Steinunn Guðný Sveinsdóttir fæddist 17. maí 1931. Hún lést 1. júlí 2022. Útför Steinunnar fór fram 18. júlí 2022.

Þessi Lilja er mér gefin af Guði,

hún grær við hans kærleik og náð.

Að vökva hana ætíð og vernda,

er vilja míns dýrasta náð.

(Þorsteinn Gíslason)

Elskuleg tengdamóðir mín, Steinunn Guðný, er látin 91 árs. Dugnaður og göfugt hjarta er mér efst í huga, orð sem lýsa henni best.

Ég kynntist henni ung að árum þegar sonur hennar, ég og börnin mín rugluðum saman reytum.

Í sveitinni á Kastalabrekku var okkur afar vel tekið og við fyrsta augnakast Steinunnar á börnin mín urðu þau hennar. Það var kærkomin gjöf. Börnin fengu afa og ömmu í sveitinni ásamt stórfjölskyldunni, margar frænkur og frændur. Sveitalífið átti einstaklega vel við okkur og við fórum flestar helgar og í öllum fríum á Kastalabrekku.

Við Steinunn deildum hjartarsorg þegar sonur hennar lést. Djúpt sár, söknuður og allt var breytt. Tengdamóðir mín og ég áttum þó alltaf einstakt og fallegt samband ásamt börnunum mínum, sem voru alltaf hennar.

Snemma árs 2017 var sonur minn jarðsettur og elsti sonur Steinunnar lést það sama ár. Það er skrýtið hvað lífið færir manni, alls konar áskoranir, gleði og sorg. Ég horfði á Steinunni takast á við lífið með einstöku æðruleysi, lífsgleði og kærleika.

Með þakklæti og virðingu kveð ég elsku Steinunni mína og óska henni góðrar ferðar inn í sumarlandið.

Nú fljúga mínir fuglar, góða dís.

Nú fagna englar guðs í Paradís.

(Davíð Stefánsson)

Hulda Hansen.

Það mun hafa verið einhvern tímann á árinu 2005 að bankað er á útidyrnar hjá mér. Ég fer til dyra til að vita hver kominn er, úti fyrir standa hjón sem ég kannaðist við en konunni hafði ég ekkert kynnst fyrr. Þau ganga bæði inn fyrir og konan fer að kynna mér erindi þeirra; þau hafa í hyggju að stofna samstæðan blandaðan kór eldri borgara. Þau voru búin að tala við söngstjóra sem vildi taka að sér þetta verk.

Jú, ég vildi taka að mér þetta að syngja tenór (sem ég hafði aldrei gert fyrr) í svona kór. Hún var þá búin að tala við fólk úr allavega stéttum um þetta áhugamál þeirra hjóna. Þetta gekk allt eftir, heldur var fátt í kórnum til að byrja með en fjölgaði brátt svo þetta varð almennilegur kór. Oft fórum við að hitta aðra kóra, bæði í sveitinni og á höfuðborgarsvæðinu. Steinunn var aðalhvatamaður að þessu fyrir okkar hönd til margra ára og stóð sig fádæma vel svo allir dáðust að. Ekki veit ritari til hvað margra ára hún var formaður kórsins, sá um allar kaffiveitingar og yfirleitt bara allt sem gera þurfti til að halda kórnum gangandi, hún taldi ekki eftir sér eitt einasta skref sem gera þurfti í þessu sambandi. Það var sameiginlegt meðal allra kórfélaga að dást að starfi hennar.

Oft kom undirritaður til þeirra hjóna, ekki endilega að erindið væri alltaf stórt heldur var alltaf jafn gott að koma til þeirra beggja. Eftir að Sigurður dó og Steinunn var ein eftir hefði ritari mátt heimsækja hana oftar því hún gætti að því að vera alltaf jafn aðlaðandi og almennileg, til í að ræða um alla hluti sem á dagskrá voru hverju sinni. Ég bið Guð að fyrirgefa mér það að koma ekki oftar til hennar. Ykkur öllum erfingjum hennar votta ég samúð mína.

Grétar Haraldsson.