Litið til fortíðar Ljósmyndarinn og guðfaðirinn heldur blaðamanninum, sem þá var óskrifandi, undir skírn.
Litið til fortíðar Ljósmyndarinn og guðfaðirinn heldur blaðamanninum, sem þá var óskrifandi, undir skírn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Það tók tæpt ár fyrir Árna Sæberg, ljósmyndara hjá Morgunblaðinu, að taka frænda sinn og alnafna í sátt eftir að sá síðarnefndi gerðist blaðamaður á Vísi.

Viðtal

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Það tók tæpt ár fyrir Árna Sæberg, ljósmyndara hjá Morgunblaðinu, að taka frænda sinn og alnafna í sátt eftir að sá síðarnefndi gerðist blaðamaður á Vísi. Það var einmitt það sem yngri maðurinn hafði unnið sér til sakar – að stíga inn á sama svið og sá eldri og valda með því ruglingi á þeim frændum hægri vinstri. Ruglingurinn var orðinn svo mikill að sá eldri íhugaði að skipta um nafn og taka upp nafnið Skuggi Sæberg.

Rúmum hundrað árum fyrr hafði afi ljósmyndarans og langalangafi blaðamannsins keypt Sæbergsnafnið, einmitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að honum yrði ruglað saman við annan mann. Sagan er því farin að endurtaka sig.

„Þetta hefur valdið ákveðnum misskilningi lengi, en aldrei vandræðum fyrr en núna,“ sagði Árni yngri þegar blaðamaður settist niður með þeim frændum á heimili þess eldri fyrr í júlímánuði. Frændurnir virtust ekki eiga margt sameiginlegt, annað en genin og nafnið. Árni eldri var á sífelldum þeytingi á meðan sá yngri sat hinn rólegasti.

„Ég get ekki setið kyrr,“ sagði Árni eldri þessu til staðfestingar. „Það rennur ekki í mér blóðið,“ bætti Árni yngri við.

Fleira skilur þá frændur að, sá eldri er lítið gefinn fyrir texta og sá eldri hefur ekkert vit á ljósmyndun.

„Ég er skrifblindur og lesblindur og allur pakkinn,“ sagði sá eldri.

„Og ég gæti ekki tekið ljósmynd til að bjarga lífi mínu,“ sagði sá yngri.

Í 40 ár var Sæbergs-nafnið einkennismerki Árna eldri. Með því skapaði hann sér sérstöðu og fólk fór að kannast við nafnið en Árni hefur starfað sem ljósmyndari hjá Morgunblaðinu í um fjóra áratugi.

Þegar drengur fæddist inn í fjölskylduna rétt fyrir síðustu aldamót ákváðu foreldrar hans að nefna hann Árna Sæberg og gera hann þannig að alnafna ljósmyndarans. Sá eldri kippti sér lítið upp við það á sínum tíma og samþykkti meira að segja að taka að sér hlutverk guðföður.

En Sæbergs-nafnið á sér lengri sögu. Árið 1918 var Berthold Benjamín Magnússon, afi Árna eldri og langalangafi þess yngri, orðinn þreyttur á að honum væri í sífellu ruglað saman við nafna sinn. Þá tók hann ákvörðun um að fjárfesta í ættarnafninu Sæberg sem hann fékk á 10 krónur.

„Hann keypti þetta sem ættarnafn til þess að aðgreina sig frá öðrum manni sem hét Berthold í Hafnarfirði,“ segir Árni eldri. Hann fékk nafnið við skírn en notaði það ekki framan af heldur gekk undir nafninu Árni Kristjánsson.

„Ég notaði ekki Sæbergs-nafnið fyrr en ég fór að taka myndir. Mér var strítt svo mikið í skólanum í gamla daga og mér fannst þetta ljótt nafn,“ sagði Árni eldri sem hefur í gegnum tíðina gengið undir einu nafni enn: Skuggi. „Það var af því að ég var alltaf í svörtum frakka með sítt svart hár,“ útskýrir Árni eldri en nafnið festist við hann þegar hann dvaldi á Núpi í Dýrafirði á áttunda áratugnum.

Þegar hann fór að mynda var hann svo hvattur til þess að nýta Sæbergs-nafnið enda bauð það upp á ákveðna sérstöðu. Þeirri sérstöðu var svo ógnað þegar Árni yngri fékk vinnu sem blaðamaður á Vísi fyrir rúmu ári.

„Þetta pirraði mig alveg rosalega þegar ég sá þetta fyrst og ég var svo reiður að ég hugsaði að ég ætlaði aldrei að tala við þetta fólk aftur,“ sagði Árni eldri.

Stuttu eftir að Árni yngri hóf störf sem blaðamaður hjá Vísi fór vandræðagangurinn af stað.

„Ég skrifaði grein um að einhver væri að eitra fyrir köttum í ákveðnu hverfi. Þá var eldri kona sem fékk þá flugu í höfuðið að ég hefði verið að segja að hún hefði verið að eitra fyrir köttunum. Hún hélt að ég væri [Árni eldri] og fór að eltast við hann,“ útskýrir sá yngri.

