Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson — Morgunblaðið/Hákon
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Úthlutað hefur verið 230 milljónum króna úr sjóði vegna styrkja til verkefna sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfis á Íslandi. Alls fengu 22 verkefni styrk úr sjóðnum í ár og er 141 m.kr.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Úthlutað hefur verið 230 milljónum króna úr sjóði vegna styrkja til verkefna sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfis á Íslandi. Alls fengu 22 verkefni styrk úr sjóðnum í ár og er 141 m.kr. veitt vegna nýsköpunarverkefna og 89 m.kr. vegna annarra verkefna, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.

Markmið með styrkveitingunum er í tilkynningu ráðuneytisins sagt vera að draga úr myndun úrgangs, bæta flokkun, efla tækifæri til endurvinnslu sem næst upprunastað, stuðla að aukinni endurvinnslu og endurnýtingu og efla tækifæri til nýsköpunar og þróunar á búnaði sem dregur úr magni úrgangs eða auðveldar flokkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs.

Hæstu styrkir, sem veittir eru til einstakra verkefna, eru 20 milljónir króna og fengu fimm verkefni þá upphæð, en það var meðal annars verkefni er snýr að endurnýtingu byggingarefna, gerð lífræns áburðar úr úrgangi laxeldis og endurvinnsla sláturúrgangs. Þá er meðal annarra verkefna eftirtektarvert að unnið sé að notkun plastúrgangs í stað kola í kísilmálms- og málmblendiframleiðslu.

Yfir milljarð króna

„Innleiðing hringrásarhagkerfis er mikilvægur liður í að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Það er því ánægjulegt og veitir tilefni til bjartsýni að skynja hversu mikill áhugi er á þessum málaflokki og verður áhugavert að fylgjast með framþróun þeirra verkefna sem hér hljóta styrk,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í tilkynningunni.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í mars og bárust 95 umsóknir og var heildarupphæð umsókna 1.250 milljónir króna. Matshópur lagði mat á allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur til ráðherra um veitingu styrkja.