Tákn borgarinnar Spoonbridge and Cherry eftir hjónin Claes Oldenburg og Coosje van Bruggen er kunnasta verkið í skúlptúragarði Minneapolis.
Tákn borgarinnar Spoonbridge and Cherry eftir hjónin Claes Oldenburg og Coosje van Bruggen er kunnasta verkið í skúlptúragarði Minneapolis. — Morgunblaðið/Einar Falur
Popplistamaðurinn Claes Oldenburg, sem þekktastur er fyrir litríka stóra útiskúlptúra sína af hversdagslegum hlutum, er látinn 93 ára að aldri.

Popplistamaðurinn Claes Oldenburg, sem þekktastur er fyrir litríka stóra útiskúlptúra sína af hversdagslegum hlutum, er látinn 93 ára að aldri. Í frétt The Guardian er haft eftir Maartje Oldenburg, dóttur hans, að hann hafi verið heilsuveill síðan hann datt fyrir um mánuði og mjaðmarbrotnaði.

Oldenburg fæddist í Stokkhólmi 1929, en eyddi stórum hluta bernsku sinnar í Chicago þar sem faðir hans starfaði hjá sænska sendiráðinu. Oldenburg nam við Yale og Art Institute of Chicago. Um miðja síðustu öld settist hann síðan að í New York og fékk bandarískan ríkisborgararétt.

Oldenburg vann í um þrjá áratugi með Coosje van Bruggen, seinni konu sinni, þar til hún lést í upphafi árs 2009. Á þeim árum sköpuðu þau hjónin yfir fjörutíu opinbera skúlptúra fyrir garða og listasöfn. Yfirleitt sýna þessi verk hversdagslega hluti, sem öðlast aðra merkingu þegar þeir eru stækkaðir gríðarlega.