[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Stjarnvísindamenn halda áfram að gera merkar uppgötvanir með James Webb-geimsjónaukanum og svo virðist sem hver ný mynd sem berst frá skynjurum sjónaukans svipti hulunni af einstökum fyrirbrigðum.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Stjarnvísindamenn halda áfram að gera merkar uppgötvanir með James Webb-geimsjónaukanum og svo virðist sem hver ný mynd sem berst frá skynjurum sjónaukans svipti hulunni af einstökum fyrirbrigðum. Fyrr í vikunni birti bandaríska geimferðastofnunin röð fallegra mynda sem sjónaukinn náði af fjarlægustu kimum alheimsins en í þessari viku bættust við myndir sem eiga að sýna elstu stjörnuþoku sem fundist hefur til þessa.

Hefur stjörnuþokunni verið gefið nafnið GLASS-z13 og er áætlað að hún hafi tekið að myndast í mesta lagi 300 milljón árum eftir miklahvell. Er GLASS-z13 100 milljón árum eldri en nokkur önnur stjörnuþoka sem fundist hefur hingað til.

Til að setja aldur GLASS-z13 í samhengi þá er áætlað að heimurinn hafi orðið til fyrir 13,8 milljörðum ára en sólkerfi okkar jarðarbúa er aðeins rétt rúmlega 4,5 milljarða ára gamalt.

Margra milljarða ára glæta

Í viðtali við AFP sagði Rohan Naidu, sem starfar við stjarneðlisfræðideild Harvardháskóla, að það ljós sem geimsjónaukinn nemur frá GLASS-z13 kunni að vera elsti stjörnubjarmi sem nokkurn tíma hefur tekist að greina á himnum, en ljósið frá stjörnuþokunni var 13,4 milljarða ára á leiðinni til jarðar. Þar eð heimurinn hefur þanist út í allar áttir er fjarlægðin á milli jarðar og GLASS-z13 áætluð 33,3 milljarðar ljósára í dag.

Naidu leiddi teymi 25 vísindamanna sem skrifuðu fyrstu vísindagreinina um fundinn en greinin hefur verið birt með fyrirvara um að enn á eftir að ritrýna hana.

Webb-sjónaukinn er í 1,5 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðu, næstum fjórfalt lengra í burtu en tunglið, og er búinn skynjurum sem nema geisla á innrauða litrófinu í mikilli upplausn. GLASS-z13 er svo langt í burtu og ljósið svo lengi að berast að það er orðið innrautt þegar það nær til jarðar. Þegar merki frá sjónaukanum eru greind og færð yfir á hið sýnilega sjónsvið lítur stjörnuþokan út eins og lítill rauður depill með ljósan kjarna.

Mun minni en Vetrarbrautin

Naidu og kollegar hans skimuðu gögn úr sjónaukanum eftir merkjum um fjarlægar og gamlar stjörnuþokur og fundu bæði GLASS-z13 og stjörnuþokuna GLAss-z11 sem er talin 100 milljón árum yngri.

Hyggst rannsóknarteymið biðja um að nota sjónaukann til að gera ítarlegri greiningu á ljósinu frá GLASS-z13 með það fyrir augum að reikna fjarlægð stjörnuþokunnar út af meiri nákvæmni.

Benda fyrstu niðurstöður m.a. til að massi GLASS-z13 sé um það bil einn milljarður sólarmassa en massi Vetrarbrautarinnar er um 1.500 sinnum meiri. Vetrarbrautin er í kringum 100.000 ljósár í þvermál en GLASS-z13 aðeins 1.600 ljósár á breidd og GLASS-z11 um það bil 2.300 ljósár.