[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Björg Ágústsdóttir fæddist í Reykjavík 23. júlí 1982 en ólst upp í Búðardal. Hún var í fjölbrautaskóla á Akranesi en flutti síðar í Breiðholtið og bjó þar með fyrri barnsföður sínum og kláraði stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Lilja Björg Ágústsdóttir fæddist í Reykjavík 23. júlí 1982 en ólst upp í Búðardal. Hún var í fjölbrautaskóla á Akranesi en flutti síðar í Breiðholtið og bjó þar með fyrri barnsföður sínum og kláraði stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Lilju langaði ung að verða móðir og eignaðist fyrsta af fjórum sonum á 19. aldursári. „Það er stundum talað um það að það sé óráðlegt að svona ungir einstaklingar eignist börn en það er ekki mín reynsla. Ég var ekki alveg viss um hvað ég vildi gera varðandi nám en vissi hins vegar alltaf að ég vildi eignast barn ung og ákvað að gera það og það kippti mér svolítið niður á jörðina. Ég fékk aukahvatningu til að fara aftur í skóla og ég fékk skýrari framtíðarsýn fyrir vikið.“ Lilja lærði grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með B.Ed.-gráðu árið 2011 og starfaði samhliða náminu sem grunnskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar. Lilja sinnti starfi umsjónarkennara barna á yngsta og miðstigi og sinnti ábyrgðarhlutverkum eins og skipulagningu náms og kennslu og foreldrasamstarfi.

Árið 2013 ákvað Lilja að skella sér aftur í lögfræðinám en hún hafði áður stundað nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík en hætti þegar hún og Þorsteinn, núverandi eiginmaður hennar, fluttu í uppsveitir Borgarfjarðar eftir stutt stopp í Vogum á Vatnsleysuströnd. „Sama dag og ég kláraði síðasta stúdentsprófið fæddi ég annan soninn minn. Ég var í kvöldskóla og fór í síðasta þýskuprófið mitt klukkan átta um kvöld og sonur minn kom í heiminn seinna um nóttina. Eftir fæðingarorlofið fór ég í lögfræði í HR en við hjónin tókum ákvörðun um að flytja til Borgarfjarðar og hætti ég þá tímabundið í lögfræðinni.“

„Það var í rauninni maðurinn minn sem ýtti mér út í það að klára námið. Ég var búin með grunnskólakennarafræðin og hafði verið að kenna í einhvern tíma. Maðurinn minn benti mér þá á auglýsingu í blaðinu um námsframboð í Háskólanum á Bifröst og þá varð ekki aftur snúið. Lögfræðin hefur alltaf heillað og tengist beint áhuga mínum á samfélagsmálum, stjórnmálum og auðvitað lagaumhverfinu.“ Lilja útskrifaðist með B.Sc. í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst 2015. Hún komst fljótt upp á lagið og fékk til skiptis hæstu og næsthæstu einkunn í sínum árgangi. Hún var meðal annars aðstoðarkennari í Háskólagátt, frumgreinadeild, með laganámi og síðar stundakennari í lagadeild þar sem hún kenndi ýmis lögfræðinámskeið, aðallega réttarfar, almenna lögfræði og félagarétt. Lilja útskrifaðist með ML í lögfræði frá sama skóla árið 2017 og hlaut viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á meistaraprófi í lagadeild við Háskólann á Bifröst. Þá kláraði hún prófraun til öflunar málflutningsréttinda og varð héraðsdómslögmaður árið 2018. Hún réð sig til OPUS lögmanna snemma árs 2019 þar sem hún starfar í dag og hefur sinnt öllum almennum lögfræðistörfum, m.a. málflutningi, skjalagerð, hagsmunagæslu, skiptum dánar- og þrotabúa o.fl. en vinnur aðallega í forsjármálum í dag. Árið 2021 fékk Lilja eignarhlut í fyrirtækinu og er einn af fimm eigendum OPUS í dag samhliða því að sinna lögfræðistörfum.

Lilja hefur setið í sveitarstjórn Borgarbyggðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2018 og verið virk í sveitarstjórnarmálum frá 2012. Lilja var forseti sveitarstjórnar á síðasta kjörtímabili. „Ég sit í byggðarráði og er enn mjög virk á þessum vettvangi en hef verið að einbeita mér meira að lögfræðinni undanfarið.“

Helstu áhugamál Lilju eru ferðalög með fjölskyldu og vinum, prjónaskapur og hundarækt. „Ég keypti Cavalier-tík árið 2013 og fékk hálfgerða hundadellu fyrir vikið. Hún eignaðist aldrei hvolpa, en stuttu áður en hún dó í fyrra vorum við búin að fá okkur Pug-tík sem heitir Ugla og höfum við hug á því að hún muni eignast hvolpa næsta vetur. Þetta eru rosalega ljúfir og barngóðir hundar. Það er hægt að treysta þeim fullkomlega í kringum börn, gamalmenni, aðra hunda, og jafnvel ketti.“

Fjölskylda

Eiginmaður Lilju er Þorsteinn Pálsson, 29.9. 1983, sölustjóri hjá Steypustöðinni. Þau eru búsett í Borgarnesi og eiga þrjá syni: 1) Ágúst Páll Þorsteinsson, f. 10.12. 2004, nemi í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og búsettur í Borgarnesi. 2) Brynjar Þór Þorsteinsson, f. 2.2. 2010, nemi í Grunnskólanum í Borgarnesi. 3) Arnþór Freyr Þorsteinsson, f. 12.12. 2016, nemi í Grunnskólanum í Borgarnesi. Sonur Lilju úr fyrra sambandi er Benjamín Karl Styrmisson, f. 13.7. 2001, nemi í Verkamenntaskólanum á Akureyri. Maki hans er: Tanja Lilja Jónsdóttir, nemi í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri. Faðir Benjamíns er Styrmir Karlsson, f. 14.11. 1980, kokkur. Systkini Lilju eru: 1) Helga Halldóra Ágústsdóttir, f. 8.1. 1966, kennari, búsett í Osló, Noregi. 2) Sólveig Guðfinna Ágústsdóttir, f. 4.4. 1972, búsett í Reykjavík. 3) Magnús Freyr Ágústsson, f. 22.9. 1983, mjólkurfræðingur, búsettur í Noregi.

Foreldrar Lilju: Ágúst Magnússon, f. 3.3. 1947, d. 9.2. 2020, húsasmíðameistari, lengst af búsettur í Búðardal, og Sigríður Sæland Eiríksdóttir, f. 19.5. 1949, sjúkraliði, lengst af búsett í Búðardal en býr nú í Borgarnesi.