Guðbjörg Þórisdóttir fæddist í Neskaupstað 28. ágúst 1936. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 12. júlí 2022.

Guðbjörg var dóttir hjónanna Guðna Þóris Einarssonar, f. 15.5. 1913, d. 29.9. 1978, og Elísabetu Sigþrúðar Bergmundsdóttur, f. 21.3. 1916, d. 10.7. 1981. Guðbjörg átti tvö yngri systkini, þau Guðnýju Þóru Þórisdóttur, f. 5.7. 1941, d. 26.2. 1981 og Jóhann Ævar Þórisson, f. 19.2. 1946.

Guðbjörg var gift Hirti Arnfinnssyni, f. 5.11. 1936, d. 29.10. 2019. Saman áttu þau þrjú börn, Kristin Hjartarson, f. 10.10. 1958, giftur Klöru Jónasdóttur, Arndísi Hjartardóttir, f. 27.9. 1961, gift Vilhjálmi Skúlasyni, og Sigþór Hjartarson, f. 14.2. 1968, giftur Heiðlóu Ásvaldsdóttur. Hjörtur og Guðbjörg áttu saman níu barnabörn og fjórtán barnabarnabörn.

Guðbjörg var fædd í Norðfirði og bjó þar alla sína ævi. Hún fór snemma að vinna í fiski í frystihúsinu og vann þar alla sína starfsævi ásamt því að sinna störfum húsmóður.

Guðbjörg og Hjörtur voru ung þegar þau kynntust og giftu þau sig 24. maí 1958. Þau bjuggu alla sína búskapartíð í Neskaupstað.

Útför hennar fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 21. júlí 2022, klukkan 14.

Elsku amma, þú varst mér svo kær. Ég á svo margar góðar minningar með þér, þú varst mér alltaf svo innilega góð. Þú nánast gekkst mér í móðurstað þegar mamma veiktist og ég einungis fimm ára gömul. Ég man alltaf eftir þeim tíma, alltaf nóg af poppi, ís, spilum og knúsum. Ég fékk alltaf að kúra á milli ykkar afa og þar fannst mér langbest að vera, vildi ekki sjá það að vera í gestaherberginu og það skipti ykkur aldrei neinu máli. Þú söngst fyrir mig á hverju kvöldi úr söngbókinni þinni það þótti mér alltaf yndisleg gæðastund.

Kanaríferðirnar okkar eru mér ofarlega í minni. Mér þótti svo gaman að fara með ykkur til útlanda og gat óspart platað ykkur afa í að fara að kaupa „bara einn ís“ í viðbót. Þið vilduð endalaust leika við mig og ef ég stakk upp á einhverju þá var svarið alltaf já.

Ég kom daglega til þín alla mín barnæsku því hjá ykkur afa var yndislegt að vera. Einnig leitaði ég stíft til þín með prjónaverkefnin mín úr skólanum þar sem ég bað þig um aðstoð. Svo var prjónaverkefnið fljótt búið og prjónakennarinn hrósaði mér sífellt fyrir flott prjón þó svo að hana grunaði að einhver annar en ég hafi verið að verki.

Sem barn og sem fullorðin var svo gott að koma til ykkar afa, ég var alltaf velkomin og fann fyrir svo mikilli ást og umhyggju í hverri heimsókn. Alltaf tilbúin með nýbakaðar kræsingar og mjólk eða djús sem varð svo kaffi á mínum eldri árum. Okkar tími saman hefur verið mér svo afar dýrmætur og ég myndi ekki vilja breyta neinu, þú ert langbesta amma sem nokkur gæti hugsað sér. Eins og þú sagðir svo oft við mig „ég skil ekki fólk sem hefur ekki gaman af því að eyða tíma með barnabörnunum sínum, fjölskyldan er mér það dýrmætasta og svo mikilvægt að halda góðum tengslum“. Þið afi stóðuð svo sannarlega við þessi orð því það þótti öllum alltaf svo gott að koma til ykkar og vera.

Ég elska þig amma mín.

Elísa Kristinsdóttir.

Langamma Guðbjörg var mjög góð kona og ég sakna hennar mjög. Alltaf þegar ég kom til hennar beið opinn faðmurinn eftir mér. Hjá henni voru alltaf pönnsur og prjónadót. Nú er hún alltaf hjá okkur í hjartanu. Hvíldu í friði, elsku langamma.

Rúna

Guðbjargardóttir Petersen.

Elsku amma. Mikið er erfitt að kveðja þig og heyra ekki röddina og hláturinn þinn lengur.

Amma átti sérstakan stað í hjarta okkar allra. Við eigum það öll sameiginlegt að hafa varið miklum tíma hjá henni og afa í gegnum tíðina. Það vildu allir vera hjá ömmu og afa en það var alltaf fyrsta val, bæði þegar átti að fara í pössun og seinna meir þegar farið var í morgunkaffibollann. Þegar við vorum lítil spiluðum við og sungum saman sem breyttist svo í spjall eftir því sem við eltumst. Þá var iðulega rætt um gamla tíma og oft gat amma stungið kvæðum inn í spjallið.

Amma sýndi okkur öllum áhuga, var dugleg að hringja, fylgjast með okkar lífi og heimsækja okkur. Hún var mikill þátttakandi í lífi okkar allra og ef hún var ekki á staðnum sagðist hún koma á kústinum. Amma hafði endalausa þolinmæði fyrir okkur og okkar misgóðu hugmyndum í gegnum tíðina, það var einhvern veginn alveg sama hvað við gerðum, hún klappaði okkur á bakið og fann eitthvað jákvætt, stundum þannig að tengdabörnunum þótti nóg um.

Amma var sérlega flink í handavinnu hvort sem það var að hekla, prjóna, sauma eða bródera. Hún passaði vel upp á afkomendur sína og í dag getum við ekki aðeins yljað okkur við fallegar minningar, heldur einnig í prjónaafurðum hennar og er af nógu að taka. Amma var alltaf vel til höfð og hafði gaman að því gera sig fína og punta sig. Einkenndi hana glys og litagleði þó að fjólublár hafi alltaf verið í miklu uppáhaldi. Amma hafði þann hæfileika að kortleggja sögu þeirra afa í gegnum heimilið og má segja að það endurspeglaði þau, þeirra líf og áhugamál.

Alltaf stóðu dyrnar hjá ömmu og afa opnar og var mikið um gestakomur enda þau með eindæmum frændrækin og höfðingjar heim að sækja. Alltaf var til heimabakað bakkelsi og munu minningarnar um allar pönnukökurnar ylja okkur um ókomna tíð.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert og fyrir það sem þú hefur verið, elsku amma. Þú ert sú allra besta. Það er örlítil huggun að vita að þú sért komin til afa en við vitum að þú hefur saknað hans mikið.

Mikið eigum við eftir að sakna þess að hafa þig hjá okkur en minningin um dásamlega konu lifir í hjörtum okkar að eilífu. Amma, við elskum þig og biðjum að heilsa afa.

Þín ömmubörn,

Hjörtur, Margrét,Guðbjörg, Eva, Skúli, Ásvaldur, Freyja

og Arnfinnur.