Jón Axelsson fæddist í Reykjavík 22. júlí 1972. Hann bjó á Laugarvatni til sex ára aldurs en hefur búið í Keflavík síðan og er að stórum hluta ættaður þaðan. Jón gekk í Verzlunarskóla Íslands og síðar í Samvinnuháskólann á Bifröst þaðan sem hann útskrifaðist með BS-gráðu í rekstrarfræði 1997. Eftir útskrift starfaði hann eitt ár hjá Bláa Lóninu en síðar í rúman áratug í Sparisjóðnum í Keflavík. Jón hefur frá árinu 2009 starfað með fjölskyldu sinni í Skólamat ehf. og er þar framkvæmdastjóri. Axel Jónsson, veitingamaður og faðir Jóns, stofnaði fyrirtækið fyrir rúmum tuttugu árum og hefur það vaxið jafnt og þétt síðan og hefur starfsemin m.a. tvöfaldast frá árinu 2017. Skólamatur er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki sem þjónustar leik- og grunnskóla með veitingar. Í flestum leikskólum er boðið er upp á morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu og með öllum máltíðum er boðið upp á ferskt grænmeti og úrval ávaxta í meðlætisbar. Í grunnskólum er sums staðar hafragrautur í boði en annars staðar eingöngu hádegismatur og enn annars staðar er síðdegisnesti fyrir frístundaskóla en það er mismunandi hvernig samningum er háttað á milli skóla.
Á hverjum degi er einn aðalréttur í boði ásamt vegan-hliðarrétti fyrir grænkera og aðra sem kjósa að gæða sér á honum og er það í samræmi við aukna fjölbreytni í mataræði nemenda undanfarin ár með tilkomu ólíkra menningarhópa, lífsstílsskoðana og fleira.
„Þess vegna erum við með þessa tvo rétti. Veganrétturinn leysir ýmislegt en við erum líka með sérfæði fyrir nemendur af ólíkum trúar- og lífsstílsskoðunum, nemendur með ofnæmi, óþol og þess háttar.“
Velta Skólamatar var tæplega 1,4 milljarðar árið 2020 en tekjuaukningu síðustu misseri rekur Jón til afleysinga, tímabundinnar þjónustu til aðila sem þurfa að manna eldhús tímabundið, annaðhvort vegna veikinda eða forfalla starfsfólks, eða vandamála með eldhús eða húsnæði. Eins og hjá flestum þjónustufyrirtækjum setti Covid-faraldurinn ákveðið strik í reikninginn og er Skólamatur í því að búa sig undir breytingar.
„Síðasta vetur voru talsverð veikindi meðal starfsfólks en starfsemin í grunnskólum var að mestu leyti komin í eðlilegt form. Fram undan er óvissa með hvernig skólastarfi verður háttað og erum við að búa okkur undir það. Við verðum að vera undirbúin með aukabúnað til þess að geta breytt afgreiðslu, bætt við afgreiðsluborðum og þess háttar til að geta haft fleiri starfsstöðvar innan hvers skóla ef ske kynni að þurfi að hólfa niður.“
Starfsemi fyrirtækisins er á suðvesturhorninu, Suðurnesjum, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og í Reykjavík og hófust nýverið framkvæmdir á nýju húsnæði Skólamatar í Reykjanesbæ.
Jón er kominn af miklu matreiðslu- og veitingafólki en hefur ekki verið mikið í eldamennskunni sjálfur. „Ég er nefnilega ekki með kokkagenin í mér þó svo að það séu margir matreiðslumenn, bakarar og veitingamenn í minni ætt. Afi minn var með matvöruverslun og langafi minn föðurmegin var bakari í Hafnarfirði. Svo er Jón Örn Stefánsson, frændi minn, með Kjötkompaní en ég og systir mín sem rekum fyrirtækið erum ekki miklir kokkar sjálf en erum frekar þjónustumiðuð í staðinn.“
Jón hefur lengi verið virkur í félagsstörfum og verið félagi í frímúrarareglunni frá 2012 og var þar að auki í Rótarýklúbbi Keflavíkur frá 2001 til 2013 og situr í stjórn Krabbameinsfélags Suðurnesja. Jón er staddur í Hollandi um þessar mundir þar sem hann mun fagna afmælisdeginum með vinahóp frá Íslandi.
Fjölskylda
Eiginkona Jóns er Júlía Jónsdóttir, f. 26.4. 1979, sölumaður. Þau eru búsett í Keflavík. Foreldrar Júlíu eru Jón Ágúst Pálmason, f. 21.12. 1954, grafískur hönnuður og Hildur Nanna Jónsdóttir, 17.3. 1961, húsmóðir og bókari. Þau skildu. Sambýlismaður Hildar Nönnu er Sigtryggur Leví Kristófersson þyrluflugmaður. Börn Jóns og Júlíu eru: 1) Ívar Snorri Jónsson, f. 2005. 2) Jón Ágúst Jónsson, f. 2007. 3) Hildur Nanna Jónsdóttir, f. 2013.Sonur Jóns úr fyrra sambandi er Axel Jónsson, f. 1997. Júlía átti fyrir soninn Davíð Þór Elvarsson, f. 1997. Dóttir Davíðs er Kolbrún Júlía Davíðsdóttir, f. 2017. Móðir hennar er Helga Sóley Halldórsdóttir, f. 1997. Systir Jóns er Fanný Sigríður Axelsdóttir, f. 7.12. 1978, mannauðs- og samskiptastjóri Skólamatar ehf.
Foreldrar Jóns eru hjónin Axel Jónsson, f. 5.3. 1950, veitingamaður, og Þórunn María Halldórsdóttir, f. 24.9. 1950, húsmóðir. Þau eru búsett í Keflavík.