Einar K. Guðfinnsson sendi mér góðan póst: Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri, lítur yfir Vallhólminn, Hólminn, í Skagafirði á sumarnótt. Sveipar Hólminn silkikóf, sumarslæða fjarðar. Þessa fegurð alla óf andardráttur jarðar.

Einar K. Guðfinnsson sendi mér góðan póst: Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri, lítur yfir Vallhólminn, Hólminn, í Skagafirði á sumarnótt.

Sveipar Hólminn silkikóf,

sumarslæða fjarðar.

Þessa fegurð alla óf

andardráttur jarðar.

Á Boðnarmiði rifjar Dagbjartur Dagbjartsson upp „Nokkrar gamlar vísnagerðarvísur“ og eru þetta þrjár þær fyrstu:

Auð minn finna aðrir, því

hann er í stökum mínum.

Augnablikið bundið í

bara fjórum línum.

Ef ég fer á annað borð

með andagift að bruðla

treð ég hugsun inn í orð

og orðunum í stuðla.

Stakan er ef marka má

margar vísur snjallar

afbragðs græja til að tjá

tilfinningar allar

Hólmfríður Bjartmarsdóttir yrkir að gefnu tilefni:

Þegar glösin tvisvar tvenn

ég tæmi, finn ég betur

hvað ég elska alla menn

Ólaf líka og Pétur.

Magnús Halldórsson yrkir og kallar „Rímæfingu“:

Hóls á bóli kroppar kind,

kjóls er skjóli rúin.

Fólsleg gjóla sönn er synd,

sól af róli flúin.

Gagaravilla hringhend eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Ævar Brekkan átti trukk.

Aldrei dekk á honum sprakk

uns af hrekk og eftir sukk

Ólöf Beck tók hníf – og stakk.

Veðrabrigði eftir Davíð Hjálmar:

Í gær var hér blíða og sumar og sól

og söngvar í víði og fjólur á hól.

Þó svara ég spurður hvort nokkuð sé nýtt:

„Nú er það svart maður, allt orðið hvítt.“

Og enn „Aðgerðarlaust veður“:

Veðrið er hvorki vont né gott,

varla svo heitið geti.

Þetta er hvorki þurrt nér vott.

Það er að deyja úr leti.

Pétur Bjarnason skrifar: „Ég auglýsti á fésinu eftir rabbarbara og fékk skjóta og góða úrlausn. Nú er sultugerð framundan“:

Það reynist oft gott að rabba bara,

rabba um daginn og veginn.

Nú á ég ríflegan rabbarbara,

rauðan, skorinn og þveginn.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is