Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Tillaga að nýrri útfærslu friðlýsingarskilmála fyrir friðlandið í Gróttu var afhent bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar fyrir kosningar í vor. Samstarfsnefnd bæjarins, Umhverfisstofnunar og fleiri samdi tillöguna. Þar er m.a. lagt til að samstarfsnefnd verði falið að gera stjórnunar- og verndaráætlun. Ákveðið var að málið biði nýrrar bæjarstjórnar.
Kríuvarp á Seltjarnarnesi er í sárum eftir að minkar rústuðu því, eins og greint var frá í gær. Ekki sáust kríur í Gróttu í vor, sem var mjög óvenjulegt. Meindýraeyðir, sem er með minkagildrur í eynni, segir að hann megi ekki fara þangað að vitja um minkagildrur á varptíma fugla vegna friðunar.
Þarf ekki að vera svigrúm svo meindýraeyðir komist í Gróttu á varptíma til að eyða meindýrum?
„Jú, þessir skilmálar eru barn síns tíma,“ segir Hannes Tryggvi Hafstein, varaformaður umhverfisnefndar Seltjarnarness og fyrrverandi formaður. Hann segir að þótt ekki hafi sést kríuvarp í Gróttu í vor, hafi þar verið mörg hreiður annarra fugla. Í fyrra urpu þar nokkrir tugir kríupara. Eins hafi varla sést kría árið 2011 en þá var ætisskortur.
Hannes telur að verði tillagan sem liggur fyrir bæjarstjórn samþykkt verði létt á skilmálum og sveigjanleiki aukist, t.d. hvað varðar eftirlit með minkagildrum. Eins verði leyft að hlúa betur að varpinu.
„Skilmálarnir eru þannig að við megum ekki fara út í eyju á friðunartímanum, en við getum sótt um undanþágu,“ segir Hannes. Hann segir að t.d. hafi fengist undanþága í vor til að fara í Gróttu til að telja hreiður.
Stefán Bergmann, líffræðingur og fulltrúi í umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar til margra ára, segir að ýmislegt hafi verið rætt í áranna rás til að styrkja varnir gegn minki á Seltjarnarnesi.
„Það er ekki nóg að umhverfisnefnd samþykki eitthvað, aðrir þurfa að fylgja því eftir,“ segir Stefán. Hann nefnir að reynt hafi verið að fjölga minkagildrum og tryggja eftirlit með þeim.
En þarf að gera breytingar á friðlýsingunni eða framkvæmd hennar?
„Ég er hlynntur nákvæmari stjórnun á þessu eftirliti,“ segir Stefán. Hann segir að grunnurinn að friðlýsingarreglum Gróttu sé frá 1974 og var þeim breytt lítillega 1984. Í tillögunni er lagt til að breyta friðlýsingunni og stækka svæðið sem hún nær til. „Stjórnunarfyrirkomulagið og eftirlitið með svæðinu verður miklu skilvirkara með þessari breytingu, að mínu mati. Inni í þessu er stofnun samstarfsnefndar sem getur tekið ákvarðanir um þróun eftirlits og slíkt ef á þarf að halda,“ segir Stefán.
Hann segir að ýmislegt hafi gengið á í kríuvarpinu á Nesinu í gegnum tíðina. Krían hafi fært sig á milli varpsvæða, stundum hafi verið fæðuskortur og minkur komist í varpið öðru hverju. „En það hefur aldrei áður verið með jafn miklum áhrifum og nú, ef það er ekkert annað en minkurinn sem er á bak við þetta hrun. Þarna hefur gerst eitthvað sem eftir er að fara betur yfir og læra af,“ segir Stefán.