Gylfi Zoega vill tryggja að „á næstu árum og áratugum verði þjóðin sjálfri sér næg um orku“

Mynd efnahagslífs Evrópu er ekki mjög björt um þessar mundir. Þeir eru til sem kokgleyptu þá trú hér að evran væri óhjákvæmilegt haldreipi Íslands en segja fátt núna. Kenningin var sú að öllu skipti að okkar mynt væri ekki gjaldmiðill á stórum markaði. Horft var fram hjá því að öllu máli skipti að myntin lagaði sig að efnahagslegum kröfum fullvalda ríkis en dinglaði sér ekki eftir mynt sem laut lögmálum meginlands Evrópu. Slíkur gjaldmiðill liti ekki á íslenskar þarfir, enda væri það fráleitt.

Á örfáum árum hefur staða Evrópu gjörbreyst. Fæstir gerðu sér grein fyrir því að öflugasta ríki álfunnar hefði misst öll tök á orkumálum eigin þjóðar og sé nú háð duttlungum þeirra sem síst skyldi. Framleiðslugeta þjóðarinnar hafði einnig misst að hluta styrk og yfirburði og er skyndilega háð risaveldinu Kína, sem fer sínu fram, hvað sem lýðræðislegum kröfum líður. Núverandi kanslari Þýskalands beitti sér af öllu afli til að gera Hamborg að þjónustuhöfn Kína á meginlandinu og tryggja að stórveldið hefði þar ríkulegt eignarhald. Fyrirrennari hans í embætti sat á hljóðskrafi við sænska fermingarstúlku um að að þjóðirnar yrðu að kúvenda í meginmálum vegna heimshlýnunar, sem barnið var ein helsta heimild vestrænna leiðtoga um! Þjóðverjar yrðu að láta sér kínverskar sólarsellur duga og vindmyllur niðurgreiddar af skattborgurum, með sínum skaða á náttúrulegri umhverfismynd landsins. Og á meðan að það gæti loks látið slíka orku duga, sem aldrei er raunhæft, þá yrðu gerðir risasamningar við Rússa, sem gerðu Þýskaland að peði í risalúku þess ríkis.

Samningar um slíkt voru gerðir í sömu andrá og látið var heita að öll Evrópa væri að beita Rússland hörðum efnahagsþvingunum vegna Krímskaga, sem Kremlarbóndi sölsaði undir sig með einni sveiflu. Því miður ösnuðust burðarlitlir íslenskir stjórnmálamenn til aðgrípa um bandið frá Evrópu, svo mest minnti á leikskólabörn úti í bandi fóstra sinna. Tapaði Ísland þar stórum fjárhæðum og gerir enn! Um leið voru stigin skref til þess að afsala stjórn íslenskra orkumála til Brussel! Og svo eru þeir sömu hissa þegar atkvæðum í kosningum fækkar. En ekki hvað?