Þekktur August Strindberg á mynd sem sennilega var tekin 1902.
Þekktur August Strindberg á mynd sem sennilega var tekin 1902. — Ljósmynd/Herman Anderson
Ein af minnisbókum sænska leikskáldsins Augusts Strindbergs, sem hvarf frá Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi fyrir 50 árum, skaut nýverið óvænt upp kollinum þegar hún var sett til sölu hjá uppboðsfyrirtækinu Sotheby's í London.

Ein af minnisbókum sænska leikskáldsins Augusts Strindbergs, sem hvarf frá Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi fyrir 50 árum, skaut nýverið óvænt upp kollinum þegar hún var sett til sölu hjá uppboðsfyrirtækinu Sotheby's í London. Þar var bókin verðmetin á 15.000 pund sem samsvarar um 2,4 milljónum íslenskra króna. Þessu greinir sænska dagblaðið Dagens Nyheter frá. Þar kemur fram að starfsfólk Konunglega bókasafnsins hefur kært þjófnaðinn til lögreglunnar. Viðbrögð forsvarsmanna Sotheby's þegar þeim var gert viðvart var að taka bókina umsvifalaust úr sölu.

August Strindberg er einn þekktasti rithöfundur Svíþjóðar. Í samtali við Dagens Nyheter segir Göran Söderström, sérfræðingur hjá Strindbergfélaginu, að þjófnaðurinn á bókinni sé með alvarlegri handritaþjófnuðum samtímans.

Segir hann minnisbókina, sem Strindberg skrifaði í á árunum 1893-95, vera ómetanlegt gagn í höfundarferli skáldsins. „Bókin er sérstaklega mikilvæg vegna þess að hún fjallar um tímann eftir að Strindberg yfirgaf Svíþjóð 1892 og hélt til Þýskalands og Parísar. Fáir vita það, en bókin inniheldur fjölda heimilisfanga fólks sem Strindberg var í samskiptum við,“ segir Söderström, sem er einn fárra sérfræðinga sem náðu að skoða minnisbókina áður en hún hvarf, en hann rakst á bókina þegar hann var að skrifa doktorsritgerð sína fyrir hálfri öld.

Samkvæmt frétt Dagens Nyheter var bókin hluti af safni Vilhelms Carlheims Gyllenskölds, en hann mun hafa keypt bókina af Fanny Falkner, sem var síðasta kærasta Strindbergs. Sænska lögreglan er nú með málið til rannsóknar.