Fréttastjóri Morgunblaðsins fékk þá símtal frá umræddri konu sem var viss um að Árni Sæberg, ljósmyndari á Morgunblaðinu, væri ábyrgur fyrir öllu saman. Tekið skal fram að ekkert í grein Árna yngri tengdi umrædda konu við málið.

Mætti ekki í útskriftina

Eftir þetta fór að bera nokkuð á því að fólk ruglaði þeim frændum saman og varð það jafnvel að gríni í Hádegismóum að starfsmenn ættu að sýna jafn mikinn dugnað og Árni Sæberg sem tæki ljósmyndir fyrir Moggann á daginn og skrifaði fyrir Vísi á kvöldin.

Árni yngri var fyrir löngu orðinn vanur því að fólk teldi hann vera ljósmyndara á Morgunblaðinu.

„Þegar ég byrjaði í menntaskóla og var að kynnast nýju fólki var ég spurður: „Bíddu, ert þú ljósmyndari?“ Ég svaraði: „Nei, ertu eitthvað ruglaður? Ég er 16 ára – þetta er frændi minn,“ rifjar Árni yngri upp.

„Svo jókst þetta þegar ég byrjaði í háskóla og fólk gerði ráð fyrir því að ég væri blaðaljósmyndari á Mogganum.“

Sá eldri var aftur á móti ekki jafn vanur ruglingnum og því kom það illa við hann þegar frændinn réðst inn á vettvang fjölmiðlanna.

„Mér leið eins og þetta væri vörumerkið mitt vegna þess að maður er búinn að sjá þetta svo lengi. Svo kemur þetta á Vísi,“ segir Árni eldri sem varð svo pirraður út í frænda sinn að hann neitaði að mæta í útskrift hans úr lögfræði stuttu eftir að sá yngri hóf störf á Vísi.

„Ég hugsaði: „Ég tala aldrei við Árna Sæberg aftur,“ sagði Árni eldri og ávarpaði frænda sinn: „Manstu, ég kom ekkert í útskriftina hjá þér.“

„Já,“ sagði Árni yngri.

„Ég var svo reiður og það er svo vont að vera svona reiður,“ sagði Árni eldri.

„Svo fór ég að lesa þessa bók hérna,“ bætti hann við og dró fram Bókina um gleðina eftir Dalai Lama og Desmond Tutu við hlátrasköll blaðamanns og frændans. Kannski hefur bókin hjálpað því Árni er kominn yfir ergelsið núna, enda almennt mjög léttur í lund.

„Ég verð eiginlega aldrei reiður, það fer mér mjög illa að vera reiður.“

Þeir frændur hittust svo loks í fermingarveislu nú í vor og sættust, þrátt fyrir að hafa ekki sérstaklega rætt þessi vandræði með nafnið. Sá yngri hafði þó heyrt af reiði frænda síns og líka orðið var við ruglinginn.

Blaðamaður hafði samband við þá frændur og óskaði eftir viðtali eftir að Árni yngri hafði skrifað viðtal við dómsmálaráðherrann Jón Gunnarsson sem Árni eldri var sakaður um að hafa ritað. Viðtalið birtist á Vísi. „Árni Sæberg liðhlaupi sjálfstæðismanna og blaðaljósmyndari á Mogganum skrifar inn á Vísir til að hjálpa Jóni [...] já allt er nú til...“ skrifaði þá lesandi Vísis í athugasemdakerfi miðilsins á Facebook.

Skuggi Sæberg

„Ég var meira að segja farinn að hugsa um að breyta nafninu mínu og setja bara Skuggi Sæberg,“ sagði Árni eldri. Þó að hann hafi hugsað um nafnabreytinguna í fullri alvöru, enda um gott ljósmyndaranafn að ræða, þá segir Árni að hann hefði líklega ekki látið af því verða.

„Ég er nefndur í höfuðið á langalangalangafa mínum Árna snikkara sem var mikill vinur Bólu-Hjálmars og átti 26 börn með fjórum konum. Síðasta barnið átti hann 85 ára með 25 ára prestsdóttur,“ minnist Árni eldri á og bætir því við að hann hafi ekki leikið þetta eftir forföðurnum. Árni á sjálfur eina dóttur, Mörtu Maríu Sæberg, sem verður tvítug á árinu.

Ljósmyndarinn þarf þó líklega ekki að hafa áhyggjur af þessu öllu saman mikið lengur. Árni yngri stundar nám við lagadeild Háskóla Íslands og sér fyrir sér að starfa við lögmennsku í framtíðinni.

„Svo ef ég verð einhver illa þokkaður lögmaður, þá verður þetta enn þá verra,“ benti Árni yngri frænda sínum á.

„Já, vertu á Vísi, en ekki taka myndir,“ sættist Árni eldri loks á.

Lengri útgáfu af viðtalinu má nálgast á mbl.is.