Einar K. Guðfinnsson sendi mér góðan póst um íslenska fjárhundinn: „Jón Kristjánsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra skrifaði á Facebook-síðu sína: Ég heyrði í útvarpinu að nú væri dagur íslenska fjárhundsins.

Einar K. Guðfinnsson sendi mér góðan póst um íslenska fjárhundinn:

„Jón Kristjánsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra skrifaði á Facebook-síðu sína:

Ég heyrði í útvarpinu að nú væri dagur íslenska fjárhundsins. Ég minnist þess að á Alþingi kom nefndur hundur til umræðu þegar ég var þar. Guðni Ágústsson flutti tillögu um að auka veg hans og virðingu og sagði í framsögu að hann væri lifandi listaverk og augun í honum höfðuðu til réttlætiskenndar. Guðni lagði til að málinu yrði vísað til allsherjarnefndar Alþingis.

Friðjón Þórðarson dró efni ræðunnar saman í vísu sem var svohljóðandi:

Þú íslenski fjárhundur, lifandi listaverk

með ljómandi augu, sem höfða til réttlætiskenndar.

Með hringaða rófu og hálsband um loðna kverk,

ég heiti á þig að komast til allsherjarnefndar.

Ég er því miður hræddur um að málið hafi sofnað í nefnd.“

Jón Jens Kristjánsson segir á Boðnarmiði: „Bjór sem springur tekinn úr sölu. Sjá Fréttablaðið.“

Veit ég um einn vænan kór

vel hann einatt syngur

þegar hann hefur bragðað bjór

sem bólgnar út og springur.

Undir þetta getum við öll tekið með Bjarna Sigtryggssyni:

Kófið er illvígur ári,

sem angrar konur og menn.

Megi því fjandans fári

fara að ljúka senn.

Hrafndís Bára yrkir og ekki er það gott:

Barist er á boðnarskjá

ber á miklu væli.

Virðist mér ég vera á

vitleysingahæli.

Hallmundur Guðmundsson um Bögusmíð:

Á ævikvöldi fyrir finn,

fjörbrotum í húminu.

Þá andagiftar afurð spinn

– aðallega í rúminu.

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson orti:

Í mannfjöldann Magnús á Grund

missti sinn kolóða hund

er geltandi beit

eitt barn sem þá leit

upp úr símanum svolitla stund.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is