Vinátta Grétar Gústavsson og Karl Friðriksson með Massey Ferguson 35X traktor af árgerð 1963. Sami traktor og í sveit þeirra á Valdarási í Fitjardal.
Vinátta Grétar Gústavsson og Karl Friðriksson með Massey Ferguson 35X traktor af árgerð 1963. Sami traktor og í sveit þeirra á Valdarási í Fitjardal. — Ljósmynd
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.is Þeir Grétar Gústavsson, meistari í bifvélavirkjun, og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri Framtíðarseturs Íslands, luku við að aka hringinn í kringum Vestfirði á tveimur dráttarvélum í gær.

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Þeir Grétar Gústavsson, meistari í bifvélavirkjun, og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri Framtíðarseturs Íslands, luku við að aka hringinn í kringum Vestfirði á tveimur dráttarvélum í gær. Að þeirra sögn lauk akstrinum með pompi og prakt eftir vikulangan akstur, ríflega 950 kílómetra leið, þegar þeir komu til Hvanneyrar í gær.

Þeir tóku hringinn í kringum Ísland á sömu traktorum árið 2015, að Vestfjörðum undanskildum, til styrktar forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti undir nafninu Vinátta. Í sumar ákváðu þeir að klára hringinn um Ísland og taka Vestfjarðarhringinn. Aftur var farið til styrktar Barnaheillum.

Þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til vinanna í gær voru þeir að hvíla sig á akstrinum í blíðviðri í Búðardal. Að þeirra sögn gekk aksturinn vel fyrir utan eitt sprungið dekk. „Það sprakk á einu framdekkinu en fyrir utan það hafa vélarnar gengið alveg eins og í sögu,“ segir Gústav.

Að þeirra mati var ferðin einkar ánægjuleg og var þeim vel tekið hvert sem þeir fóru. „Okkur hefur verið tekið einstaklega vel alls staðar og varla getað borgað fyrir kaffi eða vöfflur eða nokkurn skapaðan hlut, gestrisnin hefur verið þvílík.“

Aðspurðir segja þeir að vegfarendur hafi tekið þeim vel og veifað mikið og að þeir hafi ekki fundið fyrir neinum pirringi frá öðrum í umferðinni í garð þeirra. Segjast þeir aldrei hafa verði betri vinir en eftir þessa vikulöngu ferð, en þeir hafa verið vinir í um sextíu ár. Hægt er að styrkja framtakið á vefsíðu Barnaheilla eða með því að senda SMS-skilaboðin Barnaheill í síma 1900.