Hólmfríður Dögg Einarsdóttir sálfræðingur fæddist í Reykjavík 13. apríl 1976. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu 9. júlí 2022.

Foreldrar hennar eru Þórhildur Magnúsdóttir, f. 31. maí 1949 og Einar Finnbogason, f. 6. júní 1946.

Systkini hennar eru: 1) Berglind Einarsdóttir, f. 4. október 1968. Börn hennar eru Steinar Þór Kristjánsson, f. 1993 og Jenna Katrín Kristjánsdóttir, f. 1994. 2) Finnbogi Einarsson, f. 10. október 1980, maki Jurgita Mazeikaité, f. 27. febrúar 1989. Dóttir þeirra er Rebekka, f. 2015.

Hólmfríður giftist Skúla Theódóri Ingasyni, f. 30. júlí 1973, þann 7. júní 2019. Börn þeirra eru Theódór Ingi, f. 28. október 2004 og Anton Elí, f. 27. júlí 2007. Fyrir átti Hólmfríður Alexander Leví Pétursson, f. 21. nóvember 1994, maki hans er Hildur María Olafsdóttir, f. 29. nóvember 1991 og er sonur þeirra Brimar Leví, f. 2019. Faðir Alexanders er Pétur Perpetuini Pétursson, f. 12. ágúst 1971. Skúli á dótturina Antoníu Eiri, f. 28. janúar 2000, móðir hennar er Lovísa Hannesdóttir, f. 4. maí 1978. Foreldrar Skúla eru Ingi Rúnar Árnason, f. 13. febrúar 1942 og Hildur Theódórsdóttir, f. 9. apríl 1950, d. 11. mars 2009.

Hólmfríður ólst upp í Mosfellsbæ og bjó þar alla tíð fyrir utan námsárin í Danmörku. Hún gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Hún sótti nám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og lauk þaðan stúdentsprófi árið 2001. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og cand. psych í sálfræði frá Háskólanum í Árósum árið 2008. Auk þess lauk hún diplómanámi í fjölskyldumeðferð árið 2011 og árið 2019 lauk hún tveggja ára sérnámi í hugrænni atferlismeðferð.

Hólmfríður gegndi ýmsum störfum á starfsferlinum en öll tengdust þau umönnun og sálgæslu. Á árunum 1999-2005 starfaði hún á sambýlinu í Hulduhlíð og á árunum 2008 til 2010 sem stuðningsfulltrúi í þjónustuíbúðum í Þverholti, hvorutveggja í Mosfellsbæ. Hún tók svo við starfi forstöðumanns þar árið 2010 og starfaði sem slíkur til 2017. Árið 2015 hlaut búsetukjarninn í Þverholti, sem hún veitti þá forstöðu, jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir að vinna markvisst að því að hafa jöfn kynjahlutföll í starfsmannahópnum. Hólmfríður gegndi starfi sálfræðings barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Heilsugæslunni í Mosfellsbæ á árunum 2016 til 2019. Frá 2020 vann hún sem sálfræðingur og fjölskyldufræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Geðheilsuteymi Austur.

Hólmfríður stofnaði og rak Fjölskyldu- og sálfræðistofuna Áleiðis ásamt samstarfskonu frá 2011 til 2018. Þá vann hún sem verktaki á hinum ýmsu stöðum í gegnum tíðina, m.a. hjá Erindi – samtökum um samskipti og skólamál, hjá Domus Mentis – geðheilsustöð og hjá Auðnast.

Útför Hólmfríðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 21. júlí 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

Elskulega dóttir okkar.

Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Elsku Skúli, Alexander Leví, Theódór Ingi, Anton Elí, Antonía Eir, Hildur og Brimar Leví, við vitum að hún er í góðum drottins höndum.

Mamma og pabbi.

Ástkær mágkona okkar og svilkona, Hólmfríður Dögg Einarsdóttir, lést heima í faðmi fjölskyldunnar 9. júlí sl. Það er með trega sem við kveðjum elsku Fríðu. Hún var yndisleg kona, róleg, yfirveguð, hreinskiptin, góð móðir og eiginkona. Hún var sálfræðingur að mennt, sá misjafnar breytur fólks vel, starfið valdi hana. Fríða fór alltof snemma, 45 ára með heimili í fullu fjöri, þvílík ósanngirni, við trúum því að hún sé komin til annarra starfa en fylgist áfram með þeim sem sitja eftir.

