Nesvöllur Krían getur verið ágeng við þá sem leggja leið sína á golfvöllinn. Nú sakna menn kríunnar og kríuunganna en minkar spilltu varpinu.
Nesvöllur Krían getur verið ágeng við þá sem leggja leið sína á golfvöllinn. Nú sakna menn kríunnar og kríuunganna en minkar spilltu varpinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Minkur er búinn að rústa kríuvarpinu á Seltjarnarnesi. Það hvarf nánast eins og dögg fyrir sólu fyrir um hálfum mánuði. Úti í Suðurnesi, þar sem varpið hefur verið einna mest, sést varla kría og aðeins örfáir ungar. Framan af sumri báru kríurnar síli í unga og þá var útlitið mjög gott. Eins þykjast menn sjá töluverð afföll á ungum anda, gæsa og tjalda.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Minkur er búinn að rústa kríuvarpinu á Seltjarnarnesi. Það hvarf nánast eins og dögg fyrir sólu fyrir um hálfum mánuði. Úti í Suðurnesi, þar sem varpið hefur verið einna mest, sést varla kría og aðeins örfáir ungar. Framan af sumri báru kríurnar síli í unga og þá var útlitið mjög gott. Eins þykjast menn sjá töluverð afföll á ungum anda, gæsa og tjalda.

„Ég sé afleiðingarnar af þessu og þær eru alveg skelfilegar,“ segir Jón Hjaltason Seltirningur, sem leikur golf á Nesvelli. Hann sá tvo kríuunga í gærmorgun en þeir hefðu átt að vera miklu, miklu fleiri ef allt væri eðlilegt. „Þetta er mesta tjón á varpinu sem ég veit af, sennilega í fimmtán ár. Það hljóta allir að hafa áhyggjur af þessu,“ segir Jón.

Varpið leit mjög vel út í vor

„Ég fór um Seltjarnarnes í vor og þá leit kríuvarpið mjög vel út. Það voru yfir 2.000 kríuhreiður á öllu Nesinu, nema það var ekkert kríuvarp úti í Gróttu og það var í fyrsta skipti síðan ég fór að fylgjast með þessu. Líklegasta skýringin á því er minkur,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur.

Hann hefur fylgst með fuglalífi á Nesinu í marga áratugi. Í fyrra voru um 1.600 kríuhreiður á Seltjarnarnesi en í vor var kríuvarpið mun stærra. Langstærsta varpið á Seltjarnarnesi er í Suðurnesi við golfvöllinn og þar verpa um 90% kríanna. Jóhann fékk nýlega tölvupóst frá fuglaáhugamanni, sem hefur fylgst með fuglalífi í kringum Nesvöll og þá voru nær allir kríuungar horfnir. Það fylgdi sögunni að minkur hefði gert usla í varpinu.

Má ekki vitja um minkagildrur

„Ég tók tvo minka á Seltjarnarnesi á þeim tíma sem mest gekk á. Þetta voru fullorðin dýr. Ég náði þeim báðum í kríuvarpinu. Ég geri ráð fyrir að þeir séu sökudólgarnir. Varpið er mjög illa farið eftir minkinn, það er óhætt að segja það,“ segir Guðmundur Björnsson meindýraeyðir. Hann segir að minkurinn leiti skjóls í grjótgarði meðfram ströndinni og þar sé ómögulegt að eiga við hann.

Guðmundur er með minkagildrur í Gróttu en hefur ekki getað vitjað um þær undanfarið. „Ég vitja reglulega um gildrurnar allt árið en þeir loka Gróttu í tvo mánuði á ári til að vernda fuglalífið. Hún er svo háfriðuð að þangað má enginn fara á þessum árstíma, nema minkurinn, sem rústar öllu fuglalífi,“ segir hann.

Hundar eru bannaðir í Gróttu. Guðmundur fékk tíu daga undanþágu fyrir mörgum árum til að fara þangað með minkahunda. Þeir fundu mink í grjótgarðinum en það var ekkert hægt að gera. „Gildrur eru það eina sem virkar þarna,“ segir Guðmundur.

Markmiðið að vernda fuglana

„Við höfum það markmið að vernda fuglalífið, segir Grétar Dór Sigurðsson, formaður umhverfisnefndar Seltjarnarnesbæjar. Hann segir að Umhverfisstofnun stjórni friðun Gróttu. Grétar telur að hægt sé að sækja um undanþágu til að huga að mannvirkjum í Gróttu á friðunartíma fugla og telur að það sé einnig hægt að gera til að hreinsa úr minkagildrum.