Sigríður Bernhöft (Siddý) fæddist 30. ágúst 1949. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 7. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru Dómhildur Guðmundsdóttir, f. 3. ágúst 1924, d. 8. nóvember 2011, og Árni Valdimarsson, f. 6. desember 1923, d. 16. maí 2004. Systkini Sigríðar eru Magnús Árnason, f. 1953, og Marta Árnadóttir, f. 1956.

Sigríður giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Birgi Bernhöft, f. 11. apríl 1948, hinn 8. nóvember 1969. Foreldrar hans voru Kristrún Bernhöft, f. 5. nóvember 1908, d. 8. febrúar 1990, og Jóhann Gotfred, f. 12. janúar 1905, d. 29. september 1964.

Börn Sigríðar og Birgis eru: 1) Gotti, f. 26. febrúar 1970. Börn hans og Valgerðar Helgu Schopka eru Júlía Helga, Júlí Mosi og Lilja Ljós. 2) Árni Valdi, f. 19. apríl 1976. Börn hans og Ingibjargar Ásdísar Ragnarsdóttur eru Andrea Örk og Birgir Rafn. 3) Kristrún Helga, f. 25. febrúar 1982. Börn hennar og Kristófers Þórs Pálssonar eru Árni Kristinn, Brynjar Páll og Elísabet Guðrún.

Eftir hefðbundna skólagöngu vann Sigríður hjá Eimskip og síðar Blossa allt þar til hún stofnaði ásamt eiginmanni sínum og foreldrum byggingavöruverslunina BB Byggingavörur. Skólagöngu Sigríðar var ekki lokið og hún fór í Öldungadeild Menntaskólans í Hamrahlíð þar sem hún kláraði stúdentsnámið. Eftir pásu frá námi lá leið hennar í Kennaraháskólann þar sem hún tók kennsluréttindi og fór svo til Englands í framhaldsnám og bætti við sig sérkennsluréttindum og vann við það bæði í Hjallaskóla og Árbæjarskóla.

Útför Sigríðar fer fram frá Kópavogskirkju, í dag, 21. júlí 2022, klukkan 13.

Í dag kveðjum við móður mína, Sigríði Bernhöft (Siddý). Mamma hafði glímt við krabbamein í tæp tvö ár og fór bæði í uppskurð og lyfjameðferð vegna þess. Hún hafði mikla trú á meðferðinni og ætlaði að sigra. Lokaorrustuna bar brátt að, stóð stutt yfir og kom fráfallið okkur öllum á óvart. Eftir sitja nánastu ættingjar og syrgja og á tíma sem þessum eru minningar og þakklæti efst í huga.

Helstu áhugamál mömmu voru lestur, ferðalög, skíði og golf síðar meir og var henni mikið í mun að iðka sín áhugamál með fjölskyldunni. Á ég góðar minningar úr barnæsku frá skíðaferðum fjölskyldunnar í Bláfjöllum, í Kerlingarfjöllum, á Akureyri og einnig erlendis. Minningar um útiveru, samveru og heitt kakó með roða í kinnum eftir góðan dag ylja. Fjölskylduferðirnar erlendis voru ófáar og allar skjalfestar með ljósmyndum sem gleðja svo sannarlega í dag.

Mömmu var afar umhugað um að afkomendur hennar fengju tækifæri til að hafa unun af sömu áhugamálum og hún. Svo mikið að oftar en ekki leyndist skíða- eða golfbúnaður í afmælis- eða jólapökkum okkar systkinanna eða barnabarnanna. Þá var sett upp golfgrín og teigar á sumarbústaðalandið og hinsta ósk hennar var að við fjölskyldan færum saman erlendis í skíðaferð, með eða án hennar.

Mamma var kennari af lífi og sál og lagði m.a. mikið upp úr því að undirbúa barnabörnin undir grunnskólagöngu. Nánast öll okkar síðustu samskipti snerust um það hvenær hún gæti hitt Elísabetu (sex ára), dóttur mína, til þess að kenna henni að lesa. Síðasta hugmynd sem hún fékk í þeim efnum var að ég kæmi með hana austur í bústað og færi í golf með pabba á meðan hún læsi með Elísabetu. Þarna náði hún að slá ansi margar flugur í einu höggi (fá fjölskyldumeðlimi í bústaðinn, senda mig og pabba í golf og lesa með Elísabetu, tékk, tékk, tékk!).

