Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Njótum lífsins, göngum vel um og njótum þeirrar stórbrotnu og margbreytilegu fegurðar sem skapari okkar býður upp á."

Hvar sem ég er og hvert sem ég fer blasir fegurðin við mér. Himinninn speglast í lygnu vatninu og í fjarska sé ég mikilfengleik þinn er ég staldra við og gef mér tíma til að líta upp til hinna tignarlegu fjalla.

Þú virðist sem í fjarlægð en ert samt á bak við allt og í öllu. Nær en ég held. Þökk sé þér, ó Guð, lof og dýrð!

Í dag umlykur þú mig með logni í sálinni og þínum friði og ólýsanlegri fegurð hvert sem litið er.

Bara að ég gæti oftar gefið mér tíma til að staldra við. Til að draga meðvitað að mér andann. Opna augun og njóta alls þess sem þú hefur upp á að bjóða.

Hér og nú

En nú er ég þá hérna bara staddur eftir allt saman í kyrrð og bæn með fjöllin og bæina allt um kring og hina eilífu friðgefandi nærveru skapara himins og jarðar, höfundar og fullkomnara lífsins.

Grasið iðjagrænt upp um grónar hlíðar. Upplifi í dögginni stillur morgunsins. Vinalegan klið og dagsins farsæla nið. Fegurð kvöldsins roða, bláma og birtu næturinnar. Kyrrðin óviðjafnanleg, fegurðin ólýsanleg, sem eilíft sumar.

Hvað skyldi fólkið á bæjunum og í bústöðunum vera að hugsa? Hvað þá fólkið í borginni? Hvað er það að gera? Skyldi það vita af þessu? Eða er það mögulega að fara á mis við fegurð lífsins? Er það kannski bara liggjandi uppi í sófa lifandi tilgangsleysinu, horfandi á sápu í sjónvarpinu eða að hlusta á daglegt þras sem litlu skilar? Hugsanlega er það jafnvel netið og símarnir sem glepja? Og hvað með blessaðar kýrnar í haganum, lömbin og hestana, ætli þau viti af þessu?

Eða eru þau ef til vill líka að fara á mis við fegurðina vegna óöryggis og hræðslu, vanrækslu, hugsunarleysis eða tjóns á umhverfinu?

Njótum lífsins, göngum vel um og njótum þeirrar stórbrotnu og margbreytilegu fegurðar sem skapari okkar býður okkur upp á í umhverfinu.

Með sumarsins kærleiks- og friðarkveðju.

– Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld, rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson