Tjáningarleið Einar Bjartur Egilsson tónlistarmaður er höfundur nýju breiðskífunnar Kyrrðar, sem er hans tilraun til þess að finna innri ró.
Tjáningarleið Einar Bjartur Egilsson tónlistarmaður er höfundur nýju breiðskífunnar Kyrrðar, sem er hans tilraun til þess að finna innri ró.
„Mig langaði að semja eitthvað fallegt,“ segir Einar Bjartur Egilsson um nýju breiðskífuna sína, Kyrrð, sem kom út 10. júní sl.

„Mig langaði að semja eitthvað fallegt,“ segir Einar Bjartur Egilsson um nýju breiðskífuna sína, Kyrrð, sem kom út 10. júní sl. Kyrrð er önnur breiðskífa Einars Bjarts á eftir Heimkomu frá árinu 2016 sem hann samdi og tók upp í Hollandi, þar sem hann stundaði meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht, hjá Katiu Veekmans. Undanfarið hefur hann gefið út fjórar smáskífur, Dansandi skugga , Upphaf , Kalda birtu og Bak við tjöldin , að því er fram kemur í tilkynningu.

Þörf til að skapa sjálfur

Einar Bjartur Egilsson hóf píanónám sjö ára í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð við Mývatn. „Þegar ég var yngri var markmiðið ekki endilega að verða píanóleikari, ég ákvað það rúmlega tvítugur þegar ég hóf klassískt píanónám í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté. Það var í LHÍ sem áhugi minn á að semja tónlist vaknaði og í kjölfarið fór ég í meistaranám í Hollandi þar sem ég samdi mína fyrstu plötu, Heimkomu . Ég fann að mig langaði að búa til og skapa eitthvað sjálfur þótt ég hefði áður aðallega verið að spila annarra manna tónlist.

Kyrrð er verk sem ég er búinn að hafa í huganum í nokkur ár eða allavega elstu lögin og platan heitir í rauninni eftir fyrsta verkinu sem ég samdi fyrir plötuna, „Kyrrð“. Það má segja að platan sé tilraun mín til þess að finna innri ró og skapa þannig stemningu. Tónlistina geri ég fyrir sjálfan mig, hún er mitt tungumál og mín leið til þess að tjá eitthvað sem ég get ekki tjáð með orðum. Mér finnst auðveldara að tjá mig með tónlist heldur en með orðum.“

Einar Bjartur segir tónlistina sína tilheyra svokölluðum nýklassískum eða kvikmyndatónlistarstíl. „Tónlistin er svona lífsferðalag, í henni er að finna ákveðna möguleika og bjartsýni þótt undirtónninn sé dapurlegur.“

Breiddin í tónlist meiri í ár

Að sögn Einars Bjarts á tónlistarmaðurinn Snorri Hallgrímsson stóran hluta í plötunni en hann annaðist upptöku, hljóðblandaði og hjálpaði Einari Bjarti við tónsmíðarnar. Hljóðheiminn sem skapast hefur á plötunni mynda, auk Einars Bjarts, Chrissie Guðmundsdóttir fiðluleikari og Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari:

„Á fyrri plötunni minni, Heimkomu , er meira af hefðbundnum píanóverkum og aðeins minna af strengjum. Í Kyrrð langaði mig að kafa aðeins dýpra og fá strengi og um leið meiri breidd í tónlistina, þróa mig áfram. Ég tók upp píanóið heima hjá mér, ég er með lítinn flygil í stofunni, sem ég dempaði svo til að fá mjúkan tón. Tökurnar fóru því fram heima hjá mér og svo í stúdíói með strengjaleikurunum.“

Nóg er á döfinni hjá Einari Bjarti en þegar viðtalið var tekið var hann staddur í La Paz í Bólivíu og var búin að vera á ferðlagi í Suður-Ameríku í rúman mánuð. Einar Bjartur er píanókennari og vinnur mikið sem meðleikari. Í lok þessa mánaðar heldur hann tónleika á Ólafsfirði á Berjadögum og seinna litla tónleika á Selfossi. Einar Bjartur er síðan spenntur fyrir því að geta haldið útgáfutónleika fyrir nýju plötuna vonandi einhvern tímann í haust.

Að sögn Einars Bjarts megum við eiga von á fleiri plötum frá honum en þó ekki strax: „Ég er ánægður með útkomuna á Kyrrð og mig langar að halda áfram að þróa tónlistina mína.“ jonagreta@mbl.is