Viðskipti Úrvalsvísitalan féll um tæp 5% eftir afkomuviðvaranir.
Viðskipti Úrvalsvísitalan féll um tæp 5% eftir afkomuviðvaranir. — Morgunblaðið/Þórður
Hlutabréfaverð í Marel hríðféll í gær eftir að fyrirtækið gaf út afkomuviðvörun í fyrradag. Hlutabréfaverð Marels lækkaði um tæplega 11% í viðskiptum sem námu 744 milljónum. Gengið stendur nú í 606 krónum.

Hlutabréfaverð í Marel hríðféll í gær eftir að fyrirtækið gaf út afkomuviðvörun í fyrradag. Hlutabréfaverð Marels lækkaði um tæplega 11% í viðskiptum sem námu 744 milljónum. Gengið stendur nú í 606 krónum. Gengi Kviku lækkaði einnig en ekki jafn skarpt en þó um rúmlega 3% í viðskiptum sem hlupu á 1,2 milljörðum króna. Marel er stærsta félagið í Kauphöllinni og dró í kjölfarið Úrvalsvísitöluna niður um tæp 5%.

Fækka starfsfólki um 5%

Líkt og mbl.is greindi frá í vikunni hyggst Marel fækka starfsfólki um 5% á heimsvísu vegna krefjandi rekstrarumhverfis. Í bráðabirgðauppgjöri fyrirtækisins segir að rekstrarniðurstaða félagsins á öðrum ársfjórðungi sé undir væntingum. Verkefnastaðan sé þó góð og drifin áfram af nýsköpun og aukinni markaðssókn um heim allan.

Líkt og Marel, sendi Kvika frá sér afkomuviðvörun á þriðjudag þar sem fyrirtækið varaði við því að hagnaður fyrir skatta væri 1,8 milljörðum minni en ráðgert var á öðrum ársfjórðungi. Það skýrist aðallega af lægri fjárfestingartekjum, en aðstæður á verðbréfamörkuðum hafi verið krefjandi.

Icelandair lækkaði líka

Icelandair lækkaði einnig í viðskiptum gærdagsins, eða um rúmlega 2%. Arion banki og Icelandic Seafood International voru einu félögin sem hækkuðu á markaði í gær, þó aðeins lítillega. logis@mbl.is