Nú þegar þátttöku Íslands á EM á Englandi er lokið treystum við á Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík og topplið Bestu deildarinnar í Breiðabliki að halda uppi heiðri Íslands í Evrópuknattspyrnunni í bili.
Nú þegar þátttöku Íslands á EM á Englandi er lokið treystum við á Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík og topplið Bestu deildarinnar í Breiðabliki að halda uppi heiðri Íslands í Evrópuknattspyrnunni í bili.

Við getum öll verið stolt af framgöngu Íslands á EM, þótt liðið hafi að lokum þurft að sætta sig við að falla úr leik í riðlakeppninni. Stelpurnar voru svo grátlega nærri því að komast áfram!

Víkingar heilluðu marga með frammistöðu sinni í Meistaradeild Evrópu. Liðið valtaði yfir Eistlandsmeistara Levadia Tallinn, 6:1, og vann fagmannlegan 1:0-sigur á Andorrameisturum Inter Club d'Escaldes. Fyrir vikið tryggðu Víkingar sér leiki gegn Svíþjóðarmeisturum Malmö, þar sem liðið lék gríðarlega vel og var að lokum hársbreidd frá því að komast áfram.

Á meðan komst Breiðablik örugglega áfram í 2. umferð Sambandsdeildarinnar með samanlögðum 5:1-sigri á UE Santa Coloma frá Andorra. Breiðablik vann góðan 1:0-útisigur og valtaði síðan yfir liðið á heimavelli, 4:1.

Nú eru liðin bæði í 2. umferð Sambandsdeildarinnar og leika fyrri leiki sína á heimavelli í kvöld. Heimavallarárangur Breiðabliks er magnaður og mætir liðið væntanlega með fullt sjálfstraust í leikinn gegn Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi.

Víkingur sýndi í leikjunum gegn Malmö að liðið er meira en tilbúið að láta að sér kveða í Evrópu í ár. Leiki Víkingur eins vel gegn The New Saints frá Wales ætti liðið að fara áfram. Áfram Víkingur og Breiðablik.