[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Logi Sigurðarson logis@mbl.is Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja og Kviku var um 92 milljarðar króna í fyrra. Síðan þá hefur vaxtastig tekið að hækka, eignamarkaðir lækkað og innrás Rússa hefur sett sinn svip á heimshagkerfið.

Baksvið

Logi Sigurðarson

logis@mbl.is

Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja og Kviku var um 92 milljarðar króna í fyrra. Síðan þá hefur vaxtastig tekið að hækka, eignamarkaðir lækkað og innrás Rússa hefur sett sinn svip á heimshagkerfið.

Snorri Jakobsson hjá Jakobsson Capital segir að almennt hafi hærra vaxtastig jákvæð áhrif á rekstur bankanna. Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti á árinu um 2,75%, úr 2% í 4,75%, en þeir urðu lægstir 0,75% í nóvembermánuði 2020.

„Stýrivextir voru komnir undir 1,0-1,5%, sem gerir rekstrarumhverfi erfitt fyrir banka. Þessar vaxtahækkanir bankanna [í kjölfar stýrivaxtahækkana] verða til þess að vaxtatekjurnar, sem er meginuppistaða tekna viðskiptabankanna, munu líklega aukast mikið. Þetta er stærsti tekjuliðurinn þeirra,“ segir Snorri.

Bjartsýnn á uppgjör bankanna

Aðspurður segist hann vera bjartsýnn á uppgjör stóru viðskiptabankanna og telur þau verða sterk. Hann bendir þó á að útlitið fyrir fjárfestingarbanka sé dekkra, þar sem hærra vaxtastig geti haft neikvæð áhrif á tekjur þeirra. Eins og mbl.is greindi frá á þriðjudag, sendi Kvika frá sér neikvæða afkomuviðvörun, þar sem bankinn varaði við því að hagnaður fyrir skatta yrði 1,8 milljörðum lægri en áætlað var 12. maí. Minni hagnaður skýrist af lægri fjárfestingartekjum vegna erfiðra aðstæðna á verðbréfamörkuðum.

Horfurnar betri á Íslandi

Snorri tekur þó fram að rekstur Kviku sé mun fjölbreyttari en fyrir tveimur árum, vægi útlánasafns bankans hafi aukist. Einnig sameinuðust Kvika og TM í fyrra.

Snorri segir að efnahagshorfurnar hér séu mun bjartari en til dæmis á meginlandi Evrópu. Þar sé horft upp á vaxtahækkanir auk samdráttar í hagkerfinu, en samkvæmt Hagstofu Íslands jókst landsframleiðsla um 8,6% á fyrsta ársfjórðungi.

„Hér er gríðarlega kröftugur hagvöxtur, sem drífur áfram mikinn útlánavöxt hjá bönkunum. Þeir fá bæði hærri vaxtatekjur, líklega vegna aukins vaxtamunar, og einnig gríðarlegan vöxt á lánasafninu.“

Nú hafa erlendir miðlar greint frá því að hagnaður banka vestanhafs hafi tekið að minnka og þeir búi sig undir samdrátt. Lækkanir á eignamörkuðum hafa spilað inn í þessa lækkun og auk þess eru þeir farnir að byggja upp varasjóði fyrir lán sem fara mögulega í vanskil.

Erfitt að bera þá saman

Snorri segir í raun ekki hægt að bera þetta saman við þróunina hér á Íslandi vegna smæðar efnahagskerfisins hérlendis. Einnig hafi myndast mun stærri bóla á eignamörkuðum vestanhafs en hér, fyrst og fremst í verði tækni- og vaxtafyrirtækja. „Hlutabréfamarkaðurinn hér byggist að miklu leyti á arðgreiðslufélögum sem vaxa hægt,“ segir Snorri Jakobsson.