Sigurborg Ingunn Einarsdóttir fæddist á Ísafirði 11. maí árið 1932. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð á Eskifirði laugardaginn 9. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru þau Guðrún Friðrika Pétursdóttir, f. 7.9. 1908, d. 20.12. 1982 og Einar Ólafur Eyjólfsson, f. 8.9. 1900, d. 6.3. 1939. Stjúpfaðir Sigurborgar var Eyjólfur Guðmundur Ólafsson, f. 27.12. 1916, d. 31.1. 2006.

Systkini Sigurborgar eru: Þorvaldur Einarsson, f. 22.2. 1937, Einar Eyjólfur Eyjólfsson, f. 6.1. 1940, d. 5.4. 2010, Ólafur Guðjón Eyjólfsson, f. 16.6. 1942, d. 3.3. 2020, Helga Eyjólfsdóttir, f. 30.10. 1944, Ingólfur Birkir Eyjólfsson, f. 5.7. 1946, Þráinn Eyjólfsson, f. 10.3. 1949 og Rúnar Eyjólfsson, f. 7.8. 1954.

Sigurborg var gift Sören Sörensen bifreiðarstjóra, f. 26.6. 1924, d. 13.9. 2004. Saman eignuðust þau einn son, Pétur Þór Sörensson, f. 2.1. 1964. Pétur er giftur Þórunni F. Víðisdóttur og eiga þau tvo syni, þá Víði Þór og Daníel Sören. Pétur á fyrir dótturina Ingunni. Sigurborg ól upp tvær dætur Sörens af fyrra hjónabandi, þær Jakobínu Sörensdóttur, f. 29.6. 1951 og Helenu Sörensen, f. 28.5. 1954. Jakobína er gift Vilhjálmi Björnssyni og eiga þau þrjú börn, þau Júlíönu, Björn Inga og Ívar Sören, fimm barnabörn og eitt barnabarnabarn. Helena er gift Jónasi Þór Guðmundssyni og eiga þau þrjú börn, þau Kristin Þór, Guðmund og Guðrúnu Líneyju og fjögur barnabörn.

Sigurborg útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1956 og sem hjúkrunarfræðingur fimm árum síðar eða árið 1961. Hún fluttist austur á Eskifjörð árið 1963 þar sem hún bjó til dauðadags. Hún starfaði sem héraðshjúkrunarkona, ljósmóðir og síðar hjúkrunarforstjóri allt til ársins 1998. Á starfsævi sinnti hún fjölbreyttu hjúkrunarstarfi ásamt því að taka á móti hundruðum Austfirðinga og sinna mæðra- og ungbarnaeftirliti. Árið 2020 var Sigurborg sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu og fékk hún riddarakrossinn fyrir framlag sitt til heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Sigurborg var fyrsti formaður Ljósmæðrafélags Austurlands, sem stofnað var árið 1975, og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hún var í stjórn Krabbameinsfélags Austurlands og formaður þess um tíma. Hugur hennar snerist ætíð um velferð og heilsu og tók hún fyrstu skóflustunguna að núverandi heilsugæslustöð á Eskifirði, en bygging hennar hófst haustið 1992.

Þau hjónin Sigurborg og Sören höfðu mörg sameiginleg áhugamál, en þar má til dæmis nefna gríðarlegan áhuga á steinasöfnun og ferðuðust þau víða um land í þeim tilgangi. Steinasafn þeirra hjóna hefur vakið mikla athygli og var gefin út bók sem heitir Íslenskir steinar þar sem fjöldinn allur af steinum úr safninu varð fyrir valinu til umfjöllunar. Steinasafnið var opið almenningi til margra ára og gaf það þeim hjónum ómælda ánægju að sýna safnið þeim fjölmörgu gestum sem heimsóttu það.

Útför Sigurborgar verður gerð frá Eskifjarðarkirkju í dag, 21. júlí 2022, og hefst athöfnin kl. 14.

Látin er tengdamóðir mín og góður vinur, Sigurborg Ingunn Einarsdóttir.

Okkar kynni hófust þegar ég, ungur að árum, fór að heimsækja stjúpdóttur hennar, hana Jakobínu mína. Strax frá byrjun tók hún mér vel og fljótlega urðum við góðir vinir. Aldrei bar nokkurn skugga á þá vináttu heldur jókst hún með árunum. Sigurborg var traust manneskja, sem með dugnaði, heiðarleika og þrautseigju tókst á við lífið og tókst það vel. Hún reyndist mér afar vel í alla staði og þáði ég mörg góð ráð frá henni í gegnum tíðina. Það voru forréttindi að fá að kynnast þessari góðu konu. Ég hef alla tíð litið á mig sem tengdason hennar, þótt Jakobína mín sé stjúpdóttir hennar. Börnin okkar og barnabörn voru alin upp við það að hún væri amma þeirra, sem hún var og hún tók þeim alltaf þannig. Um leið og ég kveð tengdamóður mína og vin þakka ég henni samfylgdina í gegnum árin.

Blessuð sé minning Sigurborgar Ingunnar Einarsdóttur.

Vilhjálmur

Björnsson.

Elsku amma.

Þegar ég lít til baka og hugsa um tímann sem við fengum saman er þakklæti mér efst í huga:

Takk fyrir öryggið sem þú og afi veittuð mér í æsku, takk fyrir að vera alltaf til staðar, takk fyrir allt spjallið, takk fyrir að hlusta og skilja, takk fyrir öll góðu ráðin, takk fyrir að hafa trú á mér, takk fyrir góðvildina, takk fyrir vináttuna, takk fyrir að reynast börnunum mínum vel, takk fyrir að bjóða okkur alltaf velkomin, takk fyrir allt.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Farðu í friði, elsku amma, þín verður sárt saknað.

Þín

Júlíana.