[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Stefán Einar Stefánsson ses@mbl.is Síldarvinnslan sér mikil tækifæri í uppbyggingu fiskeldis á Íslandi á komandi árum.

Dagmál

Stefán Einar Stefánsson

ses@mbl.is

Síldarvinnslan sér mikil tækifæri í uppbyggingu fiskeldis á Íslandi á komandi árum. Þetta segir Gunnþór Ingvason, forstjóri fyrirtækisins í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins, streymi á netinu, sem opið er öllum áskrifendum.

Gunnþór segir að ástæða sé til þess fyrir hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki að gefa fiskeldi meiri gaum. Hann bendir á að stærri sjávarútvegsfyrirtækjum landsins sé orðinn þröngur stakkur sniðinn til vaxtar, vegna kvótaþaks sem í gildi er. Því sé prótínframleiðsla á grundvelli eldis álitlegur kostur. Hann nefnir og í viðtalinu á að innan fárra ára gætu stærstu fiskeldisfyrirtæki landsins vel verið orðin stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins.

Síldarvinnslan fjárfesti fyrr á þessu ári fyrir um 15 milljarða króna í norska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish Holding en það er með töluverð umsvif á Vestfjörðum. Nemur hlutur Síldarvinnslunnar rúmum 34%. Segir Gunnþór að kaupin hafi verið áhugavert skref fyrir fyrirtækið, ekki síst vegna þeirrar miklu sérþekkingar sem Norðmenn búa yfir á sviði eldismála.

Í viðtalinu er Gunnþór spurður út í gagnrýni sem fram hefur komið í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé Vísis í Grindavík. Hefur hún m.a. beinst að því að fyrirtækið er nú komið upp yfir svokallað kvótaþak, en það setur takmörk fyrir því á hve miklum aflaheimildum hvert fyrirtæki í greininni getur haldið. Gunnþór segir að endurskoða þurfi hvernig takmarkanir af þessu tagi eru útfærðar. Það tengist m.a. miklum sveiflum í úthlutuðum aflaheimildum í uppsjávarfisktegundum. Ekki séu mörg ár síðan engum kvóta var úthlutað í loðnu en nú síðast hafi verið gefinn út risakvóti, sem auðvitað hafi áhrif.