Dansverk Sviðslistahópurinn GMT sýnir dansverk á Reyðarfirði í dag.
Dansverk Sviðslistahópurinn GMT sýnir dansverk á Reyðarfirði í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóna Gréta Hilmarsdóttir jonagreta@mbl.is „Okkur langaði að skoða hvort það að gera sig til geti talist listform,“ segir Inga Steinunn Henningsdóttir, meðlimur sviðslistahópsins GMT sem sýnir dansverk í Molanum á Reyðarfirði frá kl.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

jonagreta@mbl.is

„Okkur langaði að skoða hvort það að gera sig til geti talist listform,“ segir Inga Steinunn Henningsdóttir, meðlimur sviðslistahópsins GMT sem sýnir dansverk í Molanum á Reyðarfirði frá kl. 13 til 15 í dag. GMT er örverk í þróun sem mætti skilgreina sem dans- og hreyfileikhús en sýningin er þátttökuverk og áhorfendum verður boðið að gera sig til með flytjendum og dansa með frumsaminni tónlist sérsniðinni að verkinu, að því er kemur fram í tilkynningu. Verkið er hluti af Innsævi, menningar- og listahátíð Fjarðabyggðar sem er nú haldin í annað sinn. Í verkinu gera fjórar stelpur sig til sem mynda sviðslistahópinn GMT. Þær eru, auk Ingu, Anna Róshildur Benediktsdóttir Bøving, Bjartey Elín Hauksdóttir og Björg Steinunn Gunnarsdóttir. Blaðamaður ræddi við Ingu og Björgu um verkið.

„GMT er skammstöfun fyrir „gera mig til“. Það þýðir að hittast, mála sig og klæða sig saman,“ segir Inga og Björg tekur undir. „Þetta er vinsæl skammstöfun á meðal unglinga, sérstaklega ungra kvenna. Þær senda oft hver á aðra „GMT“ fyrir djammið eða ballið og þá koma stelpurnar saman og gera sig til. Það er eiginlega oft jafn mikilvægt og viðburðurinn sjálfur sem þær eru að gera sig til fyrir.“

Spurðar hvaðan hugmyndin að verkinu sé fengin, segir Inga: „Ég fékk þessa hugmynd af því að mér finnst svo gaman að hlusta á GMT-lög eða skvísulög. Ég hugsaði með mér hvað það væri gaman að nota þau í einhverja sýningu þannig að ég heyrði í stelpunum og spurði hvort þær væru til í að gera þetta með mér.“

Gægst inn í heim kvenna

„GMT getur flokkast sem örverk, dansverk eða innsetning og er hluti af stærra verkefni sem við erum að þróa. Á Reyðarfirði, sem hluta af Innsæi, fáum við tækifæri til að sýna afurðina af því sem við þróuðum á síðastliðnum mánuði. Það sem við erum að sýna þar er svolítið sniðið að umhverfinu. Sýningarrýmið sem okkur áskotnaðist er inni í verslunarkjarna Reyðarfjarðar sem heitir Molinn. Sýningin verður í rauninni í gegnum glugga sem er svolítið eins og spegill, þannig að það er bæði hægt að horfa á alla sýninguna, sem hver er um 20 mínútur, í gegnum gluggann og síðan getur fólk fylgst með sem á leið hjá,“ segir Björg.

Að sögn Ingu voru hún, Björg og Anna Róshildur saman í bekk í Listaháskóla Íslands á sviðshöfundabraut og Bjartey í sama skóla á listdansbraut. Þar höfðu þær m.a. unnið saman í ýmsum verkefnum. Björg bætir við: „Við þrjár, sviðshöfundarnir, höfum mikinn áhuga á dansi og Bjartey á leikhúsi þannig að við erum að hoppa á milli okkar sviða. Við sviðshöfundarnir erum ekki menntaðir dansarar en erum samt að dansa og Bjartey, leikstýrir einnig og skapar verkið með okkur.“

Að sögn þeirra fólust nokkrar æfingar fyrir sýninguna í því að gera sig til og fara út mikið málaðar og í búningunum úr sýningunni.

„Það að gera sig til varð alltaf miklu stærri viðburður heldur en það sem við gerðum eftir á,“ segir Björg.

Spurðar hvert markmið þeirra sé með verkinu, segir Inga: „Okkur langar að skoða þessa rútínu sem fylgir því að gera sig til.“

„Já, og líka bara stelpukúltúr af því að það að gera sig til saman er lokaður viðburður fyrir konur. Það getur tekið hálftíma upp í fjóra tíma og er ástæða fyrir konur til þess að koma saman og tengjast,“ bætir Björg við.

Kvenhatur eða sjálfstjáning

Báðar segjast þær ekki hafa tengt við skvísumenningu fyrr en nýlega.

„Þegar maður verður femínisti þá fer maður í gegnum nokkur þrep. Maður spyr sig af hverju aðrar stelpur fá sér t.d. gervineglur og finnst það fáránlegt. Síðan fer maður að skoða af hverju manni finnst það fáránlegt. Er það kvenhatur innra með mér? Af hverju getur það ekki bara verið gaman að vera með gervineglur? Spurningin snýst síðan um það hver það sé sem segir stelpum að vera með gervineglur. Fyrir hvern erum við að eyða hundraðþúsundkalli á mánuði umfram karlmenn í munaðarvörur?“ spyr Björg.

„Ég leyfði mér heldur aldrei að vera gella áður en það getur verið algjört stuð. Að setja á sig flottan augnskugga getur líka verið mikil list. Hins vegar að setja hyljara yfir einhverja bólu má túlka sem kúgun,“ segir Inga.

„Já, þetta er flókið undir ráðandi karllæga augnaráðinu. Það er eiginlega ekki hægt að segja að maður sé bara að gera sig til fyrir sjálfan sig,“ svarar Björg.

„Í verkinu erum við að velta þessum spurningum fyrir okkur en myndum enga lokaniðurstöðu. Ég held samt að þegar við erum búnar að gera okkur til endum við eins og við viljum vera,“ segir Inga.