Guðmundur Magnússon fæddist 9. janúar 1926. Hann lést 8. júlí 2022. Guðmundur var jarðsunginn 20. júlí 2022.

Mín fyrstu kynni af Guðmundi Magnússyni voru þegar hann hóf með sínum léttleik og gamansemi að sækja skákæfingar sem við nokkrir kennarar við Miðbæjarskólann og öðrum skólum stóðum að. Það lifnaði yfir þessum æfingum þegar Guðmundur kom í þennan hóp.

Um vorið 1969 verða þær breytingar að grunnskólakennsla er lögð niður við Miðbæjarskólann. Kennarar skólans fóru þá margir til starfa við Austurbæjarskólann en ég og kona mín fórum í Breiðholtsskóla sem þá var verið að byggja. Þangað kom Guðmundur Magnússon sem skólastjóri, en hann hafði áður verið skólastjóri við Laugalækjarskóla. Á öðru ári skólans hvatti Guðmundur mig að sækja um stöðu yfirkennara við skólann, sem ég og gerði og var ráðinn.

Nemendum fjölgaði ört og á næstu árum fóru þeir vel yfir þúsund og þrengsli voru mikil. Guðmundur var góður og farsæll stjórnandi og var vel liðinn bæði af starfsfólki og nemendum skólans. Hann var hugmyndaríkur í starfi og kom meðal annars á miklu átaki gegn reykingum nemenda. Naut hann við það góðrar aðstoðar Þorvarðar Örnólfssonar hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur. Í kjölfarið tóku margir skólar í Reykjavík og á landsbyggðinni upp samskonar átak.

Um vorið 1977 var staða fræðslustjóra Austurlands auglýst til umsóknar. Guðmundur sótti um stöðuna, sem hann og fékk. Langaði hann að vinna á heimaslóðum, en hann og kona hans, Anna Frímannsdóttir, voru bæði frá Reyðarfirði.

Margt lætur Guðmundur eftir sig í rituðu máli og veit ég að aðrir munu gera því skil.

Ég sendi Önnu og börnum þeirra hjóna innilegar samúðarkveðjur og þakka Guðmundi fyrir góða samvinnu og vinskap, en við héldum reglulegu sambandi alla tíð.

Blessuð sé minning hans.

Þorvaldur Óskarsson.

Nú þegar Gummi frændi er fallinn frá í hárri elli sækja að ýmsar minningar sem tengjast honum.

Ein fyrsta minning mín er að ég, á 3ja ári, hleyp eftir gangi Landakotsspítala og hoppa í fang Gumma frænda sem kominn er til að sækja mig. Gummi og Anna móðursystir mín voru alltaf nærri ef einhvers þurfti við, þau og börn þeirra voru okkar nánustu. Við Mæju og Palla börnin, fyrst þrjú í kippu og að lokum fimm, vorum í raun einnig hluti af hópi Gumma og nutum þess. Hann sýndi okkur umhyggju, hampaði okkur litlum á hnjám sér og glettist, brosmildur og hlýr. Kort hans til mín frá fjarlægri Ameríku gladdi og stækkaði lítinn dreng. Gummi var nálægur við öll helstu tímamót og gleðistundir í fjölskyldunni, sagði sögur, spjallaði og hló, söng og spilaði á harmóniku eða píanó ef tækifæri gafst. Þegar árin liðu fengu samskiptin auðvitað fullorðinsbrag, Gummi forvitinn um það sem við tókum okkur fyrir hendur og ræddi það af áhuga, fylgdist með okkur og fjölskyldum okkar.

Takk Gummi fyrir samfylgdina, umhyggjuna og áhuga á lífshlaupi okkar.

Finnur Pálsson.

Kvatt hefur eftir langa og farsæla ævi, kær vinur og fyrirmynd, Guðmundur Magnússon, fyrrum skólastjóri í Breiðholtsskóla og fræðslustjóri á Austurlandi.

Það var haustið 1973 að ég var að leita eftir kennslu meðfram námi og mér var sagt að prófa að tala við skólastjórann í Breiðholtsskóla, „hann er voða góður kall“ sagði viðkomandi mér. Ég mætti á skrifstofuna hans og spurði afar stressaður, hvort ég gæti fengið að kenna nokkra tíma á viku. Hvað getur þú kennt, vinur minn? spurði skólastjórinn. Ég sagðist aldrei hafa kennt en væri í raungreinanámi og gæti kannski kennt stærðfræði á unglingastigi og bjóst ekki við miklu. Guðmundur var fljótur að svara, handsalaði starfið og sagði að ég ætti að kenna 8 tíma á viku. Þar með má segja að teningunum hafi verið kastað og meðfram námi og eftir útskrift starfaði ég sem kennari og skólastjóri í Breiðholtsskóla í 32 ár. Þegar ég lít til baka þá er ég þess fullviss að skólamaðurinn og mannvinurinn Guðmundur og leiðsögn hans á fyrstu kennaraárum mínum varð til þess að ævistarf mitt var ákveðið.

Breiðholtsskólinn tók til starfa 1969 og Guðmundur skólastjóri og Þorvaldur Óskarsson, síðar skólastjóri við skólann í tæpa tvo áratugi, lögðu sig alla fram ásamt frábærum kennurum um að mennta og ala upp afar fjölbreyttan nemendahóp. Á þessum árum var skólinn þrísetinn með um og yfir 1.000 nemendur og líka kennt á laugardögum. Guðmundur lagði línurnar og treysti sínum góða starfsfólki til verka. Ég man einn daginn þegar elstu nemendurnir, mjög ósáttir, stormuðu niður á kontór til Guðmundar og kröfðust réttlætis í einhverju stóru máli að þeirra mati. Guðmundur skólastjóri sagði að þetta þyrfti að ræða og boðaði alla á sal, bauð þeim til sætis á gólfinu og settist síðan sjálfur á gólfið í innsta hring. Málin voru rædd og niðurstaða var fundin, þetta var hugmyndafræði og verklag Guðmundar, ræðum saman og finnum farsæla lausn.

Guðmundur var glaðvær maður, síbrosandi og með hnyttin tilsvör og smitaði hann glaðværð og manngæsku bæði til samstarfsmanna og nemenda.

Árið 1977 hætti Guðmundur sem skólastjóri og tók við sem fræðslustjóri á Austurlandi og flutti á Reyðarfjörð, þar sem voru hans æskuslóðir.

Hann og hans yndislega kona Anna héldu alla tíð tryggð við fyrrverandi samstarfsfólk Guðmundar í Breiðholtsskóla og þau mættu reglulega á viðburði og gleðskap sem tengdist skólanum.

Við leiðarlok vil ég halda því fram að betri og vitrari skólamann en Guðmund sé erfitt að hitta á lífsleiðinni. Hann leiðbeindi og stýrði með hlýju og mannúð, treysti sínu fólki og var til staðar þegar þurfti. Öllum þótti vænt um hann og öllum vildi hann vel.

Um leið og ég þakka honum fyrir allt sem ég lærði af honum, þá vil ég einnig sem fyrrverandi skólastjóri Breiðholtsskóla þakka honum fyrir hönd okkar samstarfsmanna hans fyrir gæfuríkt samstarf og fyrir hönd nemenda hans þakka ég farsæla menntun og velferð.

Ég færi Önnu, eftirlifandi eiginkonu Guðmundar, og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Minningin um mannvininn og skólamanninn Guðmund Magnússon mun lifa.

Ragnar Þorsteinsson.