Sjáumst síðar Túlka má kveðju Borisar Johnsons svo að hann hafi ekki endilega sagt sitt síðasta orð.
Sjáumst síðar Túlka má kveðju Borisar Johnsons svo að hann hafi ekki endilega sagt sitt síðasta orð. — AFP/PRU
Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, gerði ein af þekktari ummælum kvikmyndasögunnar að sínum, þegar hann kastaði kveðju á breskt þing og þjóð í gær að loknum umdeildum ferli og á köflum skrautlegum.

Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, gerði ein af þekktari ummælum kvikmyndasögunnar að sínum, þegar hann kastaði kveðju á breskt þing og þjóð í gær að loknum umdeildum ferli og á köflum skrautlegum.

„Hasta la vista, baby,“ sagði forsætisráðherra einfaldlega og hafði þar uppi línu sem margir minnast úr helsta sumarsmelli íslenskra kvikmyndahúsa árið 1991, kveðjuorð Arnolds Schwarzeneggers, í hlutverki framtíðarvélmennisins T-800, í garð álmennisins T-1000 sem leikarinn Robert Patrick túlkaði eftirminnilega.

Tókst svona að mestu

Kveðjuorðum Johnsons, sem á íslensku útleggjast sjáumst síðar, fylgdu þau ummæli að hann hefði – að sinni – náð markmiði sínu að mestu í embætti, „Mission largely accomplished – for now“, eins og hann orðaði það.

„Við höfum hjálpað til, ég hef hjálpað til, við komum þessu landi gegnum heimsfaraldur og vörðum aðrar þjóðir fyrir villimönnum. Satt að segja má vel lifa við það. Markmiðin náðust að mestu,“ sagði Johnson meðal annars í kveðjuræðu sinni í gær.

„Hann hefur ákveðið að yfirgefa gullhúðað byrgi sitt hið síðasta sinn til að tjá okkur að allt sé í þessu fína. Mikið á ég eftir að sakna þessara ranghugmynda,“ sagði stjórnarandstöðuleiðtoginn Keir Starmer í gær og dró ráðherrann fráfarandi sundur og saman í logandi háðinu.

Lét Johnson sér hins vegar fátt um finnast og svaraði því til að ummæli stjórnarandstöðuleiðtogans væru „hrein satíra“.