Ísland hefur verið flokkað í fyrsta flokk yfir varnir gegn mansali af bandarískum stjórnvöldum á ný.

Ísland hefur verið flokkað í fyrsta flokk yfir varnir gegn mansali af bandarískum stjórnvöldum á ný.

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur birt skýrslu um mansal í flestum löndum árlega frá árinu 2001, þar sem fjallað er um stöðu mansalsmála og aðgerðir stjórnvalda einstakra ríkja í baráttunni við mansal.

Ísland hafði alla tíð verið í fyrsta flokki í mati ráðuneytisins en féll í annan flokk árið 2017.

Alls eru lönd flokkuð í fjóra flokka en lönd falla undir annan flokk ef úrbætur á ágöllum, hvort sem er í lagaumhverfi, dómskerfi eða aðstöðu brotaþola, standa yfir.

Í skýrslunni segir að yfirvöld á Íslandi mæti nú að fullu lágmarksskilyrðum til að koma í veg fyrir mansal. Að stjórnvöld hafi gert lykilbreytingar á matstíma skýrslunnar, þ.e. árið 2021, til að mæta skilyrðunum og þrátt fyrir heimsfaraldur Covid-19.

Þar er sérstaklega vísað til þess að dómur hafi fallið nýlega í mansalsmáli hér á landi í fyrsta skipti í tólf ár.

Þá segir að yfirvöld hafi borið kennsl á og brugðist við fleiri málum sem gætu verið mansalsmál, fjármagnað og styrkt ráðgjöf og aðstoð fyrir brotaþola málaflokksins og komið á fót samráðsvettvangi lögreglu og alþjóðlegra stofnana sem vinna gegn mansali og lagt til tölfræði og aðrar upplýsingar.

Í skýrslunni eru yfirvöld þó gagnrýnd fyrir að hafa kært hluta grunaðra um mansal fyrir smygl, sem ber með sér vægari refsingu en mansal. Skortur á skilgreiningu og ferlum fyrir barnamansal er einnig gagnrýndur í skýrslunni.

Lagt er til að aukinn þungi verði lagður í að leiða þá sem grunaðir eru um mansal fyrir dóm og þeir hljóti þunga dóma og að þjálfun í rannsókn á mansalsmálum verði aukin. Á árinu 2021 voru 46 grunaðir um að vera brotaþolar mansals hér á landi.