Sæbrautin Þröngt er víða milli götunnar og húsa austan megin. Sum hús ná að Sæbraut. Húsið t.v. er Dugguvogur 42 en þar eru skráð 20 fyrirtæki.
Sæbrautin Þröngt er víða milli götunnar og húsa austan megin. Sum hús ná að Sæbraut. Húsið t.v. er Dugguvogur 42 en þar eru skráð 20 fyrirtæki. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Framkvæmdir við fyrirhugaðan Sæbrautarstokk munu hafa í för með sér umtalsverða röskun hjá fyrirtækjum sem eru með starfsemi í húsum austan megin við Sæbraut.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Framkvæmdir við fyrirhugaðan Sæbrautarstokk munu hafa í för með sér umtalsverða röskun hjá fyrirtækjum sem eru með starfsemi í húsum austan megin við Sæbraut.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Vegagerðin í samvinnu við Reykjavíkurborg og Veitur áform um að leggja Reykjanesbraut/Sæbraut (41) í stokk frá Vesturlandsvegi í norðurátt til móts við Húsasmiðjuna, alls rúmlega einn kílómetra. Vegurinn verður með tveimur akreinum í hvora akstursstefnu í tvískiptum stokk með flóttarými á milli hluta. Verkefnið er hluti samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga. Áætlað er að framkvæmdin taki tvö ár og er vonast til að stokkurinn verði tilbúinn til notkunar fyrri hluta árs 2027.

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda sendi Vegagerðin umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar bréf hinn 1. júlí síðastliðinn. Þar segir m.a.: „Ljóst er að vegna framkvæmdanna verður þörf á að leggja bráðabirgðaveg, samsíða Sæbraut, sem þjónar almennri umferð á meðan á framkvæmdum stendur. Á þessu stigi er helst horft til þess að bráðabirgðavegurinn verði lagður austan megin við fyrirhugaðan stokk, á svæðinu milli núverandi Sæbrautar og Dugguvogs.“

Ennfremur segir í bréfinu að á þessu svæði séu nú hús og í þeim fyrirtæki í fullum rekstri. Lóðirnar eru; Skektuvogur 1, Súðarvogur 2E-F, Dugguvogur 42, Dugguvogur 44, Dugguvogur 46, Dugguvogur 48-50, Dugguvogur 52, Knarrarvogur 2 og Knarrarvogur 4. Í sumum húsanna er engin starfsemi en í öðrum eru skráð allt að 20 fyrirtæki.

Leita þarf til lóðarhafa

„Vegna þess hvað undirbúningur verksins er kominn stutt eru enn margar breytur óljósar en framkvæmdaraðilar hafa boðið út vinnu við mat á umhverfisáhrifum og forhönnun stokksins,“ segir í bréfi Vegagerðarinnar. Einnig sé að hefjast vinna við deiliskipulag svæðisins hjá Reykjavíkurborg.

„Vegagerðin hefur þess vegna ákveðið að senda þetta erindi til Reykjavíkurborgar þar sem farið er fram á að Reykjavíkurborg leiði saman lóðarhafa og Vegagerðina ef einhverjar óskir koma fram um skipulags- og/eða leyfismál á svæðinu, t.d. um útgáfu byggingarleyfa, gerð nýrra lóðarleigusamninga, rekstrarleyfa o.þ.h. Farið er fram á að erindi lóðarhafa varðandi skipulags- og leyfismál verði send Vegagerðinni til umfjöllunar og umsagnar þ.a. ekki verði árekstrar við væntanlegar framkvæmdir.“

Jafnframt vekur Vegagerðin athygli á að huga þurfi tímanlega að skipulagsmálum og öðrum nauðsynlegum ráðstöfunum vegna aðliggjandi eigna vestan megin við fyrirhugaðan stokk, bæði á framkvæmdatíma og rekstrartíma Sæbrautarstokks. Einkum er bent á fasteignirnar Barðavog 40, 42 og 44 og Snekkjuvog 23.

Vegagerðin muni hafa forgöngu um viðræður við lóðarhafa og er mælst til þess að erindum varðandi skipulags- og leyfismál á þessu svæði sem og almennum fyrirspurnum lóðarhafa og íbúa á svæðinu verði vísað til verkefnastjóra hjá Vegagerðinni.

Í lok júní sl. var kynnt matsáætlun vegna fyrirhugaðs vegstokks á Sæbraut/Reykjanesbraut í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að Sæbrautin verði lækkuð og sett í stokk. Útbúin verða mislæg gatnamót við Kleppsmýrarveg. Gera má ráð fyrir að aðlaga þurfi rampa á mislægum gatnamótum Sæbrautar og Vesturlandsvegar þegar Sæbrautin er lækkuð, segir í verklýsingu.

Mestur ávinningur af stokk

Árið 2019 var unnin greining á valkostum á Sæbraut/Reykjanesbraut. Þar voru settar fram mögulegar lausnir á umferðarskipulagi brautarinnar milli Stekkjarbakka og Holtavegar, bæði til skemmri og lengri tíma með tilkomu Sundabrautar. Meginmarkmið verkefnisins var að finna lausnir fyrir umferð bíla á Sæbraut/Reykjanesbraut sem samrýmast myndu framtíðarþróun svæðisins þar sem m.a. voru teknar inn forsendur uppbyggingar á svæðinu og forsendur fyrir legu borgarlínu.

„Niðurstaða greiningarinnar var að sviðsmynd með Sæbraut í stokk og mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Skeiðarvog myndi gefa mestan ávinning ef litið er til framtíðar og bestu lausnina fyrir alla ferðamáta,“ segir m.a. í matsáætlun um verkið, sem unnin var af verkfræðistofunni Verkís. Almenningur getur kynnt sér matsáætlunina á vegagerdin.is.


Úr matsáætlun
» Meginmarkmið með gerð stokka er að auka umhverfisgæði í aðliggjandi byggð og tengja betur saman hverfi sem eru aðskilin með umferðarþungum stofnbrautum.
» Stokkalausnir greiða götu borgarlínunnar, þar sem hún þarf að þvera stofnbrautir og bæta almennt skilyrði fyrir vistvæna ferðamáta.
» Stokkalausnir tryggja einnig ný byggingarsvæði fyrir íbúðir og blandaða byggð og skapa skilyrði fyrir borgargötur með rólegu yfirbragði.
» Mögulegt er að skapa ný almenningsrými og útivistarsvæði á helgunarsvæðum stofnbrautanna.
» Auðveldara verður að ná sátt um gatnamót helstu stofnbrauta borgarinnar.