Okkur langar að minnast ferðarinnar til Gunnu og Sean í Lititz, Pennsylvaniu, í desember 2017. Ferðin var ógleymanleg. Fríða hefur aldrei verslað eins mikið, að hennar sögn, fullar töskur geystust um rými vélarinnar og Fríða alsæl með góssið.

Það er skrítið til þess að vita að Sean, mágur og svili okkar, lést úr krabbameini 6. janúar 2021, varla þremur árum eftir heimsókn Fríðu og Skúla. Hverjum hefði dottið í hug að þau ættu eftir að deyja snemma frá fjölskyldu svo fljótt.

Lífið er hverfult, covid tók völdin, við sáum lítið til Fríðu á þessum erfiðu tímum, það mátti ekki hittast. Við hittumst þó fyrr á árinu þegar pabbi/tengdapabbi átti 80 ára afmæli. Fríða átti þá góðan dag, það var gaman og gott að hittast. Fjórum dögum áður en Fríða lést átti Árni gott spjall við Fríðu um lífið og tilveruna. Æðruleysið hjá henni var svo magnað, hún ræddi lífið og dauðann svo opinskátt. Við erum þakklát fyrir að hafa þekkt Fríðu, hún var, eins og áður sagði, yndisleg og mögnuð manneskja.

Elsku Skúli og fjölskylda. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð . Minning um fagra manneskju lifir áfram.

Árni Rúnar Ingason og Eygló Eyjólfsdóttir.

Hólmfríður Dögg hefur kvatt. Þessi fallega og duglega systurdóttir mín hefur horfið á braut í blóma lífsins. Hennar verður sárt saknað.

Fyrsta minning mín er þegar ég sá hana nýfædda. Hún var sérstaklega fríð, dökk, fínleg og með djúpt hökuskarð.

Í gegnum árin hef ég fylgst með henni og alltaf kom hún á óvart. Hún eignaðist Alexander sinn ung og voru þau tvö ein í nokkur ár.

Hún menntaði sig og eignaðist íbúð. Hún var ákveðin og gerði hlutina og var ekkert að tala um þá.

Síðan kynnist hún Skúla og eignast þau tvo flotta stráka. Fríða hélt áfram að mennta sig og voru þau í Árósum í Danmörku í nokkur ár á meðan hún lauk námi sínu.

Hún var komin í draumastarfið og allt var eins og það átti að vera, orðin amma sem veitti henni mikla gleði en þá kom höggið. Þrátt fyrir erfið veikindi sýndi hún mikinn styrkleika. Hún stóð eins og klettur gagnvart fjölskyldunni og átti margar gæðastundir með mömmu sinni. Hún var ávallt boðin og búin að aðstoða foreldra sína.

Það er erfitt að hugsa til þess að hún sé farin, þessi góða mamma, amma og mikla fjölskyldumanneskja sem hugsaði fyrir svo mörgu.

Hugur minn er hjá fjölskyldu Fríðu, Skúla, börnunum, tengdadóttur, barnabarni, foreldrum, systkinum og fjölskyldum þeirra.

Góður guð veiti ykkur styrk í sorginni.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Unnur.

Elsku Fríða.

Við höfum verið vinkonur allt frá því að þið Ásta funduð mig á moldarbing úti í garði þegar ég var fimm ára, nýflutt í Mosfellsbæinn sumarið 1982 og spurðuð hvort ég vildi leika. Síðan eru liðin 40 ár. Sambandið hefur verið mismikið í gegnum tíðina en þráðurinn er sterkur þannig að þó stundum hafi liðið langt á milli þess að við hittumst var alltaf eins og það hefði verið í gær.

Ég er þakklát fyrir ótal minningar og samverustundir sem við höfum átt í gegnum tíðina. Þú varst svo umhyggjusöm og alltaf tilbúin að hlusta og gefa ráð. Hugsaðir oft meira um aðra en sjálfa þig. Við gátum alltaf talað saman um allt milli himins og jarðar og urðum aldrei uppiskroppa með umræðuefni.

