Erla Sigurjónsdóttir fæddist 10. maí 1929. Hún lést 1. júlí 2022. Útför Erlu fór fram 20. júlí 2022.

Elsku Erla tengdamóðir mín hefur kvatt farsælt og hamingjuríkt jarðlíf á tíræðisaldri.

Kynni mín af Erlu hófust þegar mér var boðið í Smiðshús í fyrsta skipti eftir að við Valdís byrjuðum að vera saman. Tilefnið var ekki lítið en 6. september 1992 áttu Erla og Maffi 40 ára brúðkaupsafmæli. Það var ekki laust við að ég kviði aðeins fyrir, því þarna var ég líka að fara að hitta alla Smiðshúsamafíuna, eins og fjölskyldan kallar sig, í fyrsta skipti. Áhyggjur mínar voru að sjálfsögðu óþarfar og fannst mér ég strax velkominn í fjölskylduna. Líkingin við mafíu átti vel við en samt með öfugum formerkjum, samheldnari fjölskyldu hafði ég aldrei kynnst og fann ég fljótlega hversu kærleiksríka virðingu systkinin báru fyrir foreldrum sínum. Erla var enda mikil fjölskyldumanneskja og það var í ófá skipti, sérstaklega í seinni tíð, sem hún talaði um að börnin og afkomendur þeirra væru hennar mesta gæfa í lífinu. Það lýsir einnig vel hversu fjölskyldutengslin voru henni og þeim mikilvæg að móðir hennar, amma Solla, bjó hjá þeim í Smiðshúsi þar til hún lést. Ósjaldan hefur fjölskyldan talað um hversu gott var að hafa hana á heimilinu.

Það má segja að Erla hafi verið einbirni lengst af en þegar hún var tvítug dundi sú ógæfa yfir að fjögurra ára bróðir hennar lést af slysförum. Þennan harm bar Erla að mestu í hljóði en umhverfið sem hún var alin upp í hefur örugglega hjálpað henni að komast yfir og sætta sig við orðinn hlut. Hún átti góða foreldra en Sigurjón faðir hennar var guðspekilega sinnaður og mikill náttúruunnandi. Þetta allt hefur án efa mótað hana og gert hana að þeirri einstöku manneskju sem hún var. Erla var afar yfirveguð og tók öllu með jafnaðargeði, sérstaklega ef einhvers konar erfiðleikar steðjuðu að í fjölskyldunni. Hún fylgdist vel með lífi allra sinna og samgladdist innilega þegar vel gekk og var mikið í mun að allir hefðu það sem best. Æðruleysi einkenndi Erlu fyrst og fremst og hvort sem rætt var um erfiða eða ánægjulega hluti lauk hún oft samræðunum með orðunum, að þetta væri nú æsandi líf. Hún var gáfuð og djúphyggin, mjög hógvær og aldrei sagði hún styggðaryrði um nokkra manneskju. Hún tranaði sér ekki fram en þegar hún tók til máls sagði hún oft eitthvað ígrundað, sem lýsti víðsýni hennar og heimspekilegum hugsunarhætti. Erla var einnig mjög jákvæð og hörð af sér og kvartaði aldrei, sama á hverju gekk. Það var aðdáunarvert hvernig hún og Maffi fóru um og sóttu ýmsa viðburði allt fram undir það síðasta, þrátt fyrir hreyfihömlun hennar á efri árum. Erla lifði fyrir hvern dag í faðmi fjölskyldunnar og hafði ekki áhyggjur af endalokunum enda trúði hún á æðri máttarvöld og að örlögin væru ekki í hennar hendi.

Elsku Maffa, börnum og öðrum afkomendum votta ég mína dýpstu samúð.

Hvíl í friði, góða Erla.

Lárus Jónasson.

Elsku amma mín.

