Svíþjóð Andri Lucas Guðjohnsen er kominn til liðs við Norrköping.
Svíþjóð Andri Lucas Guðjohnsen er kominn til liðs við Norrköping. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Andri Lucas Guðjohnsen var í gær formlega kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður sænska knattspyrnuliðsins Norrköping en hann er kominn þangað frá Real Madrid.

Andri Lucas Guðjohnsen var í gær formlega kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður sænska knattspyrnuliðsins Norrköping en hann er kominn þangað frá Real Madrid.

Hann er fjórði Íslendingurinn í röðum félagsins en með því leika Ari Freyr Skúlason og Arnór Sigurðsson og þá hefur Jóhannes Kristinn Bjarnason verið viðloðandi aðalliðshóp félagsins. Andri verður fimmtándi Íslendingurinn til að spila deildaleik með Norrköping, sem með komu hans og Arnórs er orðið mesta „Íslendingalið“ sögunnar í Svíþjóð. Næst á undan kvennaliði Kristianstad en þrettán íslenskar konur hafa leikið með því.

Aðeins eitt erlent félag, Lilleström í Noregi, er meira „Íslendingafélag“ en Norrköping, en Hólmbert Aron Friðjónsson varð fyrr á árinu átjándi Íslendingurinn til að spila með aðalliði Lilleström.

Þá hafa fimmtán Íslendingar leikið með bæði Brann og Viking í Noregi en næst þar á eftir kemur Stoke á Englandi með 13 Íslendinga í aðalliði, ellefu þeirra á árunum sem félagið var í eigu Íslendinga.