Elín Guðlaugsdóttir fæddist 21. apríl 1930. Hún lést 5. júlí 2022. Útför Elínar fór fram 20. júlí 2022.

„Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.“ Fil. 2.K. 3-5 vers.

Þannig var líf þeirrar konu sem við kveðjum hér í dag. Einstök kona sem svo sannarlega lifði samkvæmt þessum versum.

En þá er líka rétti tíminn til að þakka liðinn tíma. Alla hlýju, vináttu, kærleika og umhyggju.

Að koma inn á heimili þeirra hjóna, Ellu og Jóa, var yndislegt. Maður var svo velkominn. Allt gert til þess að manni liði vel.

Kveikt var á kertum og hlý birtan streymdi um á meðan notið var veitinganna og tíminn nýttur í spjall. Og eftir að þau höfðu flust með heimili sitt á annan stað þá varð engin breyting á hlýjum móttökum né umhyggjunni fyrir okkar fólki.

Svo þegar komið var að heimferð þá dugði ekkert minna en fangið fullt af gjöfum. Vettlingar á hendur afkomenda okkar, nýbakaðar jólakökur o.fl.

Síðustu árin hennar hafa verið henni erfið vegna heilsunnar þar sem henni fannst hún þurfa að geta allt það sem áður var. Jói og Ella áttu fjögur yndisleg börn sem öll reyndust henni á sem bestan hátt. Við færum þeim og öðrum ástvinum hennar samúðarkveðjur frá okkar fjölskyldu, með þakklæti í huga fyrir tuga ára vináttu sem var okkur svo mikils virði.

Ármann og

Sigríður.

Við fráfall Ellu streyma fram minningar um allt það sem ofið hefur okkur saman frá barnæsku minni. Mín veröld var á Brekastíg 33 og garðurinn okkar lá að garðinum á Bessastíg 10 þar sem Ella og fjölskylda bjó.

Fljótlega tók ég, lítið stelpuskott, að venja komur mínar til Ellu, gjarnan á matartímum og alltaf var pláss fyrir mig við borðið. Þar var ég ávallt kölluð Sigga litla. Á laugardögum fór ég oft með þeim í hvíldardagsskólann og svo var farið í mat á Bessastíginn. Oftar en ekki var hakk og spagettí í matinn, það besta í heimi og enn þann dag í dag er það mitt uppáhalds. Mín fyrsta dúkka var frá Ellu og fjölskyldu, hún var með brún augu og gat lokað augunum. Það lá beinast við að hún fengi nafnið Ragna Gulla. Sjónvarp kom á Bessastíginn áður en það kom heim til mín og því horfði ég á barnatíminn hjá þeim. Ella og Jói höfðu milligöngu um það að ég færi í forskóla í Aðventistaskólanum í Eyjum fimm ára gömul. Það var skemmtilegur og eftirminnilegur tími.

Á gosnóttina örlgaríku fyrir næstum fimmtíu árum vaknaði ég við að síminn hringdi rétt um eitt. Í símanum var kona sem sagði mér að fara og vekja mömmu og segja henni að koma í símann. Konan sagði mömmu að gos væri hafið í Eyjum og var mamma vantrúuð. Þegar við kíktum út um stofugluggann sáum við himininn loga. Þá breyttist tilveran hjá litlu stelpuskotti og við tók brottflutningur um miðja nótt. Löngu síðar kom í ljós að konan sem hringdi var Ella. Fjölskylda mín flutti ekki aftur til Eyja.

Það var eins og Ella væri þráðurinn minn við æskuslóðirnar. Við héldum sambandi þó langt væri á milli okkar. Hún fylgdist alltaf vel með öllu sem um var að vera og samgladdist þegar ég stofnaði fjölskyldu og eignaðist börnin. Þegar við komum til Eyja var alltaf farið í heimsókn til hennar. Við vorum leyst út með útprjónuðum vettlingum og dúkkufötum sem Ella og Guðný höfðu prjónað. Og blessunaróskum. Hún varð hluti af baklandinu mínu og okkar.

Ég hitti Ellu skömmu eftir að hún kom á Hraunbúðir nú í vor. Hún var svo fín og hugguleg og ég fann hversu vænt mér hefur þótt um þessa konu sem ég tengdist sem barn. Við sátum saman stutta stund, rifjuðum upp gamla tíma og hún spurði frétta af öllum mínum. Inn á milli sagði hún manninum mínum sögur af Siggu litlu.

Nú er hún Ella mín farin, ég sakna hennar en er full þakklætis fyrir hvað hún var mér í næstum sextíu ár. Rögnu, Gulla, Guðnýju, Jóhanni og fjölskyldu sendi ég samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ellu.

Sigríður Heiðrún Guðjónsdóttir.

Nú er hún Elín horfin á braut og hefur skilið eftir sig skarð sem verður ekki fyllt í hugum ástvinanna og þeirra sem hún umgekkst. Ella var skarpgreind kona sem hafði ákveðnar skoðanir en umfram allt var hún yndislega góð manneskja sem mátti ekkert aumt sjá. Sjaldnast eða aldrei fór maður svo frá henni eftir heimsókn að maður hefði ekki eitthvað meðferðis sem gjöf frá henni. Það voru þá oft á tíðum, sérstaklega seinni árin, vettlingar sem hún prjónaði af miklu listfengi, vettlingar fyrir okkur, fyrir börnin okkar og jafnvel barnabörnin! Eða þá að hún sendi okkur af stað með nesti til fararinnar upp á land, eitthvað af þeim ríkulegu veitingum sem maður hafði notið hjá henni, þá ekki síst pönnukökurnar sem hún bakaði betur en nokkur sem við könnumst við. (Og svo hálfs lítra dós af maltöli sem var í uppáhaldi hjá mér!) Ég minnist þess að við vorum eitt sinn sem oftar með 20 manna unglingahóp í safnaðarheimili aðventista á Brekastíg að skemmta okkur á laugardagskvöldi. Þá birtast þær mæðgurnar Ella og Guðný og höfðu þá bakað feiknastafla af pönnukökum handa öllu liðinu, nokkuð sem skapaði ósvikna lukku í hópnum. Þetta lýsir hugulsemi og hjartagæsku þessarar góðu konu. Enda var það hennar áhugamál innan safnaðarins hennar að sinna líknarmálum, nokkuð sem hún starfaði við í fjölmörg ár af kostgæfni, og margir eru þeir sem hafa notið góðs af starfsemi félagsins. Megi góður Guð blessa minningu Ellu og umvefja ástvinina sem eftir lifa sínum ástarörmum.

Þú sofnað hefur síðsta blund

í sætri von um endurfund.

Nú breiðist yfir undurhljótt

Guðs ást og friður, sofðu rótt.

(Aðalbj. Magnúsdóttir)

Blessuð sé minning hennar Ellu.

Eric og Laila.