Þú vildir hafa fallegt og snyrtilegt í kringum þig og varst sjálf alltaf vel tilhöfð. Þið Skúli og fjölskylda voruð búin að koma ykkur vel fyrir í nýja húsinu og búa ykkur fallegt heimili. Það er sárt til þess að hugsa að þið hafið ekki fengið meiri tíma til að njóta þess saman.

Mér er minnisstæð heimsókn þín í Stykkishólm með Theódóri Inga og Antoni Elí. Hún varð svolítið styttri en ætlunin var því þið voruð komin vel áleiðis til Akureyrar þegar það fattaðist að þið hefðuð gleymt að beygja. Við gátum sem betur fer bara hlegið að því og áttum notalegan tíma saman og spiluðum með krökkunum og borðuðum góðan mat. Krakkarnir okkar voru góð saman og strákarnir þínir einstaklega barngóðir.

Við saumaklúbburinn höfum svo brallað ýmislegt saman. Farið í bústað, leikhús og þess háttar og fertugsferðin til Amsterdam verður lengi í minnum höfð. Óvæntar dag- og kvöldstundir með þér og Ástu stóðu líka alltaf fyrir sínu.

Ég vona að þú vitir hvað ég er stolt af þér, kæra vinkona. Þú stóðst þig svo vel í því sem þú tókst þér fyrir hendur. Þú varst klettur í lífi margra sem eiga nú um sárt að binda.

Elsku Fríða mín, ég er þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þér. Þú varst einstök og munt alltaf eiga stað í hjarta mínu. Þín er sárt saknað en minningin um þig mun lifa.

Við vottum Skúla, Alexander Leví, Theódóri Inga, Antoni Elí, Antoníu Eir, Hildi, Brimari Leví, Lólý og Einari og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Hulda Margrét Rútsdóttir og fjölskylda.

Elsku besta Fríða. Ég á svo erfitt með að koma öllum hugsunum mínum niður á blað, þetta er ennþá svo sárt og óraunverulegt. Það er svo óréttlátt að þú sért tekin burt frá okkur öllum svona ung, þú varst alltaf svo yndisleg og vildir öllum svo vel. Frá því að ég hitti þig fyrst höfum við alltaf verið mjög góðar vinkonur og hefði ég ekki getað valið mér betri stjúpmömmu. Það var alltaf svo gott að tala við þig, leita til þín og þú varst alltaf tilbúin að hlusta. Ég á svo margar góðar minningar um vináttu okkar og mun ég varðveita þær vel. Mikið á ég eftir að sakna þín, allra samverustundanna og góðu spjallstundanna sem við áttum.

Ég veit að ég mun hitta þig aftur seinna en þangað til munum við passa hvert upp á annað, við pabbi, Hildur og strákarnir.

Hugsa í þögninni.

Enn og aftur

falla tárin.

Allt er hljótt.

Eitt lauf enn

hefur fallið

af fallega trénu.

(Solla Magg)

Elska þig.

Þín

Antonía Eir.

Elsku Fríða, það er eitthvað svo fjarstæðukennt að ég skuli sitja hér og skrifa minningargrein um þig, yndislega góða og trausta vinkona mín. Að þú sért farin, að ég muni aldrei sjá þig, knúsa þig, tala við þig eða hlæja með þér aftur. Mikið á ég eftir að sakna þín. Þegar ég sit hér og skrifa þessi orð, streyma fram tárin og allar minningarnar.

Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar við unnum á næturvöktum á Reykjalundi og svo seinna í Hulduhlíðinni. Við áttum það sameiginlegt að vera ungar mæður og áttum stráka sem fæddir voru á sama ári, Alexander og Daníel. Ég minnist þess þegar við hittumst með þá, þegar þeir voru yngri og þeir léku saman á meðan við spjölluðum um allt á milli himins og jarðar. Seinna fluttum við báðar til Árósa í Danmörku og bjuggum í sömu götu, Bøgehaven. Þaðan á ég ótrúlega margar góðar minningar með þér. Yngstu börnin okkar fæddust í Danmörku og við vorum ófrískar á sama tíma. Það var svo ótrúlega gott að geta leitað til hvor annarrar og verið stuðningur fyrir hvor aðra á meðgöngunni og í fæðingarorlofinu. Þær voru ófáar, ferðirnar hjá okkur á kvöldin á vídeóleiguna, þar sem við fundum okkur einhverja góða bíómynd til að horfa á og eitthvað sætt með. Þarna nýttum við tækifærið og spjölluðum um barnauppeldið og aðra hluti í ró og næði. Það var líka alltaf svo gott að tala við þig. Ef eitthvað bjátaði á þá varst þú alltaf til í spjall. Þú varst ótrúlega góður hlustandi og hvattir mig alltaf áfram í því sem ég var að gera hverju sinni. Þegar við vorum báðar fluttar aftur til Íslands, hittumst við reglulega með yngstu strákana okkar, Anton Elí og Davíð Emil. Við byrjuðum síðan með árlegan jólaföndurshitting með öðrum góðum vinkonum. Þar var mikið hlegið og spjallað. Þú talaðir um þegar við hittumst í síðasta skipti, að þú hefðir viljað að þessar stundir hefðu verið fleiri. Því er ég svo hjartanlega sammála, elsku Fríða.

En mikið er ég þakklát fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman og á eftir að sakna þess að geta ekki heyrt röddina þína, fá símhringingu eða skilaboð frá þér.

Þú varst alveg einstaklega sterk persóna og það var virkilega aðdáunarvert hvernig þú tókst veikindum þínum með miklu æðruleysi og hvernig þú barðist með miklu hugrekki fram til síðasta dags.

Það er með mikilli sorg í hjarta að ég kveð þig, elsku vinkona.

Elsku Skúli, Alexander, Antonía, Theódór, Anton Elí og fjölskylda. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég elska þig og sakna þín hjartahlýja og góða Fríða mín.

Þín vinkona,

María Sunna.

Elsku Fríða mín, það er sárt að þurfa að skrifa þessi orð hér en geta ekki talað við þig í persónu. Ég reyndi að segja þér þetta í bréfinu til þín og í síma en held að þú með þína hógværð hafir ekki alveg meðtekið hversu þakklát ég er fyrir þína vináttu. Ég kynntist þér þegar ég var 19 ára unglingur og þú varst 23 ára, einstæð móðir í eigin húsnæði, með allt á hreinu að mér fannst. Við unnum saman og ég leit svo upp til þín. Þegar við áttuðum okkur á því að við værum að fara í sama nám þá varð ekki aftur snúið. Við gerðum allt saman, fórum samferða í háskólann, sátum saman í öllum tímum, lærðum saman, deildum glósum og fórum meira að segja saman á klósettið. Þessi 3 ár unnum við saman á sambýlinu og lærðum saman í háskólanum. Við vorum svo mikið saman, að við vorum sakaðar um að hafa svindlað á prófi, svörin okkar voru alveg eins. Þvílíkt sem við vorum stressaðar þegar við reyndum að útskýra að við lærðum saman, deildum glósum og hugsuðum eins og þess vegna svöruðum við eins á prófi.

Þessi þrjú ár voru endalaus hlátursköst á Þjóðarbókhlöðunni, þar sem við urðum að fara inn í prentherbergi, því það voru svo mikil læti í okkur, í bílnum á leiðinni í og úr háskólanum og á mjúka stóra sófanum þínum á kvöldin eftir að Alexander var sofnaður. Ég hugsa oft til baka eftir að ég varð sjálf móðir, hversu þolinmóð og ástrík þú varst við mig, ein að hugsa um barn, í námi og að reka heimili. Þú varst alltaf til staðar fyrir alla í kringum þig, sem sást oft á því hvað það var erfitt að ná í þig í síma. Það var svo oft á tali heima hjá þér. Við vorum með endalausa munnræpu, ræddum námið, tilhugalífið okkar og framtíð okkar sem sálfræðingar og allar þessar hugmyndir sem við höfðum og ætluðum að gera. Þú ert ein af þeim sem ég hitti í gegnum lífsleiðina sem hafðir mikil áhrif á það hver ég er í dag. Í hvert skipti sem ég fór heim til Íslands í heimsókn, varð ég alltaf að hitta þig og það var alltaf eins og við hefðum hist í gær, munnræpan og flissið á sínum stað. Síðast þegar við hittumst varstu búin að segja mér í síma að þú værir svo lasin, svo mættir þú uppstríluð pæja í hælaskóm! Þú varst alltaf svo falleg og mikil pæja.

