Tilfinningar Linda Sembrant fagnar sigrinum með liðsfélögum en Justine Vanhaevermaet er niðurlút.
Tilfinningar Linda Sembrant fagnar sigrinum með liðsfélögum en Justine Vanhaevermaet er niðurlút. — AFP/Franck Fife
EM 2022 Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Svíar urðu í gær þriðja þjóðin til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í fótbolta, er liðið vann 1:0-sigur á Belgíu í Leigh.

EM 2022

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Svíar urðu í gær þriðja þjóðin til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í fótbolta, er liðið vann 1:0-sigur á Belgíu í Leigh. Sænska liðið var töluvert sterkari aðilinn allan leikinn og skapaði sér fjölmörg færi áður en Linda Sembrant skoraði loksins sigurmarkið eftir hornspyrnu í uppbótartíma.

Varnarmaðurinn var þá fyrstur að átta sig í teignum og sigraðist á Nicky Evrard í marki Belga, sem átti sannkallaðan stórleik. Sembrant verður liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Juventus á næsta tímabili.

Bæði lið á mikilli siglingu

Þrátt fyrir að hafa aðeins einu sinni orðið Evrópumeistari, hefur Svíþjóð lengi verið í fremstu röð í evrópskum fótbolta í kvennaflokki. Á síðustu sjö Evrópumótum fyrir mótið í ár lék sænska liðið um verðlaun á fimm.

Undanúrslitaleikurinn verður hins vegar þrautin þyngri fyrir sænska liðið, því þar bíða enskar heimakonur í Sheffield á þriðjudag. England vann sterkt spænskt lið í undanúrslitum og verður með stúkuna á sínu bandi.

Liðin mættust í leiknum um þriðja sætið á HM í Frakklandi árið 2019 og hafði Svíþjóð þá betur, 2:1. Enska liðið er hins vegar sterkara um þessar mundir, með Evrópumeistarann Sarinu Wiegman við stjórn. Það má þó alls ekki afskrifa sænska liðið, sem hefur ekki tapað leik í venjulegum leiktíma frá árinu 2020. England hefur ekki tapað í síðustu átján leikjum og má því búast við hörkuleik tveggja liða á góðu skriði.