[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir fæddist 21. júlí í Reykjavík. Hún ólst upp í Smáíbúðahverfinu og gekk í Breiðagerðisskóla og síðan í Kvennaskólann í Reykjavík.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir fæddist 21. júlí í Reykjavík. Hún ólst upp í Smáíbúðahverfinu og gekk í Breiðagerðisskóla og síðan í Kvennaskólann í Reykjavík. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og síðar með BA-gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands. Ólöf er þá með meistaragráðu í guðfræði með áherslu á list og sálgæslu frá Wesley Theological Seminary í Washington DC. Hún stundaði viðbótarnám í sálgæslu á sjúkrahúsum; National Institutes of Health Clinical Center í Maryland í Bandaríkjunum. Fyrir tveim árum bætti Ólöf við sig diplóma í upplýsingafræði frá HÍ. Hún hefur skrifað greinar um upplýsingaöflun og -miðlun, persónuvernd, notkun samfélagsmiðla og fleira á vefsíðunni Netvernd, sem stofnuð var af nemendum í upplýsingafræði, og stofnaði sjálf vefinn Intermessa þegar hún sótti námskeiðið „Internetið og upplýsingaleitir“, UPP215F, við Háskóla Íslands. Nemendur áttu að smíða einfaldan vef og skrifa þrjár bloggfærslur um málefni tengd viðfangsefni námskeiðsins. Vefnum er ætlað að vera sarpur fyrir verkefni í upplýsingafræðinámi sem gætu orðið öðrum til gagns og miðlar því nemendaverkefnum af fleiri námskeiðum.

„Ég hef starfað sem ritari á heilbrigðisstofnunum og í stjórnsýslunni en á mér auk þess fjölmörg áhugamál, til að mynda endurnýtingu fatnaðar, fatasaum, listrænan bútasaum, brauðbakstur og matargerð, vídeóvinnslu fyrir vlogg og blogg.“ Ólöf hefur haldið úti nokkrum bloggsíðum, m.a. moggabloggi, olof.blog.is, þar sem hún hélt dagbók um námsdvöl sína í Bandaríkjunum.

Nýjasti vefurinn, sem enn er í smíðum, er alltnemasykur.blogspot.com og fjallar um mataræði sem sneiðir hjá viðbættum sykri og leiðir því óhjákvæmilega til þess að flestar máltíðir séu eldaðar frá grunni úr ferskum hráefnum. „Við erum því vel nærð og haldin á heimilinu.“ Ólöf var í Halaleikhópnum, þar sem hún bjó til búninga og leikmuni og lék Drífu í „Góðverkin kalla“ eftir Ármann Guðmundsson.

Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá Hertex nytjamarkaði frá árinu 2018 og er orðin sérfræðingur í notuðum leikföngum og jólaskrauti. „Ég hef mikla ástríðu fyrir endurnýtingu fatnaðar og kaupi flest mín föt á nytjamörkuðum og geri þau að mínum með saumakunnáttu sem barnabarnið nýtur líka góðs af, hvort heldur er í hversdagsfatnaði eða ævintýrabúningum. Ég hef verið að fikta við gerð kirkjulegra textíla með aðferðum listræns bútasaums og held þeim draumi lifandi að skilja eitthvað eftir mig í þeim efnum. Þetta eru nokkuð óhlutbundin munstur sem ég teikna og tengi þá við annað hvort einhverja frásögn í biblíunni eða eitthvert stakt verk sem mér finnst hafa mikla merkingu fyrir mig og okkur mannfólkið. Það þarf ekkert endilega að vera eitthvað andlegt heldur eitthvert mál sem við viljum brjóta til mergjar. Ég er fyrst og fremst að hugsa um saumatæknina og hvernig ég fer að því að sauma þessi form saman. Það eru svo margar mismunandi aðferðir til í bútasaumi við að skeyta saman efni og ég er ekki föst í einhverri einni aðferð. Ég var til dæmis að velta fyrir mér hvernig hægt væri að útskýra tengsl Guðs og manns og teiknaði þá spíral sem er fornt tákn í mörgum menningarheimum. Ég gerði hann tvöfaldan og þá kom gyllt ræma sem fór í spíral og táknar guðdóminn, svo skrúfast til baka í hina áttina silfurlituð ræma sem er þá mennskan. Hugmyndin á bak við þetta var að tengja þetta tvennt saman; hvernig þessar hugmyndir eru samfléttaðar. Ég vinn ekki með hefðbundin kristin tákn og sauma ekki krossa eða geislabauga og slíkt.“ Ólöf byrjaði á þessu um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar. Hún er ennþá skúffuskáld en sér fram á að halda sýningar þegar hún er komin með meira efni. „Ég er fyrst og fremst að útfæra þetta í messuskrúða sem heitir stóla en það líkist löngum trefli sem prestar eru með um hálsinn þegar þeir predika. Mér þykir þetta spennandi form vegna þess að þetta er svo langt og mjótt og erfitt að koma einhverju fyrir á því. Þegar ég er búin að sauma nógu margar stólur, kannski 10-20 stykki, þá langar mig að halda sýningu. Ég er komin með þrjár núna en það eru fleiri í vinnslu.“

Ólöf er stödd í borginni Dublin á Írlandi og fagnar afmælisdeginum þar. „Ég fer í gamaldags teboð sem haldið verður í tveggja hæða strætisvagni sem keyrir um Dublin á meðan ég og maðurinn minn drekkum te og gæðum okkur á samlokum. Ég held gjarnan svona teboð heima hjá mér þar sem ég útbý skonsur, samlokur og eitthvert sætmeti og hef mjög gaman af því.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ólafar er Snorri Halldórsson, f. 19.6. 1958, kerfisfræðingur. Þau eru búsett í Grafarholti og eiga tvö börn: 1) Ágúst Ibsen, 11.4. 1983, læknir í Svíþjóð. Eiginkona hans er Ólína Einarsdóttir og eiga þau dótturina Elísu Vigdísi, f. 21.11. 2014. 2) Elías, f. 18.8. 1993, vélnámsverkfræðingur og karatemaður, búsettur í Reykjavík. Systkini Ólafar eru: 1) Jón Garðar Davíðsson, f. 15.5. 1964, bifvélavirki í Reykjavík. 2) Guðlaugur Magni Davíðsson, f. 8.5. 1967, slökkviliðsmaður í Hafnarfirði. 3) Davíð Jóhann Davíðsson, f. 30.6. 1968, sölumaður í Hveragerði. 4) Páll Viggósson, f. 11.4. 1970, leiðsögumaður á Akranesi. Foreldrar Ólafar: Anna Elsa Jónsdóttir, 28.8. 1942, hjúkrunarritari í Reykjavík, og Davíð Guðráður Garðarsson, 10.2. 1942, d. 11.7. 2018, skósmiður í Svíþjóð. Þau voru gift og skildu. Fósturfaðir Ólafar var Viggó Pálsson, f. 18.3. 1929, d. 16.1. 2015, verkamaður í Reykjavík.