Þú varst algjör klettur og hélst svo vel utan um alla í kringum þig. Einnig hafðir þú svo mikil áhrif á börn og fjölskyldur í starfinu þínu sem sálfræðingur. Þú ert oft í huga mér í mínu starfi og verður alltaf. Sendi innilegar samúðarkveðjur til Skúla, Alexanders og Theódórs.

Inga og Anton Elí.

Fríða vinkona er dáin.

Eftir að ég fékk símtalið frá Íslandi þustu æskuminningarnar í huga minn er ég minntist hennar með hlýhug og eftirsjá.

Við eyddum grunnskólaárunum í sama bekk og svo þegar ég stakk upp á við hana að fara í Héraðsskólann á Laugarvatni, þá var hún ekki lengi að slá til. Við deildum herbergi saman á heimavistinni og áttum þar ógleymanlegar stundir. Eftir héraðsskólann lá leið okkar í Hagaskóla þar sem við útskrifuðumst úr 10. bekk.

Fríða var uppreisnarseggur á unglingsárunum, hún var hörð af sér og var með sterka réttlætiskennd. Hún var dugnaðarforkur sem lét mótlæti ekki stoppa sig í því sem hún sóttist eftir. Þú fórst of snemma, Fríða, en ég kveð þig hér með, elsku vinkona og vonast til að sjá þig á himnum!

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og sem þú gafst mér. Hvíl í friði. Fjölskyldu þinni votta ég samúð, megi ljós friðar og kærleika fylgja þér.

Þín vinkona,

Ragnheiður

Magnúsdóttir.

Stórt skarð er höggvið í vinkvennahópinn. Elsku Fríða okkar er fallin frá langt fyrir aldur fram.

Leiðir okkar lágu saman strax í fyrsta bekk í Varmárskóla og tókst með okkur góður vinskapur sem hefur haldið alla tíð síðan. Við vorum svo heppnar að vera í mjög samrýmdum bekk í grunnskóla sem enn þann dag í dag heldur sambandi.

Eftir grunnskóla fórum við svo flestar hver í sína áttina og völdum okkur ólíkar leiðir í lífinu en vinskapurinn hélst alltaf og höfum við hist reglulega alla tíð síðan, hvort sem er í saumaklúbb (sem fékk nafnið Bleiku beibin), bústaðarferðum, leikhúsferðum eða öðru. Margar dásamlegar minningar koma upp í hugann, bæði af grunnskólaárunum og eins eftir að við urðum fullorðnar og höfum við vinkonurnar yljað okkur við þessar fallegu minningar um Fríðu okkar. Ein er ógleymanleg ferð okkar vinkvennanna til Amsterdam í tilefni fertugsafmælis okkar fyrir stuttu en þar var Fríða fremst í flokki í búðunum og komum við margar heim með vel úttroðnar ferðatöskur eftir að fylgja Fríðu eftir.

Fríða var alltaf svo hjálpsöm og ráðagóð, hæfileikarík og góð vinkona sem var alltaf til í spjall og hafði mikinn áhuga á því sem var að gerast í lífi okkar vinkvennanna. Þá var svo gott að geta leitað til hennar og átti hún alltaf góð ráð að gefa okkur og stundum grínuðumst við með það að hún ætti nú eiginlega bara að vera á launaskrá hjá okkur saumaklúbbnum, svo oft vorum við að leita til hennar með okkar daglegu vandamál. Það kom okkur því ekki á óvart að Fríða valdi nám og starfsferil sem tengdist því að hjálpa fólki. Hún var klettur í lífi margra sem eiga nú um sárt að binda.

Fríða tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og tók þann pól í hæðina að nýta góðu dagana vel. Hún kvartaði aldrei og barðist fram til síðasta dags.

Elsku Fríða, það er eitthvað svo óraunverulegt að hugsa til þess að við eigum ekki eftir að sjá þig í næsta saumaklúbbi. En góðar minningar um einstaka vinkonu munu lifa.