Ég er svo þakklát fyrir hversu hlýlegan og stóran faðm ég hafði alltaf að sækja til þín. Ég á svo sterkar minningar frá barnæsku um að fá að gista hjá þér og afa, japlandi á eplum og bönunum á meðan þú last allar bækur Guðrúnar Helgadóttur fyrir mig, spjaldanna á milli. Aldrei skildi ég almennilega af hverju þú flissaðir svo mikið yfir Jóni Oddi og Jóni Bjarna, en mér þótti svo vænt um að lesa með þér bækur.

Eftir að við mamma fluttum í litla Smiðshús árið 1992, þá kom ég alltaf til þín og heilsaði upp á þig eftir skóla og fékk gjarnan sviðasultu, lifrarpylsu eða blóðmör. Næst spiluðum við saman kapal í þögn og svo hélt ég yfir í litla hús að sinna heimanáminu. Þetta var ómissandi partur af dagsskipulagi okkar beggja.

Þessa undurfögru þögn sem við nutum okkur alltaf svo vel að sitja í gat ég aldrei almennilega útskýrt eða skilið sjálf, þar til fyrir stuttu þegar mér var sagt að þögn væri tungumál Guðs.

Ég á fallega minningu að hafa farið með þér og Þóru frænku til Egilsstaða. Ætli ég hafi ekki verið um sex ára og hafði tekið upp stóra rófu og blómkál úr sumargörðunum. Þið Þóra blöðruðuð saman alla leiðina til Egilsstaða en höfðuð mikið orð á því hvað þið væruð spenntar að smakka grænmetið. Við vorum í heila viku í sumarbústað og mér tókst að týnast þar tvisvar, ykkur til mikillar gleði. Á engum tímapunkti var ég þó skömmuð fyrir það, heldur hlóguð þið og tókuð utan um mig. Enda hefurðu alltaf haft þessa stóísku ró og ekkert verið að æsa þig að óþörfu. Eftir svona hasar fékk maður oft að heyra að „þetta er svo æsandi líf!“ og ég heyri þessa setningu óma æ oftar í kollinum á mér eftir því sem ég fullorðnast.

Þið afi hafið alltaf verið minn stærsti jarðbundni klettur í minni tilveru, í fallega Smiðshúsi. Þrátt fyrir að hafa ferðast heiminn fram og til baka og lífið verið allskonar, þá segi ég enn „heim í Smiðshús“.

Við Arnar erum ykkur ævinlega þakklát fyrir að hafa leyft okkur að gifta okkur í fallega garðinum ykkar í Smiðshúsi.

Ég er svo þakklát að hafa fengið að eiga þig sem ömmu mína og með stolti ber ég nafn þitt. Ég vona að ég geti orðið hálfur leiðtogi á við þig.

Hvíl í friði, elsku amma mín, þín minning lifir í mínu hjarta.

Erla Gunnhildardóttir.

Amma Erla lést 1. júlí síðastliðinn, 93 ára. Hún fór mjög hratt og það var sárt að ná ekki að kveðja hana. En hún hafði átt langa og góða ævi og hennar tími var greinilega kominn.

Amma var ein af mínum helstu fyrirmyndum og hvatti mig áfram í öllu sem ég gerði. Hún og afi Manfreð skutluðu mér til dæmis oft í sellótíma til Reykjavikur eða í danstíma. Mættu á flesta tónleika og danssýningar og fyrir það er ég ótrúlega þakklát.

Amma hafði svo fallega sýn á lífið og var alltaf jákvæð og glöð.

Hennar einkunnarorð voru „er þetta ekki æsandi líf“ og „lífið er fagurt“. Ég ætla svo sannarlega að lifa eftir þessum orðum.

Amma elskaði fjörugar samverustundir með Smiðshúsafjölskyldu sinni sem er orðin ansi fjölmenn og stækkar enn. Það verður skrítið að sjá hana ekki sitja í stólnum sínum við matarborðið að fá sér kaffi eða í eldhúsinu að gera góðan mat.

Amma, ég sakna þín strax en ég veit að þú ert í góðum höndum hjá Erni bróður þínum og Þóru frænku. Við pössum upp á afa Manfreð.

Sólveig Vilhjálmsdóttir.

