Þorbergur Guðmundsson fæddist í Reykjavík 27. september 1940. Hann lést á líknardeild Landspítalans 9. júlí 2022.
Foreldrar hans voru Guðmundur Árni Jónsson frá Sogni í Kjós, f. 30.9. 1907, d. 19.3. 1989, og Anna Andrésdóttir frá Neðra-Hálsi í Kjós, f. 21.12. 1919, d. 8.4. 2009.
Bræður Þorbergs voru Gunnar, f. 22.10. 1944, d. 3.3. 2002, Magnús, f. 17.3. 1946, d. 9.10. 2021, og Jón Árni, f. 20.12. 1951, d. 9.9. 1999.
Eftirlifandi eiginkona Þorbergs er Ester Albertsdóttir, f. 29. apríl 1945. Börn þeirra eru: Anna Lísa, f. 12.11. 1963, Jóhanna, f. 12.10. 1966, og Albert, f. 19.1. 1974. Afabörnin eru tíu og langafabörnin tvö.
Þorbergur starfaði lengst af við sölu bifreiða, fyrst hjá Kr. Kristjánssyni hf., síðan hjá Sveini Egilssyni hf. og var svo einn stofnenda Suzuki bíla hf. árið 1989.
Útför Þorbergs fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 22. júlí 2022, klukkan 13.
Fyrstu kynni mín af Þorbergi Guðmundssyni voru þegar hann kom til starfa hjá Ford-umboðinu Sveini Egilssyni hf. árið 1975. Þar áður hafði hann starfað hjá Ford-umboðinu Kr. Kristjánsson hf. frá árinu 1964 sem sölumaður nýrra bíla. Þorbergur sameinaðist fljótt og vel samhentum hópi starfsmanna Sveins Egilssonar og tókst með okkur góður vinskapur sem aldrei bar skugga á.
Árið 1989 kom upp sú staða að undirrituðum bauðst að kaupa Suzuki-umboðið af Sveini Egilssyni hf. sem þá var í endurskipulagningu. Lá þá beinast við að fá Þorberg til samstarfs um kaupin þar sem hann hafði víðtæka reynslu af bílaviðskiptum og átti marga trausta viðskiptavini. Sú ákvörðun varð heilladrjúg því betri samstarfsfélaga var vart hægt að finna og hélt það samstarf allt til starfsloka Þorbergs fyrir tveimur árum. Það var einstaklega gott að hafa hann í stjórn. Hann var einstakt ljúfmenni og átti auðvelt með öll mannleg samskipti sem kemur sér vel í viðskiptum auk þess að hafa víðtæka reynslu af bílgreininni. Við starfslok Þorbergs var hann líklega með einn lengsta samfelldan starfsaldur í greininni, allt frá 1964.
Þorbergur var vinamargur og átti sér líka stóran hóp viðskiptavina sem höfðu fylgt honum gegnum tíðina og leituðu ávallt til hans þegar endurnýja þurfti bíla, mörg þau viðskiptasambönd entust í tugi ára.
Þorbergur var vinsæll meðal samstarfsmanna og var ávallt hrókur alls fagnaðar þegar starfsfólkið kom saman til að skemmta sér. Hann var lengst af mjög heilsuhraustur og hafði reglusemi og gott skap eflaust mikið um það að segja. Við áttum ávallt ákaflega gott samstarf um stjórn fyrirtækisins og ávallt var hægt að leita í reynslubanka Þorbergs ef einhver vandamál komu upp.
Ég votta eiginkonu og fjölskyldu Þorbergs mína dýpstu samúð. Góður og traustur maður er genginn á vit feðra sinna.
Úlfar Hinriksson.
Tobbi eins og hann var oftast nefndur ólst upp á Nönnugötunni og á Hálsi í Kjós, fór í sveit frá unga aldri og fram yfir fermingu eins og var algengt um miðja síðustu öld. Líklega var það bíladella sem gerði útslagið, báðir áhugasamir um bílamenningu. Gerðum upp að mig minnir tvo eða þrjá gamla bíla og var aðstaðan til viðgerða að sjálfsögðu í hlöðunni á Hálsi, en Kjósin var aldrei langt undan í huga Tobba sem var tryggur sinni heimasveit alla ævi.
Ævistarfið tengdist bílum á einn eða annan hátt. Fyrsta alvöru vinnan var með Bóa frænda fyrir Varnarliðið í innkaupadeild hersins. Ófáar ferðir keyrði ég með honum eftir gamla Keflavíkurveginum sem var bæði holóttur og krappur.
Í framhaldinu fór Tobbi að vinna fyrir FORD og upp úr því stofnuðu þeir nokkrir félagar SUZKI umboðið sem var alla tíð farsælt bílaumboðsfyrirtæki.
Þorbergur var heppinn í makavali og samband hans og Esterar Albertsdóttur var til fyrirmyndar og farsælt mjög.
Mér er mikill söknuður að Tobba og með þessum fátæklegu línum vil ég senda samúðarkveðjur til Esterar, Önnu Lísu, Jóhönnu og Alberts Þorbergsbarna og fjölskyldna þeirra. „Far vel, gamle vend.“
Jón Hermannsson (Jónsi).