Við vottum Skúla, Alexander Leví, Theódóri Inga, Antoni Elí, Antoníu Eiri, Hildi, Brimari Leví, foreldrum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Þínar vinkonur í „Bleiku beibunum“,

Ásta, Erla, Eva, Gyða, Hulda Magga, Sigga

og Svanhildur.

Elsku Fríða mín.

Það er svo óraunverulegt að sitja og skrifa þessar línur, ég trúi varla að þú sért ekki lengur með okkur. En þá er gott að rifja upp allar góðu, skemmtilegu og stundum óprenthæfu minningarnar en þær eru ansi margar eftir tæplega 40 ára vináttu. Ég man vel eftir matreiðslutímunum í Gaggó Mos þar sem uppáhaldið þitt var að baka súkkulaðiköku sem samanstóð aðallega af smjörkreminu með smá kökubotni, og svo í unglingavinnunni þar sem þú kenndir mér að pítusósa væri best með öllu. Þá eru óteljandi minningar með saumaklúbbnum okkar Bleiku beibunum, allar ferðirnar innanlands og utan og fjölmargir hittingar þar sem alltaf var mikið hlegið.

Þú varst langfyrst af okkur vinkonunum að verða mamma og það var svo ótrúlegt að fylgjast með þér takast á við móðurhlutverkið svona ung. Strax og Alexander fæddist varstu komin í mömmugírinn og gerðir það svo vel. Ég skildi ekki hvernig þú færir eiginlega að þessu, að axla þessa ábyrgð meðan stærstu áhyggjur okkar vinkvennanna voru helst partí, strákar og kannski námið, þá varst þú einstæð móðir að sjá fyrir ykkur Alexander, vinna og klára nám. Ég dáðist alltaf svo að þér fyrir allan dugnaðinn og agann sem þú bjóst yfir að geta tæklað þetta stóra verkefni ein og af svona miklu öryggi.

Það hefur verið svo gott að eiga þig að í gegnum tíðina, að fá að hringja í þig og leita ráða með þau vandamál sem upp hafa komið en þú varst ómetanlegur stuðningur, endalaus viskubrunnur og áttir alltaf góð ráð til að gefa mér. Þú varst alltaf til í að leyfa mér að pústa og leita ráða hjá þér og þú hlustaðir svo vel. Þegar þú svo veiktist þá tókstu á við veikindin eins og þér einni er lagið, kvartaðir aldrei og hafðir meiri áhyggjur af þínum nánustu en þér sjálfri.

Elsku Skúli, Alexander Leví, Theódór Ingi, Anton Elí, Antonía Eir, Hildur, Brimar Leví, foreldrar og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Missir ykkar er mikill en minning um einstaka manneskju lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Hvíl í friði elsku vinkona,

Eva Björk.

Elsku besta, besta vinkona mín, Fríða, er fallin frá langt fyrir aldur fram. Ég sit eftir dofin og hugsi, skil ekki hvernig lífið á að halda áfram þegar ég hef þig ekki lengur. Mig langar að allur heimurinn gráti með. En að fá að eiga 44 ár af minningum með þér hlýjar mér og hvetur mig áfram í lífinu.

Við vorum aðeins tveggja ára þegar við hittumst fyrst en við bjuggum hvor í sinni götunni í Mosó. Hverfið var nýtt og alltaf bættust fleiri og fleiri krakkar í hópinn. Þetta voru áhyggjulausir tímar sem einkenndust af endalausum leikjum og útiveru. Alla okkar grunnskólagöngu áttum við samheldinn og sterkan hóp sem enn þann dag í dag hittist.

Fríða var kletturinn minn, skugginn og hinn helmingurinn en þegar við vorum busar í FÁ þá vorum við látnar vita á víxl hvar hin væri ef það vildi svo til að bara önnur væri á ferð.

Fríða var fyrst af okkur til að verða mamma, aðeins 18 ára gömul eignaðist hún Alexander og varð ég svo heppin að fá að passa hann milli þess sem hún var í vinnu eða skóla. Seinna fjölgaði í strákahópnum og Theódór Ingi og Anton Elí bættust við og seinna stjúpdóttirin yndislega Antonía Eir. Fyrir þremur árum fékkstu nýtt hlutverk, ömmuhlutverkið, þegar Alexander og Hildur eignuðust sjarmörinn Brimar Leví.