Elsku dýrmæta og fallega amma mín.

Söknuðurinn er mikill og sár. Minningarnar eru margar og ógleymanlegar.

Þú varst engum lík, gjörsamlega einstök. Þú umvafðir okkur ást og umhyggju. Þú hafðir áhuga á öllu sem okkur snerti, lést þig allt varða og hlustaðir. Þú geislaðir af þakklæti og fegurð. Þú varst nægjusöm og bjóst yfir guðdómlegri ró. Þú naust líðandi stundar og lifðir lífinu til fulls. Þú fagnaðir öllum litum lífsins og kenndir okkur að gera slíkt hið sama. Þú sýndir okkur að lífið er ekki alltaf auðvelt en það er æsandi og fagurt. Þetta einkenndi þig því þú fannst tilgang lífsins.

Þú varst okkar dýrmæti fjársjóður. Þú hjálpaðir okkur að sjá ljósið í lífinu og þann dýrðarljóma sem lífið býr yfir.

Takk fyrir allt sem þú gafst mér, elsku amma. Takk fyrir að vera mér einstök vinkona. Ég elska þig að eilífu og mun alltaf sakna þín.

Þín

Halldóra Sólveig.

Á afmælisdegi móður sinnar kvaddi hún þetta líf, elsku yndislega Erla frænka mín. Margs er að minnast á langri ævi, en hugurinn reikar þó fljótlega til bernskuáranna og allra góðu minninganna frá Grettisgötunni, úr Stórholtinu og Kópavoginum.

Mamma og Solla móðursystir voru alla tíð mjög samrýndar enda rúmt ár á milli þeirra og samgangur mikill milli heimilanna. Þórunn og Þóra, systur mínar, og Erla frænka voru að eigin áliti heilli kynslóð eldri en við, rollingarnir, þ.e. Hrannar bróðir, ég og Örn, litli bróðir Erlu, en örlögin ollu því að hann lenti í bílslysi og dó tæplega fjögurra ára gamall. Sorgin var nístandi og sakna ég hans enn, þegar mér verður litið á ljósmyndina þar sem ég stend milli drengjanna, held í hendur þeirra og við brosum við Erlu frænku sem tók myndina, eina af mörgum. Ári seinna kom svo lítill ljósgeisli inn í líf fjölskyldunnar í Kópavoginum, þegar Þóra systir bjó um tíma hjá þeim með Eddu dóttur sína, þá nýfædda. Það var svo sannarlega öllum kærkomið.

Erla var okkur Hrannari einstaklega góð og man ég eitt sinn sem oftar, að hún tók okkur systkinin með sér að sjá m.a. Snædrottninguna og aftur að sjá Stóra Kláus og Litla Kláus, sem voru með fyrstu barnaleikritum sem hið nýstofnaða Þjóðleikhús setti á fjalirnar. Þetta er okkur alveg ógleymanlegt, við vorum ekki vön að fara á svona flotta viðburði.

Nú svo leið tíminn, Erla kynntist Manfreð, lífsförunaut sínum, og þau drifu sig fljótlega út til Gautaborgar, Maffi til náms í arkitektúr og þar fæddist frumburðurinn, Sólveig, dásamlega falleg með skjannahvítt hár. Þegar heim var komið aftur og Maffi orðinn útlærður arkitekt fæddist þeim hjónum drengur, skírður Vilhjálmur í höfuð á afa sínum.

Á þessum tíma heyrði ég haft eftir systur minni, Þórunni, nýfluttri til Bandaríkjanna, nýútskrifaðri sem viðskiptafræðingi og gift Bandaríkjamanni, að hún hefði sagt: „Ef Erla getur þetta þá hlýt ég að geta það líka“ og átti auðvitað við að geta eignast börn og alið þau sómasamlega upp. Eins og við öll vitum hefur þeim frænkum auðnast mikið barnalán, en án þess að setja í gang einhvern meting, þá er það staðreynd að Erla frænka hafði vinninginn.

