Afsögn Gamli seðlabankastjórinn lætur af embætti forsætisráðherra.
Afsögn Gamli seðlabankastjórinn lætur af embætti forsætisráðherra. — AFP/Andreas Solaro
Ítalski forsætisráðherrann Mario Draghi fer nú sömu leið og breskur starfsbróðir hans, Boris Johnson, og segir af sér eftir róstusama viku í ítölskum stjórnmálum.

Ítalski forsætisráðherrann Mario Draghi fer nú sömu leið og breskur starfsbróðir hans, Boris Johnson, og segir af sér eftir róstusama viku í ítölskum stjórnmálum.

Tjáði Draghi forseta landsins, Sergio Mattarella, að hann tæki pokann sinn eftir að þrír flokkar samsteypustjórnarinnar, sem hann hefur leitt síðan í febrúar í fyrra, neituðu að veita honum stuðning sinn.

Draghi hefur þó notið mikilla vinsælda meðal landa sinna og var veitt viðurnefnið Super Mario eftir einni nafntoguðustu tölvuleikjapersónu 20. aldarinnar þegar hann tókst á við efnahagshremmingar á evrusvæðinu sem seðlabankastjóri Evrópu en þeirri stöðu gegndi Draghi árin 2011 til 2019.

Seðlabankafólk líka með hjarta

Þrátt fyrir feril sinn á vettvangi peningamála hlaut björgunaráætlun Draghis, sem er hagfræðingur að mennt, til handa ítölskum efnahag, ekki hljómgrunn hjá ríkisstjórn hans. Mattarella forseti bað ráðherrann að sitja áfram og í fyrradag lýsti Draghi því yfir í þinginu að svo gæti hann vel gert hlyti stjórn hans „nýjan traustsáttmála“.

Nú þykir hins vegar sýnt að viðsjár risti of djúpt til að svo megi verða og greindi Super Mario því frá endanlegri ákvörðun sinni í gærmorgun. „Jafnvel hjörtu seðlabankafólks eru snertanleg. Ég þakka ykkur innilega fyrir starfið á stjórnartímabilinu,“ sagði ráðherra að skilnaði. Hlutabréfamarkaðir í Mílanó tóku veglega dýfu í gær og fyrradag í tilefni brotthvarfs hans úr embætti.