessa upplifun, tugir einstaklinga á öllum aldri; frá börnum til eldri borgara, sem skoðuðu safnið á sama tíma og ég, virtust njóta þess ekki minna en ég, slíkt skynjar maður þótt maður sé upptekinn af að skoða. Eftir heimsóknina hafði ég á orði að þetta væri eins og að fara í Vetrarhöllina; ein heimsókn nægði engan veginn til að skoða allt og njóta alls, ég ætti eftir að koma aftur og aftur. Og ég vil geta komið aftur og aftur, ég vil hafa aðgang að menningararfinum, ekki bara fyrir mig heldur fyrir alla, fyrir ókomnar kynslóðir um ókomna tíð.

Ráðamenn Reykjavíkurborgar, gerið nú það sem gera þarf, finnið Skólamunastofunni varanlegt húsnæði þar sem hægt er að stilla upp þeim gersemum sem þar finnast. Fyrir börn og fullorðna að njóta og nýta, skoða og læra, þar sem hægt er að taka á móti einstaklingum og hópum, þar sem sagan lifnar við og menning og listir haldast í hendur á lifandi safni sem borgin og borgarbúar geta verið stolt af.

Höfundur er fyrrverandi nemandi og kennari við Austurbæjarskólann. einar.th.karlsson@gmail.com