Nú er elsku Erla okkar horfin á vit ástvina sinna, sem án efa taka henni opnum örmum, en eftir standa minningar um heilsteypta, karakterríka konu, sem skilaði hlutverki sínu í lífinu með glæsibrag.

Kæri Maffi, Sólveig, Vilhjálmur, Gunnhildur, Sigurjón, Valdís og fjölskyldur, við Grétar og fjölskylda vottum ykkur dýpstu samúð okkar.

Ingibjörg G. Haraldsdóttir.

Hún Erla Sigurjónsdóttir er látin. Hver af annarri góðra vinkvenna minna eru að falla frá.

Fyrir rúmlega 70 árum kynntumst við Erla í fyrsta bekk í Versló. Mér fannst hún vera bæði væn og skemmtileg. Hún hafði svo fallega útgeislun og í kringum hana skapaðist alltaf gott andrúmloft.

Svo skildi leiðir. Eftir annan bekk í Versló hætti ég þar námi, því ég var búin að fá svo gott skrifstofustarf í lakk- og málningarverksmiðjunni Hörpu, en Erla hélt náminu áfram. Árin liðu án þess að við værum í sambandi. Báðar vorum við orðnar giftar konur og mæður, svo gerist það að eiginmenn okkar (þeir Manfreð Vilhjálmsson arkitekt og Dieter Roth, hönnuður og myndlistarmaður) hittast hjá Guðmundi Kr. arkitekt og verða strax góðir félagar; Manfreð býður Dieter að taka að sér ýmis verkefni hjá sér. Við Dieter bjóðum Manfreð og Erlu í kvöldverð hjá okkur á Ásvallagötu 7 og þau bjóða okkur Dieter í kvöldverð til sín í sinn fallega bústað, Smiðshús á Álftanesi. Alltaf var Erla hin sama, ljúfa, glaðlega og skemmtilega Erla, sem ég kynntist á unglingsárunum í Versló.

Ég votta Manfreð og fjölskyldu innilega samúð mína.

Sigríður Björnsdóttir.

Kveðja frá Kvenfélagi Álftaness.

Í dag kveðjum við okkar kæru Erlu Sigurjónsdóttur sem lést 1. júlí sl. Erla flutti á Álftanesið 1962 og gekk í kvenfélagið fljótlega eftir það. Hún sagði sjálf að það hefði verið mikið gæfuspor fyrir hana en það var ekki síður gæfuspor fyrir félagið að fá þessa öflugu konu í sínar raðir.

Erla var formaður frá 1978-1983 auk þess sem hún átti sæti í fjölda nefnda á vegum félagsins. Í formannstíð Erlu voru fyrstu skref tekin í dagvistunarmálum í sveitarfélaginu þegar félagið setti á fót gæsluvöll við Bjarnastaði. Hann var starfræktur í tvö sumur, að stærstum hluta í sjálfboðavinnu. Auk þess var í hennar formannstíð lagður grunnur að Kirkjukaffi félagsins til styrktar Líknarsjóði Bessastaðahrepps, síðar Álftaness, og 17. júní kaffinu sem urðu fastir viðburðir í starfi félagsins.

Við þökkum Erlu fyrir öll hennar störf fyrir félagið, hún var kvenfélagskona af lífi og sál. Við vottum fjölskyldu hennar og aðstandendum samúð okkar.

Guðrún Brynjólfsdóttir, formaður Kvenfélags Álftaness.

Er ég hugsa til liðinna ára rifjast margt upp. Mér er þakklæti efst í huga þegar ég hugsa til elsku Erlu. Augun hennar sögðu allt, svo falleg og mikil gæska í þeim því Erla var sólargeisli.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast einstakri góðmennsku hennar, æðruleysi og þolinmæði. Rakel Ólafsdóttir elsta barnabarn Erlu og Manfreðs er æskuvinkona mín.

Ég svo heppin að þegar Rakel var úti á Álftarnesi hjá ömmu sinni og afa fékk ég oft að fljóta með og gisti því oft í Smiðshúsum.

