Myndarlegur Hilmar Víglundsson með einn þeirra vænu stórlaxa sem veiðst hafa í Hofsá undanfarnar vikur.
Myndarlegur Hilmar Víglundsson með einn þeirra vænu stórlaxa sem veiðst hafa í Hofsá undanfarnar vikur. — Ljósmynd/SRP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Nú erum við bæði með lax og vatn, eins og okkur hefur dreymt um síðustu sumur,“ segir Ingólfur Ásgeirsson, staðarhaldari við Þverá og Kjarrá.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Nú erum við bæði með lax og vatn, eins og okkur hefur dreymt um síðustu sumur,“ segir Ingólfur Ásgeirsson, staðarhaldari við Þverá og Kjarrá. „Það er mun meira af laxi í ánni en í mörg ár, hann gengur á fullu og veiðin gengur mjög vel. Menn eru að fá lax upp um alla á og lúsugan lax uppi í Kjarrá daglega. Þetta er langbesta ár síðan 2018 og líklega alveg síðan 2015,“ segir hann. Nú þegar besti tíminn í laxveiðiánum á Vesturlandi er runninn upp er myndin af veiðisumrinu og þá sérstaklega vestanlands tekin að skýrast og eru veiðimenn sem rætt er við sammála því að veiðin ætti að minnsta kosti að vera í góðu meðaltali eftir tvö dræm sumur. Í Þverá og Kjarrá hafði 731 lax verið færður til bókar á miðvikudagskvöldið var, sem er, eins og Ingólfur segir, betra fyrir þennan tíma en í mörg ár – og situr áin í öðru sæti yfir þær ár landsins sem flesta laxa hafa gefið.

Nú er tími kröftugra smálaxaganga en Ingólfur segir veiðimenn einnig hafa verið að landa afar vel höldnum stórlöxum síðustu daga. „En eftir þrjú erfið veiðiár vonuðum við að þetta myndi gerast, að við fengjum eðlilegt laxveiðiár. Þverá-Kjarrá gæti alveg farið í tvö þúsund laxa, ég held við séum að sigla inn í eðlilegt ástand.“

Ingólfur segir menn sammála kenningu fiskifræðinga að ástæðan fyrir krappri dýfu í laxagöngum síðustu tvö sumur séu þurrkarnir sumarið 2019, sem hafi leikið seiðin hart. „En nú erum við komin aftur í gegnum það og aftur á beinu brautina!“

Í Þverá-Kjarrá hafa veiðimenn verið að fá upp í 14 til 15 laxa á stöng í holli en meðalveiðin í síðustu viku var tæpir tveir laxar á stöng á dag.

„Það vantar ekki fisk“

Norðurá situr í þriðja sætis lista Angling.is yfir þær ár sem hafa gefið flesta laxa í sumar, 711 höfðu veiðst þar á miðvikudagskvöldið var. Brynjar Þór Hreggviðsson staðarhaldari segir um 30 laxa veiðast nú daglega á stangirnar 15. „Við erum yfir tölunum í fyrra, þegar endaði í 1.430 löxum, og það er fínasta veiði,“ segir hann. „Það vantar ekki fisk en það er mjög gott vatn fyrir þennan tíma sumars og það virðist vera talsverð fart á göngufiskinum upp ána. Þá er laxinn lítið að taka en enn fara 50 til 60 laxar daglega upp teljarann.

Allir veiðimenn eru að sjá fiska og kasta á þá, margir hyljanna eru pakkaðir, sem er frábært, en laxinn mætti alveg taka enn betur.“

Minnir á gamla daga í Hofsá

Laxveiðin hefst síðast í ánum á norðausturhorninu en er þegar góð í Vopnafirði; hörkufín veiði hefur verið í Hofsá. 220 laxar höfðu veiðst á miðvikudag, 70 meira en á sama tíma í fyrra, og undanfarna viku hafa veiðst 14 til 26 laxar á dag á stangirnar sex, tveir til fjórir á stöng á dag, sem er afar gott.

Unnendum Hofsár finnst hún eiga að gefa að minnsta kosti þúsund laxa á sumri og eftir nokkurra ára dýfu, þá náði hún aftur yfir 1.000 sumarið 2020 en endaði í 601 í fyrra. Eins og gangurinn er nú má ætla að 1.000 laxa markinu verði náð. Í samtali við Sporðaköst á Mbl.is telur Jón Magnús Sigurðarson, formaður veiðifélagsins, að það ætti að takast. „Síðasta holl var býsna gott og endaði með 76 laxa,“ sagði hann. „Smálaxinn var að mæta eftir síðasta stóra straum og það var líka að koma stór lax í bland. Þetta sáum við ekki í fyrra. Þá var lítið sem ekkert komið af smálaxi á þessum tíma.“

Jón Magnús segir að þegar Hofsá var í sínum besta gír hafi smálaxinn einmitt mætt um miðjan júlí. „Þessi staða núna á þessum tíma minnir ofurlítið á gamla daga. Tveggja ára fiskurinn er ótrúlega vel haldinn og hrygnurnar eru djúpar og þykkar. Stóri hængurinn er að mæta með smálaxinum og það er eins og maður man þetta frá því áður fyrr.“