Feðgin Agnes og Jens Albert Pétursson, faðir hennar. Hann er frá Færeyjum en hefur búið á Íslandi frá 1945.
Feðgin Agnes og Jens Albert Pétursson, faðir hennar. Hann er frá Færeyjum en hefur búið á Íslandi frá 1945. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Heilsan er góð, en fylgir aldri. Fyrir nokkrum dögum fékk ég ökuskírteinið endurnýjað og er ánægður með að geta áfram komist leiðar minnar.

„Heilsan er góð, en fylgir aldri. Fyrir nokkrum dögum fékk ég ökuskírteinið endurnýjað og er ánægður með að geta áfram komist leiðar minnar. Fer þó sjaldnast langt og aldrei nema við góðar aðstæður,“ segir Jens Albert Pétursson, sem verður 100 ára í dag.

Jens Albert er frá Suðurey í Færeyjum en hefur búið á Íslandi frá árinu 1945. Var lengi sjómaður, varð seinna starfsmaður í prentsmiðju og síðustu starfsárin var hann næturvörður á heimili Áss – styrktarfélags. „Ég hef átt gott líf og er sáttur. Mér fannst mikilvægt að hafa í nægu að snúast. Þá gaf mér mikið að sinna ýmsum samfélagsverkefnum, svo sem kristilegu starfi og félagsmálum Færeyinga á Íslandi,“ segir Jens Albert sem var kvæntur Maríu Pétursdóttur sem einnig var frá Færeyjum. Hún lést árið 2007 en þau Jens höfðu þá verið gift í 56 ár. Þau hjónin eignuðust fjögur börn; dótturina Agnesi og þrjá syni, Oddgeir, Hjalta Sævar og Pétur, sem allir búa í Færeyjum.

„Ég á góðan pabba,“ segir Agnes sem undirbýr afmæli föður síns. Ættmennum og góðum vinum Jens Alberts hefur í dag verið hóað saman í Færeyska sjómannaheimilinu við Skipholt í Reykjavík – en bygging þess var eitt þeirra félagslegu verkefna sem Jens Albert hefur sinnt á langri ævi.

Langlífi er í ættboga Jens, og má þar nefna að Andrea móðir hans varð 101 árs. Þá verður systir hans, Myrthley Helen, 98 ára síðar í sumar, en þau systkinin búa í samliggjandi íbúðum í fjölbýlishúsi eldra fólks við Vitatorg í Reykjavík. Alls voru þessi systkini níu talsins. sbs@mbl.is