Það er ekki hægt að minnast mömmu án þess að nefna sumarbústaðinn á Laugarvatni en þar átti hún sitt annað heimili með pabba. Þar leið henni vel, naut samvista með pabba, spilaði golf á Dalbúa, eldaði góðan mat og fékk oft á tíðum fjölskyldumeðlimi eða vini í heimsókn. Það gladdi mömmu mikið að sjá barnabörnin njóta sín í bústaðnum og umbúnaðurinn slíkur að yngri meðlimir geta spriklað frjálsir um landareignina, hoppað á trampólíni, farið í pottinn, rólað eða rennt sér í rennibraut, slegið golfkúlur inn á grín eða spilað fótbolta. Einhvern veginn held ég að andi hennar verði alltaf með okkur þar framvegis, sitjandi á pallinum með dagblað að fylgjast með barnabörnunum, með hvítvínsglas fyrir matinn í gleðistund með fjölskyldunni, eða segjandi kaldhæðna brandara við matarborðið.

Mamma var afar raunsæ og jarðbundin manneskja, laus við sýndarmennsku og prjál. Hún var kannski ekki hávær og fyrirferðarmikil en nærvera hennar mikilvæg engu að síður. Elsku mamma, ég þakka þér fyrir samfylgdina öll þessi ár og fyrir lífsspekina sem þú gafst mér. Við höldum minningu þinni á lofti í bústaðnum, á skíðum, í ferðalögum og í golfi. Megir þú hvíla í friði.

Kristrún Bernhöft.

Nú hefur elskulega amma mín kvatt þennan heim eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Ég mun svo innilega sakna þess að borða kvöldmat á kvöldin og hlusta á hana segja mér sögur frá því að ég var lítil eða þegar við fórum um ferðalög um Ísland og hún sagði okkur alltaf hvar við værum á landinu. Ég elska þig alltaf og mun sakna þín að eilífu.

Andrea Örk Bernhöft.

Kæra Sigríður er látin eftir erfið veikindi. Við kynntumst fyrir 45 árum þegar við festum kaup á húsum í nýju hverfi fyrir norðan Nýbýlaveginn. Þar voru enn smábýli, þar sem fólkið drýgði tekjurnar með alls kyns ræktun. Það var nóg pláss í Fossvogsdalnum og eftir Vestmannaeyjagosið var skipulagt þarna nýtt hverfi, Snælandshverfið. Svo mætti unga barnafólkið og kom sér upp þaki yfir höfuðið. Þarna hittumst við Siddý fyrst, eiginmenn okkar og börnin. Hún var með soninn Gotta og ég með Völu og Júlíus. Þarna kynntust þau og léku sér saman í allri ringulreiðinni á byggingarsvæðinu. Niðri í dalnum var yndislegt óbyggt svæði fyrir okkur nýbúana og börnin. Árni Valdi fæddist á þessum árum og svo seinna Sissa systir þeirra bræðra og Rúna bættist í systkinahópinn hjá mér. Börnin stækkuðu og varð vel til vina. Komu í barnaafmæli og við foreldrarnir fylgdumst með. Birgir Bernhöft, eiginmaður Siddýjar, átti það til að baka gómsætar kökur eins og hann á kyn til. Birgir er líka snillingur að leggja gott til málanna, sem kom sér vel í hverfi sem var í byggingu. Á þessum árum voru Siddý og Birgir að byggja upp fyrirtæki sitt, BB byggingarvörur, sem var innarlega á Suðurlandsbraut. Ég man svo vel eftir að á tímabili fór Siddý fótgangandi að heiman frá Birkigrund og alla þessa leið á vinnustað og það á tímum þegar ekki var svo algengt eins og seinna varð að ganga svona langar leiðir í vinnu. Ég dáðist svo að henni og man hvað hún var alltaf smekklega klædd.

Seinna settist Siddý aftur á skólabekk og lauk stúdentsprófi. Svo kom að því að hún menntaði sig frekar og hélt til Bretlands og lagði stund á kennslufræði og stærðfræði. Alltaf vann hún jafnframt við fyrirtæki þeirra hjóna en eftir námsdvölina sneri hún sér að kennslu. Mikið fannst mér hún dugleg, sannkölluð kjarnorkukona. Þau reistu sér sumarbústað á Laugarvatni. Einhverju sinni vorum við hjónin stödd þar og rákumst á þau og það kom ekki annað til greina en að bjóða okkur heim í kvöldverð í bústaðinn og fara í skoðunarferð um svæðið. Þegar ég eignaðist mitt þriðja barn var þriðja barnið hjá nágrönnunum aðeins eldra og Siddý gaf mér fötin sem dóttirin var vaxin upp úr. Það kom sér vel fyrir okkur í blankheitum á húsbyggingarárunum. Mörgum árum seinna endurnýjuðu Gotti og Vala dóttir mín kynnin og eignuðust saman þrjú börn. Þá eignuðumst við nágrannarnir fyrsta barnabarnið í báðum fjölskyldum, Júlíu Helgu, sem lauk stúdentsprófi 4. júní sl. Þar hittumst við afarnir og ömmurnar, glöddumst og áttum yndislega stund saman. Siddý leit svo vel út og það var ekki hægt að merkja að hún væri alvarlega veik. Við vonuðum að hún ætti lengri lífdaga fyrir höndum en rúmum mánuði seinna andaðist elsku Siddý. Við eigum minningar um yndislega konu sem reyndist barnabörnunum okkar svo vel. Við kveðjum hana með þökk í hjarta og vottum Birgi og allri fjölskyldunni innilega samúð.

