Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson
Karlotta Líf Sumarliðadóttir karlottalif@mbl.is Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir verðbólguna, sem nú mælist 9,9 prósent hér á landi, stafa meðal annars af afskiptaleysi stjórnvalda.

Karlotta Líf Sumarliðadóttir

karlottalif@mbl.is

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir verðbólguna, sem nú mælist 9,9 prósent hér á landi, stafa meðal annars af afskiptaleysi stjórnvalda.

Hefur hann farið fram á, við bæði Seðlabankann og ríkisstjórnina, að álögur á nauðsynjavöru og eldsneyti verði lækkaðar og krónan styrkt, en segir að ekki hafi verið á hann hlustað.

„Þetta er veganestið sem við höfum inn í næstu kjarasamninga og þurfum að taka þetta með í reikninginn í okkar kröfugerð,“ segir hann.

Fari í tveggja stafa tölu

„Þetta er það sem við óttuðumst og höfum varað við því að við gætum farið að sjá tveggja stafa tölur,“ segir hann enn frekar. Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, sagði í samtali við mbl.is að skammtímaspár bentu til þess að verðbólgan næði hámarki í ágúst og færi í 10,3 prósent.

Ragnar segir enn fremur að skýrt sé í kröfugerð síns stéttarfélags að kaupmáttur verði bæði varinn og aukinn á næsta samningatímabili.

„Það hlýtur að gefa auga leið að til þess að það verði hægt, verðum við að mæta þeirri kaupmáttarrýrnun sem hefur orðið út af þessari miklu verðbólgu,“ segir hann.

Þá segir Ragnar verðbólguna að stórum hluta heimatilbúna, vegna áratugaaðgerðaleysis hvað varðar húsnæðismarkaðinn, sem og sofandaháttar gagnvart fjölmörgum leiðum til að sporna við miklum verðlagshækkunum sem flæði yfir almenning.

„Svo koma stýrivaxtahækkanir ofan á það og ég held að allir, meira að segja þeir sem hafa gagnrýnt verkalýðshreyfinguna hvað harkalegast, hafi tekið undir okkar gagnrýni að stýrivaxtahækkanir í þeim mæli sem Seðlabankinn hefur farið í, geri ekkert nema gera ástandið enn verra, vegna þess að fyrirtækin skulda það mikið.“