Það var mikið ævintýri að vera hjá Erlu og Manfreð en hún var svo dugleg að finna útiverk fyrir okkur Skoppu og Skrítlu því auðvitað var það heilbrigðast og best fyrir okkur að vera úti en hún lét það hljóma svo spennandi að tína sprek eða arfa í trjábeðunum eða rifsber með langömmu Sollu.

Ég hafði mikla matarást á Erlu og eitt skipti er mér sérstaklega minnistætt. Við vinkonurnar komum moldugar inn og Erla segir „Almáttugur stelpur hvað þið hafið verið duglegar, þið eigið sko skilið veislu“. Og ég man enn þann dag í dag þessa frábæru veislu en Erla eldaði heimsins bestu purusteik og í forrétt var kræklingur.

Erla lét mér alltaf líða svo vel, mér leið eins og prinsessu hjá henni enda dekraði hún við okkur með sinni einstöku elsku.

Að fara með Erlu í verslun var meira að segja ævintýri, sérstaklega Ikea þar sem var svo margt að skoða og Erla skemmtilegasta amma í heimi sem spurði okkur álits, hvort okkur þætti ekki þetta eða hitt fallegt.

Maður sá heiminn í nýju ljósi með Erlu, þannig var hún bara, hún átti svo auðvelt með að gera hversdagshluti fallega og að einhverju spennandi og áhugaverðu.

Ég gekk upp á Esjuna og fór í Bláa Lónið í fyrsta sinn með Erlu, Manfreð og fjsk þá 11 ára gömul þetta var stórævintýri fyrir mig litlu sveitastelpuna frá Stykkishólmi og þessar minningar sem ég á úr Smiðshúsum munu alltaf verma hjartað mitt og fylla það af þakklæti.

Elsku Manfreð, börn, barnabörn og barnabarnabörn Ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Guðbjörg Þ. Jakobsdóttir Hansen.

Í nokkrum fátæklegum orðum vil ég minnast merkrar heiðurskonu, Erlu Sigurjónsdóttur, sem lést þann 1. júlí síðastliðinn. Á Álftanesi verður hennar lengi minnst fyrir mikilvæg forystustörf á sviði félags- og sveitarstjórnarmála en þar sat hún meðal annars í hreppsnefnd um árabil og var kjörinn oddviti Bessastaðahrepps árið 1982. Á sjöunda áratug liðinnar aldar var Erla um skeið kennari yngstu barna í Bjarnastaðaskóla. Þar lagði hún traustan grunn að færni okkar nemandanna í lestri, reikningi og skrift. Ekki aðeins á ég Erlu að þakka staðgóða leiðsögn í þessum undirstöðugreinum mannlegrar þekkingar. Hún varð líka fyrst til að opna augu mín fyrir töfrum byggingarlistar er hún eitt sinn bauð okkur nemendum heim í Smiðshús, heimili þeirra Manfreðs Vilhjálmssonar arkitekts. Sú heimsókn varð mér opinberun sem líður seint úr minni. Hrifning mín af töfrum þessa framúrstefnulega húss átti sinn þátt í því að ég ákvað snemma að leggja fyrir mig þessa heilandi grein, arkitektúr. Af öllum þeim lærimeisturum sem ég kynntist á langri skólagöngu hér á landi og erlendis er Erla Sigurjónsdóttir líklega sá kennari sem ég á mest að þakka. Framlag hennar er áminning um gildi þess að opna augu barna fyrir listum og menningu strax á unga aldri en þess má geta að Erla var einn af hvatamönnum að stofnun Tónlistarskóla Álftaness. Á kveðjustund minnist ég góðra samverustunda með þeim Erlu og Manfreð í Smiðshúsi. Efst í huga er þakklæti fyrir þá vinsemd og hlýhug sem þau heiðurshjón hafa alla tíð sýnt mér. Vini mínum Manfreð, börnum þeirra Erlu og afkomendum þeirra votta ég mína innilegustu samúð.

Pétur H. Ármannsson.