Helga Skúladóttir.

Látin er góð vinkona, Sigríður Bernhöft, Siddý, ekki grunaði okkur að svona stutt væri eftir, hélt að ég hefði nægan tíma til að kalla á ykkur í kaffi, sé eftir því.

Við Siddý kynntumst í Öldungadeildinni í Hamrahlíð 1976, hún mikill námsmaður en ég skrölti í gegn. Ég dáðist að dugnaði hennar, Kennaraskólinn og svo sérmenntun í Englandi þar sem hún fór ein.

Við kynntumst Birgi manni hennar fljótt og börnunum, úr varð einstakur vinskapur og samgangur mikill. Stutt var að milli heimila okkar, aðeins Fossvogslækurinn á milli, þau í Kópavogi og við í Fossvogi, var oft rölt á milli. Siddý var góður kokkur og óhrædd að prófa nýja hluti, voru matarboðin mörg og alltaf gaman að koma í Birkigrundina. Ferðirnar voru margar sem við fórum í og oft í stórum hópi vina, skíði í Kerlingarfjöllum fyrstu helgi í júlí í mörg ár, skíðaferðirnar til Akureyrar í mörg ár, þá erum við búin að fara á Vínartónleika í yfir þrjátíu ár held ég og hefur Birgir haldið utan um þann viðburð. Ógleymanleg er ferð Vínarvina til Búdapest 2018. Sumarbústaðaferðirnar voru líka allmargar. Síðasta ferð okkar var golfferð til Orlando en loks tókst Siddý að draga okkur með þangað en það var korter í Covid, ferð sem við geymum og varðveitum í minningunni. Siddý hafði mjög gaman af að spila golf og var ótrúlegt hvað hún náði góðum árangri þrátt fyrir sína gigt.

Börnin okkar minnast margra góðra stunda með fjölskyldunni og þakka fyrir þær, við Bjarni þökkum Siddý fyrir áralanga vináttu, sorglegt að árin hafi ekki verið fleiri. Elsku Birgir og fjölskylda, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum almættið að leiða ykkur.

Steingerður.

Elsku Siddý. Þú fórst allt of fljótt frá okkur, en þegar krabbamein tekur völdin þá ráðum við engu. Við höfum átt margar góðar stundir í sumarbústaðnum síðustu 20 árin en næstu ár verða ekki eins án þín.

Þegar Gotti og Mæja buðu upp á hvílaukssnigla um daginn í sumó fórum við að rifja upp kvöldið þegar þú og Haddi fenguð ykkur hvítlaukssnigla á Gulna hananum fyrir ca. 40 árum. Eftir matinn fórum við á Brodway í Breiðholti og ætluðum við að fá okkur drykk á barnum. Það var biðröð þegar við komum en hann tæmdist strax, þannig að við þurftum ekkert að bíða. Barþjónninn sem reyndar var vinur okkur bað okkur vinsamlegast að færa okkar þar sem við lyktuðum svo mikið af hvítlauk að enginn gat verið nálægt okkur. Áður en við yfirgáfum barinn gaf hann okkur sítrónu og steinselju til þess að slá á hvítlaukslyktina en það má segja að við vorum ekki húsum hæf þetta kvöld.

Það sem stendur upp úr síðustu árin var ferðin okkar til Chile í Suður-Ameríku. Ógleymanleg ferð þar sem við áttum mjög góðar stundir saman með Grími og Binnu rétt fyrir Covid. Þar eyddum við saman 3 vikum og ég held að við getum fullyrt að við höfum aldrei gert eins mikið eins og við gerðum þessar vikur. Við byrjuðum á að skoða vínhéruð norðarlega í Chile sem voru í ótrúlega fallegu umhverfi, síðan var farið með flugi til Buenos Aires í Argentínu þar sem við borðuðum góðan mat og drukkum góð vín og skoðuðum þessa fallegu borg. Við skoðuðum mjög skemmtilega skíðabæi í Argentínu og Chile og enduðum svo sunnarlega í Chile hjá Grími og Binnu.

Sumó er búinn að vera okkar staður og þar fannst þér best að vera eins og okkur. Við vitum að þú verður með okkur í öllu því sem við erum að gera og framkvæma og passar upp á að golfflötin þín verði nú vel slegin.

Birgir, Gotti, Árni, Sissa og fjölskylda. Við sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Marta og Hafsteinn.