Heimatilbúni verðbólguvandinn er ekki að baki

Nýbirtar tölur Þjóðskrár Íslands um þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýna að hækkanir halda áfram þó að vonir standi til að úr þeim fari að draga. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði í júní um 2,2% á milli mánaða og hefur hækkað um 25% síðastliðna tólf mánuði sem sýnir að enn er verðið á fleygiferð upp á við með tilheyrandi áhrifum á verðbólguna.

Í Hagsjá Landsbankans er fjallað um þessa þróun og þar segir að vísbendingar hafi borist um að markaðurinn sé farinn að róast og að þessi mæling hafi verið umfram væntingar bankans. Skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá því í síðustu viku hafi þó sýnt að sölutími íbúða hafi lengst og að tekið sé að hægja á verðhækkunum, þannig að ætla má að hækkanir verði minni næsta árið en verið hefur undanfarið ár. Engu að síður er Landsbankinn nú heldur svartsýnni um þróun verðbólgunnar en fyrir viku og telur að hún verði 9,3% í júlí en ekki 9,2% eins og þá var spáð.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, bendir á í samtali við Morgunblaðið að innlend orkuframleiðsla mildi verðbólguþróunina hér á landi auk þess sem krónan sé að styrkjast gagnvart Evrópumyntum. Áhrifin sem hagkerfi heimsins verði fyrir vegna innrásar Rússa í Úkraínu hafi því haft minni áhrif á íslenskan almenning en á íbúa í mörgum viðskiptalöndum okkar.

Þetta er jákvætt og sýnir mikilvægi þess að Ísland nýti áfram þá kosti sem landið hefur upp á að bjóða og kosti sjálfstæðrar myntar. Á sama tíma verður enn meira áberandi hve heimatilbúni húsnæðisskorturinn hefur mikil áhrif á verðbólguþróunina og miðað við nýjustu tölur er hætt við að þó að líklega dragi úr þeim áhrifum á næstunni þá muni Íslendingar áfram þurfa að búa við þá að stórum hluta heimatilbúnu verðbólgu sem geisað hefur að undanförnu.