Kópavogur Úkraínski dómarinn hafði nóg að gera og hér liggur Andrija Raznatovic á vellinum en var samt á leið af velli með rautt spjald.
Kópavogur Úkraínski dómarinn hafði nóg að gera og hér liggur Andrija Raznatovic á vellinum en var samt á leið af velli með rautt spjald. — Morgunblaðið/Árni Sæberg Mor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópukeppni Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Víkingur og Breiðablik standa vel að vígi eftir fyrri leikina í annarri umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta, þar sem bæði lið unnu 2:0 heimasigra í gærkvöld. Þeir leikir voru þó eins ólíkir og hugsast gat.

Evrópukeppni

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Víkingur og Breiðablik standa vel að vígi eftir fyrri leikina í annarri umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta, þar sem bæði lið unnu 2:0 heimasigra í gærkvöld.

Þeir leikir voru þó eins ólíkir og hugsast gat. Víkingar skoruðu úr tveimur vítaspyrnum á fyrstu 56 mínútunum gegn The New Saints frá Wales á meðan Blikar skoruðu sín tvö mörk á lokamínútunum gegn Buducnost frá Svartfjallalandi.

Leikurinn á Kópavogsvelli varð heldur betur sögulegur, því tveir leikmenn Buducnost voru reknir af velli í síðari hálfleiknum. Þjálfari liðsins, Aleksandar Nedovic, fékk þriðja rauða spjaldið í uppbótartíma leiksins. Svartfellingarnir verða því með tvo leikmenn og þjálfarann í leikbanni í seinni leiknum í Podgorica næsta fimmtudag.

Blikar voru orðnir tveimur mönnum fleiri þegar enn voru rúmar 20 mínútur til leiksloka en þeim gekk illa að brjóta niður níu Svartfellinga. Reyndar voru þeir heppnir þegar gestirnir komust í dauðafæri, tveimur færri, en Anton Ari Einarsson bjargaði Blikum með því að verja glæsilega frá Lazar Miljovic sem komst einn gegn honum. Sannkallaður vendipunktur í leiknum.

* Kristinn Steindórsson kom Breiðabliki loksins yfir eftir látlausa pressu, 1:0, á 88. mínútu með góðu skoti í hægra hornið. Þar með jafnaði hann markamet Ellerts Hreinssonar fyrir Breiðablik í Evrópukeppni en þeir hafa nú báðir gert fjögur mörk fyrir félagið á þessum vettvangi.

* Höskuldur Gunnlaugsson lagði upp markið fyrir Kristin og hann skoraði síðan úr vítaspyrnu í uppbótartímanum eftir að Oliver Sigurjónsson var felldur. Þriðja Evrópumark Höskuldar fyrir Breiðablik en hann, Árni Vilhjálmsson og Gísli Eyjólfsson eru þar jafnir með þrjú mörk hver.

*Blikar hafa nú unnið fleiri leiki en þeir hafa tapað í Evrópukeppni og eru eina íslenska karlaliðið í þeirri stöðu. Þeir hafa unnið tíu og tapað níu af 24 Evrópuleikjum sínum.

Þegar leikurinn var flautaður af gerðu leikmenn og starfsmenn Buducnost sig líklega til að veitast að Damir Muminovic , leikmanni Breiðabliks, en þeir voru strax stöðvaðir af lögreglu á vellinum.

Komist Blikar áfram, mæta þeir annað hvort Istanbul Basaksehir frá Tyrklandi eða Maccabi Netanya frá Ísrael, sem gerðu 1:1 jafntefli í Tyrklandi í gærkvöld.

Mörk í öllum Evrópuleikjum

Ingvar Jónsson markvörður bjargaði Víkingum með frábærri markvörslu eftir slæm varnarmistök strax á annarri mínútu leiksins.

Víkingar tóku hins vegar völdin á vellinum fljótlega eftir það og unnu verðskuldaðan sigur, þar sem þeir hefðu getað skorað fleiri mörk.

* Kristall Máni Ingason skoraði úr vítaspyrnu á 29. mínútu eftir að brotið var á Ara Sigurpálssyni.

*Kristall Máni skoraði aftur úr vítaspyrnu en þá var brotið á honum sjálfum, að mati dómarans.

*Kristall Máni hefur nú skorað í öllum fjórum Evrópuleikjunum sem hann hefur spilað fyrir Víking, samtals fimm mörk. Hann er markahæstur Víkinga í Evrópukeppni frá upphafi.

*Íslensk lið hafa nú unnið alla níu leiki sína gegn liðum frá Wales í Evrópukeppni.

Víkingar mæta nær örugglega Lech Poznan frá Póllandi ef þeir komast áfram en Lech vann Dinamo Batumi frá Georgíu 5:1 í gærkvöld.

BREIÐAB. – BUDUCNOST 2:0

1:0 Kristinn Steindórsson 88.

2:0 Höskuldur Gunnlaugsson 90.(v)

Rautt spjald : Andrija Raznatovic (Buducnost) 55., Luka Mirkovic (Buducnost) 69., Aleksandar Nedovic (Buducnost/þjálfari) 90.

Dómari : Denys Shurman, Úkraínu.

Áhorfendur : Um 1.000.

Breiðablik : (4-3-3) Mark : Anton Ari Einarsson. Vörn : Höskuldur Gunnlaugsson, Damir Muminovic, Viktor Örn Margeirsson, Davíð Ingvarsson, Anton Ari Einarsson. Miðja : Viktor Karl Einarsson, Oliver Sigurjónsson, Gísli Eyjólfsson. Sókn : Jason Daði Svanþórsson (Omar Sowe 80), Dagur Dan Þórhallsson (Kristinn Steindórsson 74), Ísak Snær Þorvaldsson.

VÍKINGUR – TNS 2:0

1:0 Kristall Máni Ingason 29.(v)

2:0 Kristall Máni Ingason 57.(v)

Dómari : Peter Kralovic, Slóvakíu.

Áhorfendur : Um 800.

Víkingur R.: (4-4-2) Mark : Ingvar Jónsson. Vörn : Karl Friðleifur Gunnarsson, Kyle McLagan, Oliver Ekroth, Logi Tómasson. Miðja : Erlingur Agnarsson, Pablo Punyed, Júlíus Magnússon, Ari Sigurpálsson (Nikolaj Hansen 77). Sókn : Kristall Máni Ingason, Birnir Snær Ingason (Helgi Guðjónsson 77).