Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Maður skyldi aldrei þiggja far hjá ökumanni sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa. Þess eru dæmi að farþegar, sem setið hafa í bíl hjá vímuðum ökumanni og slasast í umferðarslysi, fái ekki fullar bætur úr ábyrgðartryggingu bílsins. Dæmi um slíkt má sjá í samantekt úrskurða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum árið 2021. Nefndin úrskurðaði í alls 472 málum það ár.
Tveir illa vímaðir í bílveltu
Maður sem nefndur er M var farþegi í bíl sem var ekið á kyrrstæðan bíl í Selvogsgrunni 2019. Ökutækið valt síðan og endaði á hvolfi.
Þegar að var komið voru M og ökumaðurinn í annarlegu ástandi og svo illa vímaðir að hvorki var hægt að tilkynna þeim að þeir væru handteknir né heldur að þeir hefðu réttarstöðu sakborninga. Þeir voru fluttir á slysadeild. Á leiðinni þangað kvaðst ökumaðurinn hafa tekið nokkurt magn kókaíns og hafa vakað í nokkra daga. Hann hafði ekki hugmynd um hvar þeir voru staddir þegar slysið varð.
Mörg lyf mældust í blóði beggja, meðal annars lyf sem ekki eru leyfð hér á landi. Ekkert áfengismagn mældist í þeim. Ökumaðurinn taldist hafa verið óhæfur til að aka bílnum örugglega.
M krafðist bóta úr ábyrgðartryggingu bílsins. Tryggingafélagið féllst á bótaskyldu en taldi að skerða bæri bæturnar um 2/3 þar eð farþeginn hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að þiggja far með ökumanni sem var undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn ætti rétt á bótum að 1/3 hluta.
Slys á leið úr samkvæmi
Ökumaður var á leið úr samkvæmi í Breiðholti og voru tveir farþegar í bílnum. Bíllinn rann á kant við götuna og þaðan á ljósastaur.
Tryggingafélagið lét annan farþegann vita að bótaréttur hans úr ábyrgðartryggingu bílsins yrði skertur, því ökumaðurinn var ölvaður. Farþeginn hefði sýnt stórkostlegt gáleysi með því að þiggja farið.
Farþeginn mótmælti þessu, enda þyrfti að sýna fram á að honum hefði verið ljóst að ökumaðurinn hefði verið ölvaður. Farþeginn kvaðst alfarið vera á móti ölvunarakstri og ökumaðurinn ekki upplýst farþegana um ölvunarástand sitt. Samkvæmt lögregluskýrslu var ökumaðurinn ölvaður og einnig undir áhrifum fíkniefna og óhæfur til að aka.
Talið var að farþeganum hefði ekki átt að dyljast ástand ökumannsins. Farþeginn hefði því sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að þiggja farið og þannig verið meðvaldur að tjóni sínu. Bætur farþegans úr ábyrgðartryggingu bílsins voru því skertar um 2/3 .
Krafðir um greiðslu
Akstur undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra vímugjafa, er algengasta ástæða þess að tryggingafélögin gera endurkröfur á hendur tjónvöldum í umferðinni.Helgi Jóhannesson, hrl. og formaður endurkröfunefndar bifreiðatrygginga, segir að málum, sem tengjast akstri undir áhrifum annarra vímugjafa en áfengis, t.d. lyfja eða fíkniefna, hafi fjölgað undanfarin ár. Á árum áður var algengast að vímaðir ökumenn væru undir áhrifum áfengis undir stýri.
Vátryggingafélögin vísa málum til endurkröfunefndarinnar þegar tjónvaldur hefur ekið undir áhrifum eða sýnt stórfellt gáleysi. Tryggingafélagið greiðir þeim bætur sem verður fyrir tjóninu en getur gert endurkröfu á hendur þeim sem ók undir áhrifum eða mjög ógætilega.