Það á ekki af Biden, forseta Bandaríkjanna, að ganga. Seinast hjólaði hann í átt til aðdáenda sinna, sem höfðu stillt sér upp til að sýna honum virðingu og stuðning. Þá fór ekki betur en svo, að forsetinn og farkosturinn féllu flatir á stéttina, án þess að lífverðir í tugatali næðu að grípa hann. Það minnti á dapurlegu myndina, þar sem forsetinn fór upp myndarlegan landgang í forsetavélina og datt þrívegis á leiðinni upp, einkar álappalega. Lífverðirnir horfðu magnlausir á, neðan stigans, enda eiga þeir að verjast vopnuðum morðingjum en ekki reiðhjólum eða landgöngustigum. Augljóst var að þetta atvik, þar sem forsetinn hljóp einn upp landganginn, átti að ýta undir það mat að Biden væri brattari en óþægilegt umtal gæfi til kynna.
Nú er reyndar svo komið að þeim fjölmiðlum vestra, sem staðið hafa með forsetum demókrata, svo helst minnir á TASS að brölta með Bresnév hruman í Kreml, þykir augljóst að þeirra eigin staða hafi veikst mjög. Þeir hafa því opnað á varfærnislega umræðu um að þeir geri ekki lengur „góðum málstað“ gagn, þar sem hver ný könnun sýni að mjög fjari undan trausti til þeirra sjálfra og áhorf á fréttastöðvarnar hafi hrunið.
Allir „meginstraumsfjölmiðlarnir“ afgreiddu lengi sívaxandi vandræði Hunters Bidens sem „fjarstæðukenndar samsæriskenningar,“ og gerðu það gegn betri vitund. Í fjármálabraski hans í Kína og Úkraínu var nafn föðurins, varaforsetans og síðan forsetans, það eina sem Hunter og Jim föðurbróðir hans höfðu fram að færa til að sanka að sér ómældum fúlgum fjár. Nú er vitað að alríkislögreglan FBI hefur bæði tölvudiska og myndskeið í sínum fórum og það hafa fleiri en hún. Þótt sífellt hafi birst fleiri og alvarlegri myndskeið af þessum upplýsingum, héldu hinir „virtu fjölmiðlar“ lengur í kenningu sína um samsærið en boðlegt var. Fyrir fáeinum mánuðum var orðið ljóst að þetta var orðið þeim um megn. Það auðveldar uppgjöfina nú að ekki er lengur verið að verja pólitískt líf forseta demókrata til næstu 4-5 ára. Þvert á móti er líklegast að aumingjadómur forsetans sé að laska flokkinn hans, svo að stórlega sér á. Fjölmiðlarnir eru því teknir að viðurkenna að Hunter Biden-málið sé að vaxa þeim yfir höfuð og það sem verst sé, er að ekki er lengur hald í að einangra málið við hann. (RÚV er eini miðillinn á Vesturlöndum, sem enn hefur ekkert frétt. Vel fer á því.)
Það gerir þetta mál enn kyndugra að kappinn Hunter hefur tekið hin og þessi myndskeið af sjálfum sér, illa til reika vegna eiturlyfja og í samskiptum við gleðikonur, m.a. rússneskar, þar sem hann ræðir við þær um ótrúlegar fjárhæðir fyrir viðvik þeirra. Allt er þetta með miklum ólíkindum og dapurlegt að horfa upp á. Ekki tekur svo betra við þegar að Hunter ræðir tuga milljóna viðskipti við erlend fyrirtæki, gjarnan ríkisfyrirtæki (!) og útlistar eðlilega skiptingu á hinu mikla góssi. Er þá tekið fram að 10% af þeim ósköpum skuli ganga til „The big man.“ „The big man“ er sá eini sem ekki er nafngreindur, en það vefst þó ekki fyrir mörgum hver sé í þeirri rullu í Biden-fjölskyldunni.
Kannanir á fylgi forsetans, og mat á frammistöðu hans á hinum ýmsu málefnasviðum, sýna hrikalegri niðurstöður en nokkur forseti annar hefur þurft að horfast í augu við, eftir að slíkar mælingar tóku að tíðkast.
Forsetinn talar enn um að hann ætli sér í endurkjör haustið 2024. Fyrrnefndir fjölmiðlar eru hættir að taka slíkt tal alvarlega. Þeir hafa þó enn nokkrar áhyggjur af því, að einhver hluti almennings kunni að gera það, því slíkt geti einungis skaðað flokk demókrata í kosningunum í byrjun nóvember næstkomandi.
Athyglisvert smotterí er að bandarískir kjósendur hafa ekki minni áhuga á neinu efni í tengslum við næstu kosningar en „loftslagsmálunum.“ Mælingarnar sýna að 1% kjósenda eða færri hafi áhyggjur af þeim málaflokki!