Evrópukeppni Víkingur úr Reykjavík og Breiðablik leika fyrri leiki sína á heimavelli í 2. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta í kvöld.
Evrópukeppni Víkingur úr Reykjavík og Breiðablik leika fyrri leiki sína á heimavelli í 2. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Sambandsdeildin Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík og Breiðablik, topplið Bestu deildar karla í fótbolta, leika fyrri leiki sína í 2. umferð Sambandsdeildarinnar á heimavelli í kvöld.

Sambandsdeildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík og Breiðablik, topplið Bestu deildar karla í fótbolta, leika fyrri leiki sína í 2. umferð Sambandsdeildarinnar á heimavelli í kvöld. Víkingur mætir The New Saints frá Wales og Breiðablik leikur við Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi.

Andstæðingur Víkings er sigursælasta lið Wales frá upphafi. Meistaratitilinn sem liðið vann með afar sannfærandi hætti í apríl var sá fjórtándi frá upphafi og sá þrettándi frá árinu 2005. The New Saints, oftast kallað TNS, hét áður Total Network Solutions. Snemma árs 2006 skipti félagið um nafn og The New Saints varð til. Leikmannahópurinn er nær eingöngu skipaður leikmönnum frá Bretlandseyjum. Eina undantekningin er Pólverjinn Adrian Cieslewicz. Liðið leikur heimaleiki sína á Park Hall, sem tekur 1.034 áhorfendur í sæti.

Velska liðið hefur leikið 72 leiki í Evrópukeppnum, unnið 17 þeirra, gert 11 jafntefli og tapað 44. Liðið sló Glentoran frá Norður-Írlandi og Zalgiris frá Litháen úr leik í Sambandsdeildinni á síðustu leiktíð. Fyrir vikið komst liðið í þriðju umferð, þar sem það féll úr leik gegn Viktoria Plzen frá Tékklandi.

Tapaði fyrir Fram

TNS hefur einu sinni áður leikið við íslenskt lið í Evrópukeppni en Fram vann viðureign liðanna í 1. umferð Evrópudeildarinnar árið 2009. Fram vann báða leiki 2:1 og einvígið samanlagt 4:2. Fyrir það einvígi hafði TNS aðeins unnið einn Evrópuleik í 20 tilraunum. Síðan þá hefur árangur félagsins í Evrópukeppnum batnað verulega og hefur liðið til að mynda unnið sex af síðustu tíu leikjum í Evrópukeppnum. Velska liðið gæti því verið sýnd veiði en ekki gefin fyrir Íslands- og bikarmeistarana. Það ætti þó að vera Víkingum í hag að deildin í Wales er í sumarfríi þangað til í ágúst á meðan deildin hér heima er í fullum gangi.

Leika á þjóðarleikvanginum

Andstæðingar Breiðabliks, Buducnost Podgorica, höfnuðu í öðru sæti deildarinnar heima fyrir á síðustu leiktíð og urðu bikarmeistarar í þriðja sinn á fjórum árum. Liðið endaði hins vegar átta stigum á eftir meisturunum í Sutjeska í deildinni. Þar á undan hafði liðið orðið meistari tvö ár í röð, en liðið hefur alls fimm sinnum orðið meistari.

Fyrir sjálfstæði Svartfjallalands var liðið oftast um miðja deild í efstu deild Júgóslavíu. Buducnost Podgorica leikur heimaleiki sína á þjóðarleikvangi Svartfjallalands. Hann tekur 11.050 manns í sæti en meðaláhorfendafjöldi liðsins í deildinni er rétt yfir 1.000. Deildin í Svartfjallalandi fer af stað á ný um helgina eftir tveggja mánaða frí og ætti Breiðablik því að vera í mun betri leikæfingu.

Leikmannahópur liðsins er einungis skipaður leikmönnum frá Svartfjallalandi. Nokkrir leikmenn hafa spilað örfáa landsleiki en ekki er um bestu leikmenn Svartfjallalands að ræða. Þeir leika í sterkari deildum í öðrum löndum.

Skellur í Færeyjum

Buducnost Podgorica hefur alls leikið 52 leiki í Evrópukeppnum, unnið 18, gert 11 jafntefli og tapað 23. Liðið sló Llapi frá Kósóvó úr leik í 1. umferð Sambandsdeildarinnar fyrr í mánuðinum. Sé miðað við síðustu leiktíð ætti Breiðablik hins vegar að vera sterkara liðið í einvíginu því svartfellska liðið fékk skell gegn HB frá Færeyjum á síðasta tímabili og tapaði samanlagt 0:6. Þar á undan tapaði liðið 1:7 fyrir HJK frá Helsinki.

Möguleikar Víkings og Breiðabliks á að fara áfram ættu að vera góðir, en ekki má mikið út af bregða. Það gæti reynst gríðarlega mikilvægt fyrir íslensku liðin að nýta sér heimavöllinn í kvöld og fara með sterka stöðu í útileikina.