Ég hef verið svo heppin að fá að fylgjast með fallegu strákunum þínum sem eiga ansi margar taugar í mér og minni fjölskyldu. Ég minnist allra ferðanna sem við fórum tvær saman, með krakkana eða alla fjölskylduna. Sumarbústaðir voru gjarnan notaðir, skroppið til Eyja, Víkur og fleiri staða. Ógleymanleg var ferðin okkar fyrir nokkrum árum þegar við skelltum okkur til Tenerife með alla fjölskylduna.

Við höfðum gaman af að fara í leikhús og á tónleika, og jólatónleikar Baggalúts voru fastur liður á aðventunni.

Planið var að verða gamlar saman því við áttum svo margt eftir, en ég lofa að halda áfram og klára það sem þarf að klára, þú veist hvað ég meina.

Ég lofaði þér að passa upp á þitt fólk og halda áfram að flækjast með krakkana, spila og hlæja saman, segja skemmtilegar sögur af þér, eins og þegar þú dast ofan í baðkarið hjá mér.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar elsku Skúli, Alexander Leví, Theódór Ingi, Anton Elí, Antonía Eir, Hildur og Brimar Leví. Missir ykkar er mikill.

Hvíl í friði elsku fallega og yndislega vinkona mín, takk fyrir allt.

Þín vinkona

Ásta.

Elsku Fríða hefur alltaf verið í mínu lífi og minning hennar mun alltaf fylgja mér. Fríða hefur alltaf verið meira eins og frænka mín heldur en aðeins vinkona mömmu minnar.

Minningar með henni og hennar fjölskyldu eru óteljandi og ekki ein af þeim slæm og heldur hefði ég ekki getað beðið um betri stundir en þær sem ég fékk að eiga með henni.

Mér hefur og mun alltaf þykja ofboðslega vænt um hana og hennar fjölskyldu.

Andrea Sif.

Með söknuði kveðjum við kæra samstarfskonu okkar. Fríða hóf störf sem sálfræðingur við Geðheilsuteymi Austur haustið 2019. Betri samstarfskonu var ekki að finna, við gátum ekki verið heppnari. Fríða var gædd einstökum eiginleikum, hógvær, glaðlynd og traustur félagi. Hún elskaði starfið sitt og sagði í veikindum sínum að hún hlakkaði til að koma til baka, enda væri starfið ekki bara vinna, heldur líka áhugamál. Þessa áhuga og fagmennsku nutu skjólstæðingar hennar í ríkum mæli.

Fríða hafði einstaka nærveru, einlægan áhuga á fólki og sýndi öllum í kringum sig hlýju og umhyggju, hvort sem það voru skjólstæðingar eða samstarfsfólk. Þessi hlýja og umhyggja komu einnig sterkt fram þegar hún talaði um fjölskylduna sína, sem henni þótti óendanlega vænt um. Þau þurfa nú að kveðja einstaka dóttur, eiginkonu, móður, stjúpmóður, tengdamóður og ömmu.

Í rúmt ár glímdi Fríða við erfið veikindi. Aðdáunarvert var hvernig hún tók veikindunum af æðruleysi og dugnaði og var hún staðráðin í að hafa betur. Við fylgdumst með á hliðarlínunni og reglulega var spurt frétta. Hún svaraði yfirleitt með fáum orðum og bar sig vel en spurði svo glaðlega „en hvað er að frétta af þér?“ Þetta var lýsandi fyrir það hvernig Fríða var, hún vildi ekki athygli, sviðsljós eða samúð en hafði miklu frekar áhuga á því sem aðrir voru að fást við. Fríða var falleg manneskja að innan sem utan og með einstakan hlátur sem við eigum eftir að sakna svo mikið. Með söknuði kveðjum við yndislega samstarfskonu. Fjölskyldu Fríðu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.

Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.

Hverju orði fylgir þögn.

Og þögnin hverfur allt of fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund.

Því að tár sem þerrað burt

aldrei nær að græða grund.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Ásta Sigrún Gunnarsdóttir, Bryndís Sveinsdóttir og

Sigríður Hrönn Bjarnadóttir f.h. starfsfólks Geðheilsuteymis Austur.