Spennandi „Sandra Brown hakar í öll boxin og Klækjubrögð er ekki aðeins spennandi bók heldur líka góð tilbreyting frá norrænu glæpasögunum.“
Spennandi „Sandra Brown hakar í öll boxin og Klækjubrögð er ekki aðeins spennandi bók heldur líka góð tilbreyting frá norrænu glæpasögunum.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Söndru Brown. Ragnar Hauksson íslenskaði. Kilja. 485 bls. Ugla 2022.

Raðmorðingjar hafa orðið mörgum yrkisefni og Söndru Brown tekst sérlega vel upp í spennusögunni Klækjabrögðum, kemur lesandanum hvað eftir annað á óvart og heldur honum við efnið allan tímann í langri sögu.

Sagan snýst fyrst og fremst um meintan raðmorðingja, sem felur sig meðal annars á bak við ýmis nöfn, og Drex Easton, sérverkefnafulltrúa hjá bandarísku alríkislögreglunni. Hann sem hefur lengi fylgt manninum eftir og beitir óhefðbundum aðferðum sem falla yfirvaldinu ekki alls kostar í geð.

Þegar böndin beinast að ákveðnum manni í Suður-Karólínu stekkur Drex strax í djúpu laugina, flytur í hús við hliðina á húsi Jaspers Fords, sem hann telur vera Weston Graham, og hefst handa við að afhjúpa hann sem raðmorðingja. Jasper er ekkert barn að leika sér við og í hönd fer mjög spennandi atburðarás, þar sem ómögulegt virðist vera að grípa Jasper glóðvolgan, enda er hann háll sem áll og gefur engan höggstað á sér. Og morðunum fjölgar.

Söguþráðurinn er vel spunninn og helstu persónur eru skapaðar í hlutverkin. Allt virðist ganga vel fyrir sig en á sama tíma er ekkert í lagi og þegar á reynir virðist fátt ganga upp. Nema glæpirnir.

Samskipti fólksins eru líka ljóslifandi. Á yfirborðinu virðist allt vera slétt og fellt en flestir hafa samt varann á. Nándin er stundum mikil en ekki er allt sem sýnist. Áfram brunar lestin, traustinu er hvergi fyrir að fara, morðinginn er alltaf skrefinu á undan en í huga Drex snýst málið einfaldlega um að duga eða drepast.

Sandra Brown hakar í öll boxin og Klækjubrögð er ekki aðeins spennandi bók heldur líka góð tilbreyting frá norrænu glæpasögunum.

Steinþór Guðbjartsson