Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Eftir Pálma Stefánsson: "Notkun vísindaþekkingar til að gera drápstól og hættuleg úrgangsefni verður að linna, mannkynsins vegna."

Eðlisfræði og afleiddar greinar eins og efnafræði, lífefnafræði, erfðafræði o.s.frv. hafa á minna en 100 árum gerbreytt lífi mannsins á jörðinni. Lítum til framfara í gerð sprengiefna (púðurs) sem hófst að vísu fyrst með byssupúðri er kom upprunalega frá Kína fyrir 1.000 árum. Fram að seinni heimsstyrjöld var sprengiefni efnafræðilegt og byggðist sprengikrafturinn á hröðum bruna kolefnis og vetnis, en þá tekur kjarnatæknin við og vetnissprengjur og nifteindasprengjur eru afraksturinn. Þótt dýnamít og fleiri gerðir hafi einnig friðsamleg not, m.a. við námagröft og grjótnám, þá er það eitt öflugasta efnafræðilega sprengiefnið enn í dag og leysti að mestu af byssupúðrið sem hafði verið allsráðandi til daga Alfreðs Nóbels.

Síðan hafa komið fram TNT og mörg fleiri efnafræðileg sprengiefni. En haldið var áfram að nota vísindin síðustu 70-80 árin í hertækni og með kjarnorkutækninni tókst að gera sprengiefni sem er meira en 50.000 sinnum sterkara en sami massi TNT og er aðalógnin í dag ef yrði notað. Segja má að hér hafi vísindunum ekki verið beitt í þágu mannkyns. Annað sem vísindin hafa líka gert og er eftiráséð óhagstætt varðar vinnslu og nýtingu jarðefnaeldsneytis (kol, jarðgas og hráolía), bæði til brennslu og í framleiðslu plastefna. Þetta hvort tveggja (CO 2 og plastagnir) stefnir í að gera jörðina illbyggilega vegna mengunar öndunarandrúmsloftsins og svo mengunar fæðu okkar og allra dýra.

Hér er bara nefnt fátt eitt af því sem vísindunum hefur mistekist að sjá við. En hvað stjórnar þessu? Misvitrum stjórnmálamönnum má líklega kenna um margt og hvernig komið er fyrir jarðarbúum því þeir hafa oftast gert þetta mögulegt af annarlegum ástæðum með fjármagni og lítilli framtíðarsýn í hagsmunaskyni. Meðan gróðahyggjan ræður virðast lögmál frumskógarins ráða för og ráðamönnum er fyrirmunað að stefna að bara hagnýtri og friðsamlegri notkun vísindanna öllum jarðarbúum til góðs, sem útrýmdi líka misskiptingu gæðanna.

Augsýnilega er þörf á allsherjarlögum fyrir alla á jörðinni ef ekki á illa að fara þar sem lífið sjálft, manna og lífríkisins, yrði aðalatriðið og yrði vandlega framfylgt af öllum jarðarbúum. Vísindin byggjast á frumrannsóknum og síðan oft hagnýtingu þeirra. En hér hefur verið farið í ranga átt hvað varðar heill mannkyns! Vísindi ætti bara að nýta til góðs.

Höfundur er efnaverkfræðingur. spalmi@simnet.is